Árið 2015 steig Hallgrímur Helgason fram sem þolandi nauðgunar en í skáldsögunni Sjóveikur í München hafði hann skrifað um þegar ókunnugur karlmaður nauðgaði honum. Í kjölfarið var hæðst að honum í nafni bókmenntaumræðu. Guðbergur Bergsson skrifaði meinhæðinn pistil í DV og spurði meðal annars: „Hvaða kynvillingur hefur haft svona slæman smekk?“
„Where do we go from there?“
Mörgum blöskraði og einhverjir vildu brenna bækur Guðbergs en þáttastjórnandi menningarþáttarins Víðsjá á RÚV, Eiríkur Guðmundsson heitinn, kynti undir hæðni Guðbergs nokkru síðar í pistli í útvarpi allra landsmanna. Hér er bútur úr honum:
„Eitthvað í menningu okkar veldur því að einn virtasti höfundur þjóðarinnar, ákveður nú, á sextugsaldri, að segja frá sárri reynslu á sínu eigin prívat sviði. Ef maður leyfir sér að fitna eins og púki eða hvert annað kvikindi á fjósbita gæti maður sagt að nú um stundir snúist allt, og ekki bara bókmenntirnar, um það að sveifla sér með sem allra mestum glæsibrag inn í sviðsljós fjölmiðlanna, með játninguna og sársaukann að vopni, undir yfirskriftinni: Hér fáið þið ævi mína ómengaða, mér hefur líka liðið illa. Einum er nauðgað í München, annar missir tittlinginn á Landakoti, where do we go from there?“
„Þeir sem báðir töldust vera með frumlegustu hugsuðum samfélagsins smættuðu þolanda nauðgunar.“
Smættuðu þolanda nauðgunar
Þarna var um að ræða tvo skáldakarla, Guðberg og Eirík, sem höfðu tileinkað sér kúnstina að vera ögrandi í skrifum sínum, báðum var aldeilis lagið að leika með kitlandi ósvífni til að vera lifandi og ögrandi pennar en að þessu sinni virtist hvorugur gera sér grein fyrir alvöru málsins.
Með með þessum skrifum voru þessir frjálsu og frjóu hugar, sem höfðu svo oft hreyft við íhaldssömum kreddum, skyndilega búnir að skipa sér á bekk með varðmönnum margumrædds feðraveldis – og ofbeldis. Þeir sem báðir töldust vera með frumlegustu hugsuðum samfélagsins smættuðu þolanda nauðgunar. Karlmann sem hafði sýnt það hugrekki að stíga fram. Hinir framúrstefnulegu pennar birtust þá sem forneskja.
Hallgrímur steig fram áður en vitundarvakning MeToo hafði rótað í hugum fólks hér heima. Líkt og í list sinni var hann ísbrjótur þegar hann, sem karlmaður, sagði frá ofbeldinu sem hann hafði verið beittur. En samfélagið var þess ekki fyllilega umkomið að grípa hann. Þess í stað upplifði hann að vera hæddur og smættaður af kollegum sínum. Röddum íslenskrar menningar – í valdi hennar.
Í dag, eftir vitundarvakningu síðustu ára, jafnt sem aukna meðvitund um áfallastreitu og eitur þöggunar, blasir við að ráðist var á hann með ísmeygilegu móti. Mögulega af skorti á innsýn. En það afsakar ekkert.
Athugasemdir