„Forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson, hefur beðist lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt. Því liggur fyrir að ríkisstjórnin hefur lokið erindi sínu. Samtöl leiddu ekki til annarrar lausnar á þeirri stöðu sem upp er komin og það er niðurstaða þingflokks VG að taka ekki þátt í starfsstjórn undir þessum kringumstæðum. Ráðherrar VG verða frá og með morgundeginum almennir þingmenn og munu nálgast þau brýnu mál sem nauðsynlegt er að ljúka á Alþingi af ábyrgð og skyldurækni. Ég hef fulla trú á þinginu, það hefur áður tekist á við flókna stöðu.“
Þetta kemur fram í Facebookfærslu Svandísar Svavarsdóttur, formanni Vinstri grænna, sem hún birti um það leyti sem Bjarni Benediktsson gekk út af fundi við forseta Íslands þar sem beiðni hans um heimild til að rjúfa þing var samþykkt. Bjarni gaf þá engin afdráttarlaus svör um hvort ráðherrar Vinstri grænna myndu starfa í þeirri starfsstjórn sem nú tekur við fram að kosningum sem fara fram 30. nóvember. Bjarni sagðist þó ekki vita til þess að ráðherrar almennt hafi áður neitað að starfa í starfsstjórnum og ítrekaði mikilvægi starfa þeirra og skyldur. Hann sagði þó ennfremur að það væri ekkert mál ef einhverjir ráðherrar myndu ákveða að hætta.
Í færslunni séri Svandís sér þvínæst að kosningabaráttunni framundan.
„Ákall almennings eftir lausnum, vegna verðbólgu og vaxta, í efnahagsmálum, húsnæðismálum, í almannaþjónustu og fleiri mikilvægum málaflokkum heyrist skýrt. Við í VG teljum að það sé enginn lausn önnur en öflug félagshyggja, ekki séu aðrar leiðir færar til þess að takast á við raunverulegar áskoranir samtímans. Í anda félagslegs réttlætis, femínisma, friðar og grænna stjórnmála höldum við á fund kjósenda.
Erindi VG er skýrt, við munum gera okkar til þess að vinstrið eigi öfluga rödd á Alþingi Íslendinga fáum við til þess umboð. Ég hlakka til! Sjáumst þarna úti.“
Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, ávarpaði blaðamenn í kjölfar fundar við Bjarna sem lauk skömmu fyrir klukkan fimm. Þar sagðist hún telja segist „heillavænlegast“ fyrir þing og þjóð að gengið verði til kosninga. Því hyggist hún fallast á tillögu forsætisráðherra um að þing verði rofið.
Bjarni ræddi þvínæst við blaðamenn og sagði gott að það sé komið á hreint að þingrofsbeiðnin hafi verið samþykkt „og nú stefnum við á kosningar 30. nóvember eins og ég lagði upp með. Nú hef ég samþykkt að sitja í starfsstjórn eins og fyrirséð var að myndi gerast,“ segir Bjarni.
Þegar þessi formsatriði séu frá þurfi að binda um síðustu málin á þinginu og segir Bjarni fjárlögin þar fara fremst.
Spurður hvort ráðherrar Vinstri grænna ætli að sitja í starfsstjórninni segir Bjarni ekki kannast við að það hafi gerst að ráðherrar neiti slíku. Það kæmi honum „verulega á óvart“ ef ráðherrar „sem hafa ríkum skyldum að gegna“ myndu ekki sitja í starfsstjórn. Bjarni virtist þó ekki hafa fengið svör frá Vinstri grænum um þetta.
Á svipuðum tíma og hann ræddi við blaðamenn birti Svandís færslu sína þar sem kom fram að Vinstri græn tækju ekki þátt í starfsstjórninni.
Athugasemdir (1)