Nú fer að líða að því að hrekkjavakan renni upp með tilheyrandi myrkraverum, köngulóarvef í metravís og glottandi graskerjum. Hér á Íslandi er löng og rík hefð fyrir því að við hræðum hvert annað með sögum af blóðþyrstum tröllum og illum vættum. Það var því kannski ekkert skrítið hversu fljót hrekkjavakan var að ryðja sér til rúms.
Í ár hefur einn hópur fólks hins vegar ákveðið að sleppa alveg gerviblóðinu og vígtönnunum. Þau klæddu sig bara í jakkaföt og buxnadragtir áður en þau tóku upp vasaljósið og tuggðu í eyru okkar hryllingssögu sem láta hárin rísa … af VONDA HÆLISLEITANDANUM.
Lentir þú í að vera lagður inn á sjúkrastofu sem er bókstaflega klósett af því að þú fékkst nýrnasteina? Þarftu að borga hundruð þúsunda mánaðarlega í húsnæðislán sem hækkar bara? Ertu einstæð móðir sem hrekst úr einu leiguhúsnæði í annað? Þurftirðu að lýsa þig gjaldþrota eftir að hafa fengið holu í jaxl? Þakkaðu HÆLISLEITANDANUM sem leynist í skuggunum. Ef ekki væri fyrir hann byggir þú örugglega líka í einbýlishúsi í Garðabæ!
Hér er um að ræða beint framhald af hryllingssögunni um LATA ÖRYRKJANN. Þið munið kannski eftir þeirri kynjaskepnu. Afætan sem lá á okkur eins og mara og blóðmjólkaði þar til ekkert var eftir nema skorpnir innviðir og svartur kóði á bráðamóttökunni.
„Stóra vandamálið í lífi þínu eru ekki hælisleitendur eða öryrkjar“
Það er gott að verða svolítið hræddur yfir góðri hryllingssögu en það er líka mikilvægt að kveikja ljósin og minna sig á að þetta er jú bara saga. Við búum í litlu hagkerfi sem er að miklu leyti drifið áfram af erlendu vinnuafli. Stóra vandamálið í lífi þínu eru ekki hælisleitendur eða öryrkjar. Kenndu þeim um sem hafa öllu ráðið, nánast linnulaust, um áratugabil. Alvöru blóðsugurnar eru þær sem moluðu í sundur innviði okkar og auðlindir til að geta selt þær til vina og vandamanna. Raunverulegu skrímslin eru þau sem mergsjúga þig hver einustu mánaðamót þannig að þú getur ekki keypt kuldaskó á krakkann án þess að hækka yfirdráttinn. BÚ.
Athugasemdir (2)