Þessa dagana auglýsa ferðaskrifstofur ferðir fyrir fullorðna til London á endurskapaðan flutning fjögurra sænskra eftirlaunaþega frá sjöunda áratugnum. Í sérbyggðri sýningarhöll geta gestir upplifað endurflutning á gömlum dægurlögum hópsins. Nokkrar svipaðar tilraunir eru í undirbúningi en þeir ABBA-bræður eyddu löngum tíma og miklum fjármunum í að endurbyggja feril sinn. Þessa hugmynd grípur Ófeigur Sigurðsson í nýjasta skáldverki sínu, Skrípinu.
Skrásetjarinn ÓS hefur langa og ruglingslega upptöku af eintali, ranti sögumanns, vestur-íslensks tónlistarmanns og tónlistarunnanda sem hefur komist höndum yfir mynd og hljóðupptöku af tónleikum Vladimirs Horowitz í Moskvu 1986, tónsnillings af gamla skólanum. Í ruglingslegu og tætingslegu tali þessa íslenska Ameríkana eða ameríska Íslendings má greina feril tilraunar sögumannsins sem hyggst græða á endurflutningi tónleikanna frá 1986 með hologrammi eftir upptökunni.
„Ófeigur er feikiflinkur höfundur, orðsnjall og hugmyndaríkur
Spennandi staður á ritvellinum
Við erum stigin inn í ævintýri, framtíðarsögu, uppspuna skáldsagnahöfundar (ÓS) sem gefur honum tækifæri til að segja spennandi sögu, fulla af ofsóknarkenndum og ýktum atvikum sem eru kunnuglegt efni úr kvikmyndaframleiðslu: þrælar með inngróin stýrikefli, hofróður Hörpu (kvenkyns), konur sem eru ógnvekjandi, fyrirburðum úr liðinni sögu píanósnillingsins. Yfir þessu hangir gamall slæðingur úr forynjusögu Frankensteins. Spennandi staður á ritvellinum. Furðusagan sem er skráð eftir furðufugli, en rennur út.
Ófeigur er feikiflinkur höfundur, orðsnjall og hugmyndaríkur, sem skrifar í þessu riti í kubbóttum, stuttum stíl, þar sem stokkið er hratt á milli merkingarsviða af mikilli leikni og fyndni sem reyndar heimtar þaullestur, þú verður að bakka, lesa aftur, endurmeta. Þessi saga er ekki auðveld aflestrar. Fyrirgangur í röddinni – hetju frásagnarinnar – blæti hans fyrir skammstöfunum, fóbíu fyrir Covid, upplifun hans af stóru samsæri sem uppbyggt er með tilvísunum í heim ásanna sem er kærkominn inn í þessa furðusögu.
Hið óhugnanlega í tæknivæddum heimi
Þótt svipur sögunnar sé alþjóðlegur, stór suðandi pottur, þá er hún ansi lókal: Hörpu þekkja íslenskir lesendur en erlendir ekki par, þröngt söguumhverfi (Hótel Holt og götumynd Þingholtanna) er lókal og er ókunnugt erlendum augum. Ólíkindi sögunnar – fantasíuparturinn – kann að reynast mörgum torveldur en margir eru að fara inn í heima hindurvitna: nefnum bara Steina Braga. Hið óhugnanlega í tæknivæddum heimi, stafrænum að auki, er ekki nein smalamennska, súrsæt endurminning gaggó eða fjölbrautar, þessi þaulnýttu stef skáldsögunnar sem við höfum svo lengi japlað á. Fjöllin heima blah.
Því verður að gleðjast yfir nýjum lendum söguvilja ÓS eða Ófeigs sem er komin úr moldarkofunum. Aðdáendur hans eru ekki sviknir, nýir kunningjar verða til, brjótist þeir gegnum þessa erfiðu sögu.
Í hnotskurn: Furðusaga sem sundrast í sögulok.
Athugasemdir