Borgarráð samþykkti á fundi sínum í dag að fjármála- og áhættustýringarsvið Reykjavíkurborgar gengi til samningaviðræðna við hæstbjóðanda um kaup á Rafstöðvarvegi 4, svokallaðri Toppstöð, sem staðsett er í Elliðaárdal. Hæstbjóðandinn er Hilmar Ingimundarson, stofnandi fjártæknifyrirtækisins Kernel Edge, sem vill semja við borgina fyrir hönd óstofnaðs félags, UUT ehf.
Hilmar bauð 420 milljónir í húsnæðið en Landsvirkjun bauð 300 milljónir. Landsvirkjun var þó klár í að reiða fram enn hærri fjárhæð, 725 milljónir, fyrir húsnæðið, byggingarrétt og gatnagerðargjöld á sér lóð.
Matsnefnd taldi tillögu UUT falla best að „hugmyndum Reykjavíkurborgar um sjálfbærni, hönnun, kolefnislosun og önnur umhverfissjónarmið“. UUT – sem Hilmar stendur að ásamt Loga Ólafssyni, kennara og þjálfara, og Hallgrími Þór Sigurðssyni arkitekt – áformar að byrja niðurrif toppstöðvarinnar vorið 2025 og endurbyggja hana strax í kjölfarið. Rekstur í húsinu á að fara af stað eigi síðar en haustið 2028. Þar sjá Hilmar og félagar fyrir sér „miðstöð útivistar og jaðaríþrótta á höfuðborgarsvæðinu.“ Þetta er þó allt háð því að samningar náist við borgina og lánsfé fáist.
Hæsta boð langt undir fasteignamati
Söluferlið fór af stað í júnímánuði en Reykjavíkurborg hefur átt húsnæðið síðan árið 2008 þegar Landsvirkjun afsalaði sér lóðinni og Toppstöðinni, sem var þá varastöð Landsvirkjunar. Síðan hefur verið þar svokallað frumkvöðlasetur.
Stöðin er tæpir 6.500 fermetrar að stærð og er gildandi fasteignamat tæpar 775 milljónir króna, samkvæmt Reykjavíkurborg.
Borgin hefur þrisvar sinnum auglýst eftir samstarfsaðilum um uppbyggingu Toppstöðvarinnar undir jaðaríþróttir en þær viðræður skiluðu engri niðurstöðu og var því tekin ákvörðun um að selja.
Fimm tilboð bárust í eignina, en auk Hilmars og Landsvirkjunar bauð Akstursíþróttafélag Íslands upp á skipti á lóð, Félagið APT Holdings, sem er að stærstum hluta í eigu Róberts Wessmans, bauð 25 milljónir og Iða ehf. 287 milljónir króna.
Athugasemdir