Viðbúnaður var á Landspítalanum í lok október vegna komu erlendra þjóðarleiðtoga til Íslands þegar þing Norðurlandaráðs fór fram. Beiðnin um ráðstafanir innan spítalans kom frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra.
Í skriflegum svörum Landspítalans við fyrirspurnum Heimildarinnar segir að nokkrar hugsanlegar sviðsmyndir hafi verið undirbúnar. Þar á meðal tölvuárásir, eitranir, geislun, slys, tilfallandi veikindi einstakra aðila eða vegna hópatburða, til dæmis í kjölfar mótmæla.
Þá hafi spítalinn þurft að vera undirbúinn fyrir að skotárásir, sýkingar eða árásir á orkuinnviði ættu sér stað.
Samkvæmt Landspítalanum var hvergi aukið í mönnun vegna þingsins heldur aðeins skerpt á skipulagi og viðbragðsáætlunum. Þá segir í svörum spítalans að viðbúnaðurinn hafi ekki haft áhrif á þjónustu við sjúklinga. Enga þjónustu hafi þurft að skerða.
Enginn auka viðbúnaður vegna Selenskís
Þing Norðurlandaráðs fór fram í Reykjavík 28.-31. október síðastliðinn undir yfirskriftinni: „Friður og öryggi á norðurslóðum.“ Þingið sóttu meðal annars forsætisráðherrar hinna Norðurlandaþjóðanna auk Volodómírs Selenskís, forseta Úkraínu.
Að því er kemur fram í svari spítalans til Heimildarinnar var áætlunum ekki breytt eftir að í ljós kom að Selenskí væri væntanlegur til landsins, þá var enginn auka viðbúnaður innan spítalans vegna hans.
Það er í höndum Landspítalans að ákveða hvernig ráðstafanirnar eru útfærðar en áhættumati er komið til hans í samtali við almannavarnadeild ríkislögreglustjóra. Viðbúnaðurinn innan spítalans var minni núna í október en hann var þegar leiðtogafundur Evrópuráðsins fór fram í Reykjavík í maí 2023.
Áhersla á netöryggi
„Háttsettum aðilum erlendra ríkja fylgir öryggisgæsla þar sem vopnaburður er raunveruleikinn. Undir venjulegum kringumstæðum eru vopn eða vopnaburður óheimill innan Landspítala. Ef um er að ræða atburði sem koma fyrir háttsetta aðila þarf að vera búið að hugsa fyrir ferli þjónustunnar fyrir þá aðila ekki hvað síst vegna öryggisvarða. Í grunninn er þjónusta við aðila sem koma hér í opinberum erindagjörðum sú sama og veitt er dags daglega til annarra sem sækja þjónustu til Landspítala.
Í tilvikum á borð við risastóra atburði á borð við Evrópuráðs- og Norðurlandaráðsþing þar sem að öryggisógn er til staðar umfram það sem er daglega er brugðið á að bregðast við ógninni. Í tilviki Norðurlandaráðsþings var aðaláherslan á að standa vörð um netöryggi,“ segir í svari frá spítalanum.
Athugasemdir