„Við vistum of mörg börn í þessu húsi og með of fjölbreyttan vanda til að geta gert það á öruggan hátt öllum stundum.“ Þetta sagði forstöðumaður Stuðla, Úlfur Einarsson, í viðtali við Kveik sem birtist 15. október. Fjórum dögum síðar varð eldsvoði á Stuðlum með þeim hræðilegu afleiðingum að 17 ára drengur lést.
Forstjóri Barna- og fjölskyldustofu, Ólöf Ásta Farestveit, sendi þá frá sér tilkynningu þar sem fram kom að „öll vinna á heimilum og stofnunum Barna- og fjölskyldustofu miðar að því að öryggi barna og starfsfólks sé tryggt. Stofnunin harmar að það hafi ekki tekist í dag og er í djúpri sorg yfir þessu alvarlega atviki.“
Þegar sendur í leyfi
Þegar alvarleg mál koma upp er hefð að kalla einhvern til ábyrgðar, reyna það hið minnsta, allavega svona út á við. Viðbúið hefði verið að þarna yrði forstöðumaður Stuðla sendur í leyfi á meðan að rannsókn stæði yfir. Það var hins vegar ekki hægt því hann var þegar kominn í leyfi, eins og kom opinberlega fram daginn eftir að Kveiksþátturinn var sýndur. Barna- og fjölskyldustofa, sem Stuðlar heyrir undir, hafði þegar sent Úlf í ótímabundið leyfi.
Út á við virkaði þetta eins og þarna væri verið að hegna forstöðumanninum fyrir að segja frá, að leyfa öllum sem heyra vildu – en það eru sannarlega ekki allir – að ekki sé hægt að tryggja öryggi barna sem vistuð eru á meðferðarheimili ríkisins. Þetta er á sama tíma og vinna barnamálaráðuneytis stendur sem hæst við innleiðingu farsældarlaganna sem Ásmundur Einar Daðason, ráðherra málaflokksins, sagði á sínum tíma að væri „stærsta kerfisbreyting í málaflokki barna undanfarna áratugi“.
Sársaukinn lifir
Í umfjöllun RÚV í hádegisfréttum daginn sem drengurinn lést á Stuðlum var rætt við Funa Sigurðsson, framkvæmdastjóra meðferðarsviðs Barna- og fjölskyldustofu og starfandi forstöðumann Stuðla. Þar kom fram að gert hefði verið samkomulag við SÁÁ um tímabundin afnot af húsnæði á Vogi fyrir sum þeirra barna sem voru á Stuðlum þegar bruninn varð og eitt þeirra lést, en önnur hefðu verið send heim. „Það væsir svo sem ekkert um þau þar,“ sagði Funi, sem síðan var spurður af fréttamanni: Hvernig líður starfsfólkinu eftir að þetta gerist? Hann svaraði: „Við erum náttúrlega bara í sjokki og hér er búið að gráta heilan helling. Það er erfiði hlutinn í þessu, við erum bara ofsalega leið og erum bara mannleg. Við þurfum líka að hlúa að þessu starfsfólki.“
Það er skiljanlegt að starfsfólk sé miður sín þegar barn deyr í þeirra umsjá eftir að aðstæður bæði starfsfólks og barnanna eru orðnar óboðlegar af álagi. En það er ekki erfiði hlutinn í þessu. Erfiði hlutinn er að barn er dáið. Erfiði hlutinn er sársauki ástvina drengsins.
Furðulegi hlutinn í þessu er að vandinn hefur verið ljós árum saman. Endurtekið hefur verið kallað eftir hjálp og eftir aðgerðum. Foreldrar barna í vanda, fagfólkið sem vinnur með þeim af sinni bestu getu miðað við aðstæður, jafnvel börnin sjálf. Óskiljanlegi hlutinn í þessu er að aldrei hefur verið brugðist við af nægjanlegri festu.
Syrgir nú son sinn
„Þessi dagur er til að heiðra minningu þeirra sem hafa dáið úr sjúkdómnum en hann er einnig til þess að minna á að við megum aldrei gefast upp á að berjast fyrir þá sem eru enn lifandi og eru veikir,“ sagði Dagbjört Ósk Steindórsdóttir, formaður Samtaka aðstandenda og fíknisjúkra, þann 26. mars á þessu ári þegar minningarathöfn var haldin um þau sem hafa látist úr fíknisjúkdómnum, aðstandendur skrifuðu bréf til alþingismanna og rósir voru lagðar við þinghúsið til að minnast þeirra sem hafa látist en talað er um að allt að hundrað manns falli frá árlega vegna fíknisjúkdómsins.
Annar stjórnarmaður í samtökunum, Jón K. Jacobsen, sagði í samtali við Heimildina í marsmánuði: „Barnsmóðir mín dó úr þessu. Tveir úr vinahópi sonar míns létust á þriggja mánaða tímabli, annar 15 ára og hinn 17. Það er ekkert sérhæft úrræði fyrir börn í neyslu. Þegar börn eru komin í neyslu og áhættuhegðun teljum við að þau eigi ekki samleið með börnum með annars konar vanda,“ sagði hann þá. Jón hefur um árabil barist fyrir bættum aðbúnaði fíknisjúkra, og hann hefur ekki síst barist fyrir son sinn.
Í dag syrgir hann þennan sama son, Geir Örn Jacobsen. Hann er drengurinn sem lést í eldsvoðanum á Stuðlum. Jón segir í forsíðuviðtali Heimildarinnar að það hafi verið sama hvert hann leitaði þegar sonur hans var enn á lífi, hvergi hafi verið hjálp að fá: „Það er enga hjálp að fá fyrir þessa krakka í þessu samfélagi okkar.“ Honum finnst umræðan um „týndu börnin í kerfinu“ iðulega drukkna í fordómum í garð barnanna og fjölskyldna þeirra.
Jaðarsett börn og aðstandendur þeirra eru ekki þrýstihópur sem tekinn er nægilega alvarlega.
Lokað, lokað, lokað
Stuðlar er ekki sérhæft meðferðarrúrræði heldur eru þar reknar þrjár deildir; meðferðardeild, neyðarvistun og stuðningsheimili. Upphaflega voru Stuðlar hugsaðir sem staður til að taka á móti ungmennum með fíkni- eða hegðunarvanda. Nú er hann sí oftar nýttur á mun fjölbreytilegri hátt, til að mynda sem staður þar sem börn eru vistuð þegar þau eru í gæsluvarðhaldi – jafnvel mánuðum saman. Þetta meðferðarheimili ríkisins er því ekki sérhæft sem slíkt. Enginn slíkur staður er á Íslandi, sem sérhæfir sig í að taka á móti börnum og ungmennum með fíknivanda. Enginn. Það er furðulegi hlutinn í þessu.
Vorið 2018 var tilkynnt að sjúkrahúsið Vogur hætti að taka við ungmennum undir 18 ára aldri. Skömmu áður var greint frá því að lögreglan hefði til rannsóknar kynferðisbrot gegn sextán ára stúlku sem átti sér stað á sjúkrahúsinu fyrr um árið og lék grunur á að hún hafi verið beitt kynferðisofbeldi af eldri sjúklingi á meðan hún var inniliggjandi í áfengis- og vímuefnameðferð. Raunar hafði þá margoft verið bent á að ekki færi vel á því að ólögráða börn væru í meðferð á sama stað og fullorðnir einstaklingar. En þegar „bangsadeildinni“ á Vogi var lokað tók ekkert annað við. Ekkert. Það er fáránlegi hlutinn í þessu. Hluti barnanna sem voru á Stuðlum þegar drengurinn lést í brunanum voru síðan vistuð tímabundið á Vogi í framhaldinu.
Ári áður en Vogur hætti að taka við ungmennum í meðferð, 2017, hafði meðferðarheimilinu Háholt í Skagafirði verið lokað. Um það leyti tilkynnti ríkisstjórnin að ákveðið hefði verið a setja upp nýtt meðferðarúrræði nær höfuðborgarsvæðinu með það að markmiði að tryggja börnum nauðsynleg meðferðarúrræði og auka vægi gagnreyndra aðferða í stofnanameðferð og stuðla þannig að framkvæmd samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barna. Ekkert varð úr því.
Árið 2011 – fyrir þrettán árum – lagði Barnaverndarstofa, nú Barna- og fjölskyldustofa, fram mjög ítarlega greinargerð til þáverandi velferðarráðherra þar sem lagt var til að komið yrði á fót stofnun á höfuðborgarsvæðinu sem yrði sérstaklega hönnuð fyrir ungmenni sem ættu við mjög alvarlegan vímuefna- og/eða afbrotavanda að stríða og fyrir þá sem þyrftu að afplána óskilorðsbundna dóma. Þessi tillaga rataði inn í framkvæmdaáætlun stjórnvalda í barnaverndarmálum sem Alþingi samþykkti árið 2012. En ekkert varð af því að þessi stofnun yrði sett á laggirnar og fjárskorti borið við. Það er asnalegi hlutinn í þessu.
Velferðarráðuneytið, Barnaverndarstofa og Garðabær gerðu árið 2018 með sér viljayfirlýsingu um sameiginlega uppbyggingu á meðferðarheimili fyrir börn. Hún var undirrituð við hátíðlega athöfn við Vífilsstaðavatn. Til stóð að Barnaverndarstofa myndi annast rekstur meðferðarheimilisins og gert ráð fyrir að þar yrðu vistuð ungmenni á aldrinum 15 til 17 ára sem glíma við hegðunar- og vímuefnavanda. Jafnframt var gert ráð fyrir vistun ungmenna á heimilinu sem úrskurðuð hafa verið í gæsluvarðhald. Síðasta sumar, 2023, samþykkti bæjarstjórn Garðabæjar samning um úthlutun á lóð fyrir meðferðarheimilið sem byggði á viljayfirlýsingunni frá 2018. Ekkert hefur spurst til fyrirhugaðrar starfsemi síðan.
Ekkert í augsýn
Börnum og ungmennum með alvarlegan hegðunar- eða fíknivanda hefur fjölgað á sama tíma og úrræðum til að hjálpa þeim hefur fækkað. Meðferðarheimilinu á Lækjarbakka á Suðurlandi, fyrir börn með alvarlegan hegðunarvanda, var lokað í vor eftir að þar kom upp mygla. Annað húsnæði var leigt undir starfsemina, við Selfoss, en þar kom einnig í ljós mygla. Starfinu hefur ekki verið fundinn nýr staður.
Stuðlar voru opnaðir aftur í vikunni en starfsemin þó skert þar sem ein álman er ónothæf vegna brunans. Sum þeirra sem voru þar fyrir eldsvoðann eru því aftur komin á Stuðla. Óskað var eftir aðstoð lögreglu um helgina við leit að tveimur unglingum sem hafði verið farið með aftur heim til sín, jafnvel þannig að foreldrar fengu lítinn sem engan fyrirvara til að taka á móti þeim – börnum sem voru í þannig stöðu að metið hafði verið nauðsynlegt að vista þau á lokaðri meðferðarstofnun – en þessi tvö börn struku af heimilum sínum þegar þau voru skilin þar eftir. Annað þessara barna var 15 ára drengur sem hafði verið á Stuðlum síðan í ágúst. Mbl.is ræddi við foreldra hans sem sögðu hann hafa strokið fjórum sinnum af Stuðlum og viðbúið hafi verið að hann myndi einnig strjúka heiman frá sér. Hann strauk 20 mínútum eftir að hann kom heim. „Þegar sonur minn kom heim sagðist hann hafa séð drenginn borinn út á börum og að hann héldi að hann væri dáinn. … Börnin sem voru keyrð heim fóru heim með þetta í bakpokanum, ekki fengu þau neina áfallahjálp. Þeim var bara skutlað heim eftir að hafa horft upp á þetta,“ sagði móðirin í samtali við Mbl.is
Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra sagði í samtali við RÚV daginn eftir að drengurinn á Stuðlum lést að það hafi gengið hægar en áætlað var að koma á laggirnar úrræðum fyrir börn í vanda en forgangsraða þurfi fjármunum í málefnum barna. „Ég vil bara segja það að það er fátt sem ég brenn meira fyrir heldur en málefni barna,“ sagði Ásmundur Einar eftir brunann. „Síðasti sólarhringur hefur verið erfiðasti sólarhringur í mínu ráðherrastarfi, að verða vitni að því sem við sjáum hér,“ sagði hann.
Brotið á réttindum barna
Eftir Kveiksþáttinn sagði Salvör Nordal, umboðsmaður barna, að alvarlega væri brotið á réttindum barna inni á Stuðlum, og öryggi þeirra sé ekki í fyrirrúmi ef þeim er hópað saman óháð aldri og án viðeigandi aðstöðu eða meðferðar. Ekki verði hægt að bæta úr ástandinu svo lengi sem aðbúnaður starfsfólks sé eins slæmur og raun ber vitni. Þetta sagði Salvör í Morgunútvarpinu á Rás 2 tveimur dögum eftir að Kveikur var sýndur, þremur dögum áður en drengurinn lést í eldsvoðanum.
Þar sagði Salvör einnig að umfjöllunin hafi sýnt allt aðra stöðu en mennta- og barnamálaráðuneytið hafi greint umboðsmanni barna frá í sumar, eftir að embættið óskaði eftir skýringum á fjögurra vikna sumarlokun meðferðardeildar Stuðla. „Fengum bréf til baka sem lýsti frekar góðri stöðu og að á meðferðardeildina væru engir biðlistar, það væri búið að vinna niður biðlista. Með þessu væri verið að tryggja börnum í viðkvæmri stöðu bestu meðferð sem völ er á.“ Þá sagði Salvör að sum börn endi á að vera vistuð á Stuðlum því það vanti úrræði vegna fjölþættra vandamála og miðað við það sem á undan er gengið séu úrbætur ekki fyrirsjáanlegar. „Það hafa verið margir starfshópar. Það er búið að vinna margar skýrslur. Það vita allir að það er þörf á þessu úrræði og fleiri jafnvel en einu, það er enginn ágreiningur um það. Það hins vegar stendur á framkvæmdum,“ sagði Salvör. Það ótrúlega í þessu er að enginn virtist kippa sér upp við þetta. Þar til kviknaði í.
Til stendur að hluti af starfsemi Stuðla verði fluttur í Skálatún í Mosfellsbæ, í húsnæði sem var ekki hannað fyrir starfsemina, auk þess sem þegar hefur fundist mygla í ákveðnum hluta þess. Ekkert annað er í augsýn. Það er það lygilega í þessu.
Engum skal vísa frá
Þegar Ásmundur Einar tók við sem félags- og jafnréttismálaráðherra árið 2017 óskaði hann sérstaklega eftir því að hann fengi að lyfta málefnum barna og taka fyrstur upp titilinn barnamálaráðherra. Þann titil fékk han formlega árið 2019 sem félags- og barnamálaráðherra, og 2021 tók hann við sem mennta- og barnamálaráðherra.
Stjórnarráðið birti á vef sínum 2019 mynd af Ásmundi Einari ásamt Funa Sigurðssyni, þáverandi forstöðumanni Stuðla, þar sem greint var frá því að börnum sem vísað er á Stuðla hafi fjölgað. Þá kom fram að Ásmundur Einar hafi „lagt ríka áherslu á að bregðast við því og gaf undir lok síðasta árs út þau tilmæli að engum börnum skyldi vísað frá neyðarvistun Stuðla, en þá hafði í einhverjum tilfellum þurft að vista þau í fangaklefum vegna plássleysis. Var í kjölfarið gripið til þess ráðs að breyta húsnæði Stuðla og bæta við plássum.“ Þetta er enn staðan í dag, og möguleikar Stuðla til að vísa börnum frá eru takmarkaðir því það er enginn annar sem getur tekið við þeim – tryggt þeim öryggi, hlúð að þeim og gefið þeim tækifæri. En Stuðlar geta ekki alltaf tekið við. Staðan í dag sýnir það glögglega. Starfsfólk Stuðla hefur kallað á hjálp og á það þarf að hlusta.
Erfiði hlutinn í þessu er að barn er dáið. Barnamálaráðherra – þú átt leik.
Athugasemdir (1)