Nýjasta verk Guðrúnar Evu Mínervudóttur, Í skugga trjánna, ber undirtitilinn skáldsaga en virðist þó að öllu sköpulagi vera sjálfsævisögulegur texti. Sögukona okkar, kölluð Eva, segir okkur hvernig hún tekst á við skilnað við eiginmann og barnsföður. Hún lítur þá einnig til fortíðar og ræðir skilnað við fyrri eiginmanninn, en við slík rof í lífinu dúkka einatt upp önnur rof og áföll úr fortíðinni. Úr verður eins konar þroskasaga konu á miðjum aldri, eins mótsagnakennt og það hljómar, en mætti þó einnig kalla sögu af endurfæðingu skálds. Það er því tvöfalt endurlit í verkinu, til nýliðinna atburða og svo til fjarlægari sem spegla þá og setja í samhengi. Höfundur hefur áður sent frá sér skáldsögur sem bera með sér blæ minningabóka, dagbóka og/eða sjálfsævisagna, þar á meðal Albúm (2002) og Skegg Raspútíns (2016).
„Skráningarþörf sögukonu er rík og einbeitt og hún sýnir okkur hér og þar hvernig það myndast einhvers konar glufa eða op á milli skáldskaparins og veruleika svo flæðir vel á milli“
Skrif allt að því líkamlegt viðbragð
Þessi saga er römmuð inn með lýsingu af partíi í upphafskafla, nokkrum milliköflum og lokakafla, þar sem hálfókunnugt fólk hefur komið saman til að taka hugbreytandi efni í öruggu umhverfi. Sögukonan fer þó varlega í sakirnar en upplifir sig engu að síður í einhvers konar millibilsástandi og sögusviðið og persónurnar í veislunni virðast vera á öðru tilverustigi en persónur í öðrum hlutum verksins, einhvers staðar milli draums og veruleika eða ofskynjana og raunveru. Þessi innrömmun nýtist höfundi vel í að búa til tilfinningu fyrir innri framvindu eða hringrás í skilnaðarsögunum.
Að skrifa um atburði í lífi sínu er allt að því líkamlegt viðbragð hjá höfundinum, eins og hún skrifi atburði niður um leið og þeir gerast – a.m.k. innra með sér. Þetta minnir á þegar Sigurður Pálsson segir frá því í Bernskubók hvernig hann reyndi sem barn að halda heyskaparannál þar sem hann ætlaði að festa á blað allt sem gerðist á hverjum degi – hann baukaði við þetta langt fram eftir nóttu þar til að hann gafst upp, það var annaðhvort að lifa eða skrifa, hann réði ekki við að gera hvort tveggja í einu eða eins og segir í bókinni „veruleikinn hafði betur á hverjum einasta degi“ (Bernskubók, bls. 205).
Þörf fyrir að segja frá
Skráningarþörf sögukonu er rík og einbeitt og hún sýnir okkur hér og þar hvernig það myndast einhvers konar glufa eða op á milli skáldskaparins og veruleika svo flæðir vel á milli. Fólk sem hún rekst á í hversdeginum getur átt á hættu að rata í bók, eins og túristarnir sem hún selur gistingu. Þessa þörf segir sögukonan vera hluta af þeim eiginleika sem hún erfði frá föður sínum að fylgjast með fólki í kringum sig: „En ólíkt honum sem geymdi allt með sjálfum sér hafði ég þörf fyrir að segja frá. Skjalfesta. Dokúmentera“ (bls. 77).
Það var sagt um Victor Hugo að hann væri haldinn grafómaníu eða skrifæði, þvílíkur flaumur af textum liggur eftir hann, en hér kemur einnig til söfnunarárátta eða gríðarleg þörf fyrir að forða lífinu frá því að hverfa sporlaust – ástand sem margir sjálfsævisagnahöfundar hafa lýst í gegnum tíðina. Enda sagði höfundurinn í viðtali fyrir margt löngu að hún væri „ekki annað en bókagerðarvél“ (ívitnað í grein Þorgerðar E. Sigurðardóttur um höfundinn í Ritinu: Tímarit Hugvísindastofnunar 2003:1). En það eru líka raktar aðrar ástæður fyrir skrifþörfinni, þeirri sem kviknaði hjá henni á unglingsaldri: „Ég skrifaði vegna þess að heimurinn var eins og kaotískur basar fullur af varningi sem hrópaði: Taktu mig með þér heim! Með því að hlýða kallinu var hægt að henda reiður á hlutunum; lækna heiminn af sinni krónísku óreiðu […] Skáldskapurinn varð haldreipi og innri eldur“ (bls. 141). Aftur er hér kunnuglegt minni úr æviskrifum – að koma skikki á óreiðuna, að finna þráðinn í yfirþyrmandi flóði aðskiljanlegra minninga og atburða.
Minnishöll
Hugbreytandi eða hugvíkkandi efni, draumkennt ástand, millibil og yfirnáttúruleg svið tengir man nú helst við skáldskap symbólistanna og súrrealista – sjaldnar við verk bundin svo rækilega við hversdaginn eins og þessi. En þó, í minningarverki sínu Í leit að liðnum tíma er Proust einnig upptekinn af viðlíka ástandi – þ.e.a.s. að vera einhvers staðar á milli draums og veruleika og vakna smám saman til sjálfs síns með hjálp líkamsminnis. Það mætti líka kalla þá minnishöll sem opnast honum eftir smákökuát og tedrykkju annarlegt ástand fjarri áþreifanlegum hversdegi.
Skrifin eru einnig viðbrögð við áföllum, en áföll eru gegnumgangandi í sögunni – þau sem sögukonan glímir við, en einnig eldri sár annars fólks sem verður á vegi hennar, t.d. hjá þeim sem koma til hennar í ritunarbúðir, hjá stúlku sem hún tekur í tímabundið fóstur og au-pair stúlkurnar þeirra eiga ýmiss konar áfallasögur að baki. Þau áföll tengjast mörg hver fíknisjúkdómum sem skrifin eru viðbrögð við og svipta hulunni af til að brjótast undan þeim: „Leyndin og lygin vernda okkur fyrir augnaráði annarra. En þessir dyggustu þjónar Bakkusar, leynd og lygi, eyðileggja mann hægt og rólega innan frá“ (bls. 230).
Dregur okkur fimlega inn í sinn heim
Að skrifa um líf annarra er þó viðkvæmt og fjölmörg dæmi um sjálfs/ævisögur sem hafa valdið miklum usla í fjölskyldum, jafnvel lögsóknum eða þá einhvers konar svartextum. Hér vakna því spurningar um afhjúpun einkalífs, því ýmsar persónur eru kunnuglegar úr samtíðinni og sumar hverjar bera eigin nöfn, auk þess að skrifað er um börn sem fá litlu um það ráðið. Sögukonan reynir þó á eigin skinni að vera viðfangsefni annarra, t.d. þegar hennar fyrrverandi segir af henni sögur við mann og annan: „Það er óþægilegt að missa söguþráð eigin lífs út úr höndunum af því að einhver önnur manneskja er með mjög aktífar meiningar um hver þú sért. Samt er það að einhverju leyti hlutskipti okkar allra. Við getum ekki stjórnað því hvað aðrir segja um okkur“ (bls. 246). Þetta rímar vel við orð Barböru Johnson sem sagði eitt sinn í umfjöllun um ævisögu Sylviu Plath og Ted Hughes að það að einhver fylgist með manni sé einhvers konar rán, en okkar ævi sé einmitt það sem við getum ekki átt. Vitneskja um okkar líf sé alltaf nú þegar annarra.
Það koma augnablik í frásögninni þar sem texti og veruleiki renna svo kirfilega saman í eitt að það er eins og höfundurinn sé mættur og skrifi textann jafnóðum og lesandinn les. Þannig dregur sögukonan okkur fimlega inn í sinn heim í skugga trjánna. Þetta er innhverfur texti, sjálfsmiðaður bæði að efni og formi, en fjallar þó einnig um það að sjálfið mótast í samlífi með öðrum, hversdagurinn rúmar flókin tengslanet og það að hlusta á aðra, að vera „velviljað vitni“ (bls. 77), geti auðgað sjálf og hversdag.
Athugasemdir