Á Íslandi er hópur manna með alvarlega geðsjúkdóma sem brjóta af sér til að komast í fangelsi því geðdeildirnar vilja ekki taka við þeim. Þegar þeir eru ekki í fangelsi búa þeir á götunni og leita ásjár í neyðarskýlunum til að fá næturstað. Sumir þessara manna eru hættulegir, sjálfum sér eða öðrum. Stundum hvort tveggja. En enginn vill hafa þá. Enginn vill þá. Þeir gera það sem þeir þurfa til að lifa af, rétt eins og við hin. Þeirra leið er að komast í fangelsi.
Fyrir flesta er það hræðileg tilhugsun að lenda í fangelsi. Fyrir þá sem eru svo veikir af geðsjúkdómum og fíkn, sem reyndar er líka geðsjúkdómur, en eiga ekki í nein hús að venda þá getur fangelsi hreinlega verið griðastaður.
Þegar þeir reyna að komast inn á geðdeild er sagt: Nei, þessi maður er allt of mikill fíkill – við tökum ekki svona menn. Þegar þeir reyna að komast í meðferð er sagt: Nei, þessi maður er allt of geðveikur – við tökum ekki svona menn.
Þetta eru menn sem enginn vill taka ábyrgð á að sinna. Ríki og sveitarfélög kasta ábyrgð sinni á milli sín og afleiðingin er sú að manneskjur verða fórnarkostnaðurinn í baráttunni um að verja sem minnstum peningum í geðþjónustu og búsetuúrræði.
Saga Marks, saga margra
Mark Gunnar Roberts fannst meðvitundarlaus í fangaklefa sínum á Hólmsheiði nokkrum dögum fyrir síðustu jól. Hann var endurlífgaður og fluttur á sjúkrahús þar sem hann lést á Þorláksmessu 2023. Mark bjó á götunni um árabil og leitaði gjarnan í neyðarskýli á vegum Reykjavíkurborgar til að fá næturskjól. En Mark var ekki heimilislaus fyrst og fremst vegna þess að hann vantaði húsnæði. Vandi hans var miklu víðtækari og að stærstum hluta geðrænn. Hann var 42 ára gamall þegar hann lést.
„Hann sagðist oft vilja brjóta af sér til að komast aftur í fangelsi“
Í viðtali við Heimildina í febrúar sagði móðir Marks, sem þá var búin á því eftir áratugalanga baráttu til að fá viðeigandi geðhjálp fyrir son sinn: „Þetta er í raun og veru léttir, að hann fái hvíld frá þessum heimi. Lífið var orðið allt of erfitt fyrir hann.“
Mark var hluti af hópi manna sem flakka á milli fangelsanna og neyðarskýlanna. Þetta eru menn með vímuefnagreiningar og geðgreiningar, hluti af þeim sjálfræðissviptur. Síðustu árin átti Mark ekki í nein hús að venda önnur en neyðarskýli fyrir heimilislausa eða fangelsi. „Hann sagðist oft vilja brjóta af sér til að komast aftur í fangelsi,“ sagði viðmælandi Heimildarinnar sem þekkti Mark vel.
Þeir glæpir sem Mark heitinn var dæmdur fyrir í gegnum árin voru allt frá því að nota stolið greiðslukort á BK kjúklingi, innbrot þar sem hann stal topplyklasetti, peysu og bjórflöskum, og yfir í líkamsárás og líflátshótanir gegn lögreglumanni.
Sjóðheit kartafla
Nokkrum vikum fyrir andlátið varð Mark fyrir alvarlegri líkamsárás þar sem sparkað var í höfuð hans og hann stunginn með hnífi. Læknir var kallaður til en ekki var farið með Mark á sjúkrahús til aðhlynningar af þeirri ástæðu að hann afþakkaði það sjálfur. Engu að síður var hann sjálfræðissviptur á þessum tíma. Hann var svo veikur að hann var skyldaður af yfirvöldum til að mæta reglulega í sprautur með geðrofslyfjum, sem hann reyndar gerði ekki alltaf, en samt var hann talinn hæfur til að meta sjálfur hvort hann þyrfti á læknisaðstoð að halda eftir alvarlega líkamsárás. Mögulega lést hann af afleiðingum þessarar árásar. Enginn veit það hins vegar fyrir víst. Mark hafði oft verið sjálfræðissviptur. En hann varði lengri tíma ævi sinnar í fangelsi en inni á geðdeild.
Saga Marks er saga margra. Ríki og sveitarfélög kasta þessum mönnum á milli sín eins og heitri kartöflu. Dómsmálaráðuneytið bendir á heilbrigðisráðuneytið og heilbrigðisráðuneytið bendir á dómsmálaráðuneytið. Það kann að hljóma kaldranalegt að nota hér líkinguna um heita kartöflu því þeir eru manneskjur, en það er eins og kerfin líti einmitt alls ekki á þá sem slíkar; frekar eins og þeir séu einhver hlutur sem passar hvergi inn. Kubbur í Tetris sem er allt öðruvísi í laginu en hinir. En allir enda þeir aftur á götunni því það er eðli fangelsisdóma, að þeim lýkur.
Ýmist metinn sakhæfur eða ósakhæfur
Á vormánuðum sendi Fangelsismálastofnun erindi til þriggja ráðuneyta þar sem lýst var yfir áhyggjum af stöðu fanga sem væri að ljúka afplánun og myndi því brátt ganga laus. Maðurinn er misþroska og á við fíknivanda að etja, hann hefur verið metinn hættulegur sjálfum sér og öðrum, og talið nær öruggt að eftir afplánun myndi hann brjóta aftur af sér. Áhersla var lögð á að hann fengi stuðning og öruggt húsnæði eftir afplánun, en sá stuðningur sem hann hafði fengið í fangelsinu varð til þess að líðan hans og hegðun breyttist til batnaðar. Þetta erindi var sent til dómsmálaráðuneytisins, heilbrigðisráðuneytisins og félagsmálaráðuneytisins en enginn gerði neitt. Skömmu eftir að hann losnaði úr fangelsi var hann handtekinn vegna gruns um nauðgun og líkamsárás.
Í lok október var annar maður, karlmaður um fertugt, handtekinn vegna gruns um að hafa orðið móður sinni að bana. Konan, sem var á sjötugsaldri, fannst látin í íbúð sinni. Þessi maður var einnig nýlega laus úr fangelsi eftir að hafa afplánað dóm sinn. Ekkert og enginn tók við honum þegar hann losnaði út, nema öldruð móðir hans. Aðeins tvö ár eru síðan hann var ákærður fyrir tilraun til manndráps gegn henni. Niðurstaða geðrannsóknar var að hann væri sakhæfur, og hlaut hann tveggja ára fangelsisdóm. Því var hann sendur í fangelsi en ekki á stað sem er til þess gerður að veita honum viðeigandi læknisþjónustu. Þekkt var að hann átti við flókinn og langvarandi geðrænan vanda að etja og var til að mynda á réttargeðdeild um tvítugt. Árið 2006 gekkst hann líka undir geðrannsókn í kjölfar afbrota en þá var hann sýknaður því hann var metinn ósakhæfur, og vísað til meðferðar á stofnun en ekki til fangelsisvistar.
Mæður fanga óttaslegnar
Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu – félags fanga, hefur um árabil varað við því að mjög veikir einstaklingar séu vistaðir í fangelsum landsins og að eftir afplánun taki ekkert við þeim, mönnum sem sárlega þurfa á umfangsmikilli faglegri aðstoð að halda.
„Hættan varðandi þessa tvo einstaklinga var í raun fyrirséð og þeir eru aðeins hluti af ört stækkandi hópi sem er á leið í samfélagið eftir afplánun dóma og enn fleiri eru nú þegar frjálsir í samfélaginu,“ segir í yfirlýsingu sem Afstaða sendi frá sér eftir að síðastnefndu mennirnir tveir voru handteknir fyrir tæpum þremur vikum. Annar vegna gruns um nauðgun og líkamsárás, hinn vegna gruns um morð. Þetta eru menn sem vitað var að gætu verið hættulegir ef þeir fengju ekki nauðsynlegan stuðning, sem þeir fengu síðan alls ekki. Báðir afplánuðu þeir fullan dóm, án reynslulausnar, vegna þeirrar hættu sem talin var geta stafað af þeim.
„Hættan varðandi þessa tvo einstaklinga var í raun fyrirséð“
Guðbjörg Sveinsdóttir geðhjúkrunarfræðingur og faglegur ráðgjafi hjá Afstöðu, félagi fanga, sagði nýverið í samtali við RÚV félagið hafa fengið símtöl, sérstaklega frá mæðrum, sem treystu sér ekki til þess að hýsa syni sína eftir að þeir losni úr fangelsi – en að það sé oftar en ekki það eina sem sé í boði. „Aðstandendur þessara einstaklinga eru að hafa samband við Afstöðu og tjá kvíða og óöryggi og óvissu um framhaldið. Og það er ósköp skiljanlegt, sérstaklega í ljósi þessara atburða sem hafa átt sér stað undanfarið,“ sagði hún.
Veikum fanga vísað af geðdeild
Undir lok árs 2023 kom fram í fjölmiðlum að manni í gæsluvarðhaldi hefði verið neitað um innlögn á bráðageðdeild Landspítala en hann var á þeim tíma í geðrofi. Fangelsismálastofnun greindi frá því að Landspítalinn hefði tekið undir að maðurinn ætti að vera vistaður á geðdeild en hefði hins vegar sett það sem skilyrði að innlögn hans þar fylgdi mannskapur frá fangelsinu til að sitja yfir honum þar sem sólarhringsgæsla var nauðsynleg. Fangelsismálastofnun taldi sig ekki hafa rekstrarlegt svigrúm til þess, auk þess sem það væri hlutverk Landspítala að búa yfir mannskap til að annast sjúklinga hverju sinni. Fangaverðir hafi þó verið fengnir til verksins en þegar Fangelsismálastofnun hafi ekki lengur getað haft þá á spítalanum hafi manninum, fársjúkum, verið vísað af geðdeildinni og aftur í fangelsið.
„Ef allt um þrýtur er það forsætisráðherra að samhæfa störf ráðherra og ráðuneyta“
Fangelsismálastofnun kvartaði yfir þessum viðbrögðum Landspítalans til umboðsmanns Alþingis. Í skýrslu hans fyrir síðasta ár segir hann: „Líkt og ég hef áður bent á er skortur á samstarfi og samhæfingu innan stjórnsýslukerfisins ekki vandi sem bundinn er við æðstu stjórnendur þess, það er ráðherra og ráðuneyti þeirra. Eitt dæmi eru mál sem lúta að aðgangi fanga að bráðamóttöku geðdeilda. Er ljóst af þeim málum að skortur á samhæfingu kerfa heilbrigðismála og fullnustu refsinga getur leitt til hættu á því að einstaklingur fái ekki þá heilbrigðisþjónustu sem hann á þó rétt á samkvæmt lögum. Ef þeim stofnunum sem í hlut eiga, í þessu tilviki Landspítala og Fangelsismálastofnun, tekst ekki að leysa vanda þessa eðlis upp á eigin spýtur, svo sem virðist ítrekað vera raunin, þarf að koma til kasta ráðuneytanna og jafnvel ráðherranna sjálfra. Ef allt um þrýtur er það forsætisráðherra að samhæfa störf ráðherra og ráðuneyta þeirra þannig að órofin og heildstæð lagaframkvæmd sé tryggð.“
Að mati umboðsmanns Alþingis er heita kartaflan komin í hendur forsætisráðherra. Og nú hefur Fangelsismálastofnun aftur sent frá sér neyðarkall.
Viðvörunarorð
Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis fjallaði um þessi mál í mars, fyrir átta mánuðum. Í áliti hennar er bent á að mál fangans sem vísað var frá geðdeild eftir að Fangelsismálastofnun gat ekki sinnt mönnun á geðdeildinni væri alls ekki einsdæmi heldur hefðu viðlíka mál „ítrekað komið upp“. Þar var vísað í að umboðsmaður Alþingis hefði áður bent á að það væri „mjög erfitt að fá fanga með geðsjúkdóma lagða inn á bráðageðdeild. Þegar spítalinn hafi fallist á innlögn sé það almennt háð því skilyrði að fangaverðir séu til staðar á geðdeild meðan fangi dvelst þar. Slík ráðstöfun er kostnaðarsöm og ekki til að bæta úr undirmönnun sem fangelsi landsins glíma við.“ Þá sé það ekki hlutverk fangavarða að veita nauðsynlega heilbrigðisþjónustu.
„Nefndin lýsir yfir þungum áhyggjum af stöðu geðheilbrigðismála fanga“
Fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins „voru reifuð þau gagnstæðu sjónarmið að starfsfólk heilbrigðisþjónustunnar hefði almennt ekki forsendur til að taka á móti einstaklingum sem metnir væru óútreiknanlegir eða jafnvel hættulegir, ekki síst ef þeir væru undir áhrifum vímuefna. Starfsfólk heilbrigðisþjónustunnar þurfi að tryggja öryggi annarra sjúklinga og starfsfólks.“ Þá segir í álitinu, sem hér skal endurtekið að var gert fyrir átta mánuðum: „Nefndin lýsir yfir þungum áhyggjum af stöðu geðheilbrigðismála fanga.“
Staðan er sumsé sú að alvarlega veikir menn sem þurfa á lífsnauðsynlegri þjónustu að halda koma að lokuðum dyrum í heilbrigðiskerfinu. Afleiðingarnar geta verið banvænar – bæði fyrir þá sjálfa og þá sem á vegi þeirra verða.
Formaður Afstöðu segir þetta grafalvarlegt: „Ef ekki verður gripið til aðgerða nú þegar er hætta á því að fleiri hörmuleg atvik eigi sér stað.“
Athugasemdir (1)