71 prósent þjóðarinnar er ánægð með endalok ríkisstjórnarsamstarfs Sjálfstæðisflokksins, Framsóknar og Vinstri grænna samkvæmt niðurstöðum könnunar Prósents sem framkvæmd var 14. til 18. október. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sleit ríkisstjórnarsamstarfinu 13. október sl. og boðað hefur verið til alþingiskosninga 30. nóvember.
19 prósent svarenda könnunarinnar eru hvorki ánægð né ónægð með ákvörðunina en 10 prósent eru óánægð með endalok ríkisstjórnarinnar. Mestu ánægjuna með ákvörðunina um stjórnarslitin má finna hjá fylgjendum Sósíalistaflokksins, en 84 prósent þeirra sem segjast ætla að kjósa flokkinn eru ánægð með stjórnarslitin. Þar á eftir koma kjósendur Flokks fólksins (82 prósent), Miðflokksins (81 prósent), Samfylkingar (80 prósent) og Viðreisnar (80 prósent). Þá eru 72 prósent kjósenda Pírata ánægð með stjórnarslitin og 77 prósent hins nýstofnaða Lýðræðisflokks Arnars Þór Jónsson forsetaframbjóðanda.
Minnsta ánægjan meðal fylgjenda ríkisstjórnarflokkanna
Minnstu ánægjuna er að finna hjá fylgjendum ríkisstjórnarflokkanna, þ.e. Sjálfstæðisflokksins, Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs og Framsóknarflokksins. 61 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins eru ánægðir með stjórnarslitin en 13 prósent eru óánægðir. Afstaða kjósenda Framsóknarflokksins dreifist öllu jafnar en 36 kjósenda flokksins eru ánægðir, 35 prósent hvorki né og loks 29 prósent óánægðir.
Kjósendur Vinstri grænna eru óánægðastir með stjórnarslitin, eða 39 prósent kjósenda flokksins. 16 prósent eru hvorki ánægðir né óánægðir en 45 prósent eru ánægðir. Svandís Svavarsdóttir, formaður Vinstri grænna, sagði stjórnarslitin hafa komið henni í opna skjöldu og sagði Bjarna Benediktsson ekki hafa gefið neitt um stjórnarslitin til kynna þegar formenn ríkisstjórnarflokkanna funduðu degi áður. Vinstri græn eru ekki hluti af starfsstjórn sem mun sitja fram að kjördegi 30. nóvember.
Athugasemdir (1)