Borgarráð hefur samþykkt að heimila umhverfis- og skipulagssviði að bjóða út framkvæmdir vegna endurbóta á húsnæði leikskólans Brákarborgar. Áætlaður kostnaður við framkvæmdirnar er um 200 milljónir króna.
Leikskólinn Brákarborg var áður til húsa við Brákarsund en starfsemin var flutt á Kleppsveg 150 til 152 sumarið 2022 í uppgert húsnæði þar sem kynlífshjálpartækjaverslunin Adam og Eva var áður til húsa. Á Brákarborg eru 100 börn á sex deildum og á leikskólanum starfa um 30 manns. Þegar leikskólinn tók til starfa á Kleppsvegi fékk Reykjavíkurborg viðurkenninguna Grænu skófluna fyrir byggingu leikskólans en verðlaunin eru veitt fyrir mannvirki sem byggt hefur verið með framúrskarandi vistvænum og sjálfbærum áherslum.
Skömmu eftir verðlaunaafhendinguna ákvað umhverfis- og skipulagssvið að fara í ítarlega skoðun á burðarvirki Brákarborgar í kjölfar ábendingar starfsfólks. Reykjavíkurborg fékk verkfræðistofurnar Verkís og VSÓ til að taka út burðarvirki leikskólans eftir að athugasemdir bárust. Niðurstaða þeirra er að þakið stenst ekki ítrustu staðla nútímabygginga varðandi burðarþol. Í ljós kom að reiknað álag frá ásteypulagi og torfi á þakinu var meira en tilgreint var á teikningum.
„Því sé ljóst að mistök voru gerð í hönnun og/eða framkvæmd við Brákarborg. Reykjavíkurborg hefur þegar sent öllum verktökum og ráðgjöfum sem komu að verkinu formlegt bréf þar sem tilkynnt er um mögulega hönnunar- og eða framkvæmdagalla og að skoðað verði hvar ábyrgðin liggi,“ segir í greinargerð borgarráðs sem Einar Þorsteinsson borgarstjóri undirritaði 20. ágúst síðastliðinn. Ákveðið var að rýma leikskólann og var starfsemin flutt í Ármúla 28 til 30 þar sem hún verður á meðan framkvæmdir standa yfir.
„Því sé ljóst að mistök voru gerð í hönnun og/eða framkvæmd við Brákarborg“
Í framhaldi af því var lagt til að borgarráð samþykkti að fela Innri endurskoðun og ráðgjöf Reykjavíkurborgar að ráðast í heildarúttekt á ferlinu í kringum byggingu leikskólans Brákarborgar þegar kemur að hönnun, framkvæmdum og eftirliti leikskólans. Það hefur nú gengið eftir og áætlað er að framkvæmdir hefjist bráðlega. Meðal þess sem verður gert er að fjarlægja torf af þaki leikskólans, uppbygging þakvirkis verður endurskoðuð og endurhönnuð ásamt því að styrkingum verður bætt við innanhúss.
Foreldrar á Brákarborg voru boðaðir á upplýsingafund á miðvikudag þar sem farið var yfir framkvæmdaáætlun. Áætlað er að framkvæmdunum verði lokið á fyrri helmingi næsta árs.
Athugasemdir