Menningarblaðið í þetta sinn er gjörningur nemenda í menningarblaðamennsku á Hugvísindasviði Hákóla Íslands.
Ánægjulegt er til þess að vita að slíkur kúrs sé kenndur við Háskóla Íslands, enda felst margt í menningarblaðamennsku sem blasir kannski ekki við í fljótu bragði. Þessi angi blaðamennsku snýst ekki einungis um að birta rýni um verk og taka viðtöl við listamenn heldur er hún tæki til að rýna menningu samfélagsins og samfélaganna – um leið og hún speglar þau hvert í öðru.
Í þessu öfluga tæki býr leikur. Og eðli safaríkrar menningarblaðamennsku er meðal annars það að hún má og á að ögra. Brjóta upp hugmyndir og virka svolítið eins og gjörningalistamaður í umræðunni. Dirfast að gæla við brúnina; umbylta viðteknum hugmyndum og setja spurningarmerki við þær. Lýsa upp nýja vinkla. Skapa ferska umræðu. Opna á nýtt eða stærra samhengi hlutanna. Eitthvað óvænt sem þó dýpkar. Spyr spurninga. Stundum ósvífinna.
Að því leytinu til býr kröftug sköpun í henni sem teygir angana út fyrir hefðbundna blaðamennsku og yfir í listræna gjörninga.
Um leið rúmar hún fagurfræði, rétt eins og gagnrýna en skapandi hugsun.
„Undirrituð er reyndar þeirrar skoðunar að eins og herskylda ríkir í sumum löndum, þá væri ekki vitlaust ef hér þyrfti hver og einn að vinna eitt ár á ritstjórn, eftir lögmálum fagsins, áður en haldið er út í lífið
Fræðslugildi fjölmiðla
Greinar merktar henni mega vera aðeins skáldlegri en aðrar. Rými gefst fyrir efni sem einungis birtist á listrænum forsendum. Á sama tíma og hún er í samtali við listina. Skapar jarðveg þar sem takast má á um list og skapandi greinar en um leið samfélagið, auk þess að fræðast um listaverk og listamenn. Hún getur styrkt neytandann til þess að mynda sér sjálfstæðar skoðanir og hugsa út fyrir rammann. Þannig að neytandinn hugsi til dæmis: Ég get farið á myndlistarsýningu og hugsað mitt á mínum forsendum – ég er ekki að stíga inn í of lokaðan heim til þess.
Fjölmiðlar hafa fræðslugildi, hvort sem um er að ræða list eða lögfræðileg álitamál, eins og til að mynda Icesave-málið. Í umfjöllun um það tileinkaði almenningur sér hin og þessi lögfræðilegu hugtök við að lesa um málið. Hugtök sem gagnast áfram að kunna skil á. Þannig einkennir ýmsa norræna og þýska miðla að lesning á helgarblaði getur jafnast á við kvöldskóla. Ekki bara til að meðtaka staðreyndir heldur einnig til að öðlast tæki, sem búa í innsýninni, svo neytandinn dirfist til að hugsa á nýjan og margþættari hátt.
Um þetta hlutverk fjölmiðla er lítið rætt.
Hlutverk þeirra til valdeflingar almennings.
Gæti gagnast í fámennu samfélagi
Undirrituð er reyndar þeirrar skoðunar að eins og herskylda ríkir í sumum löndum, þá væri ekki vitlaust ef hér þyrfti hver og einn að vinna eitt ár á ritstjórn, eftir lögmálum fagsins, áður en haldið er út í lífið – til að skilja þann mekanisma. Nokkuð sem gæti gagnast í svo fámennu samfélagi, þar sem samfélagsmiðlar lita oft umræðuna á kostnað staðreynda og stjórnmálamenn kunna ekki alltaf að umgangast fjölmiðla sem skyldi.
En blaðið er að þessu sinni nemanna í menningarblaðamennsku. Stútfullt af fjölbreyttu efni. Hér leynast pennar framtíðarinnar!
Athugasemdir