Árið er 2918. Krambúleruð kókdós finnst við fornleifauppgröft. Aldursgreining bendir til að hún sé frá árinu 2024. Sérfræðingur segir dósina heimild um að í gamla daga hafi fólk drukkið drykk sem kallaðist Kók. Annar segir hana sýna að fólk hafi verið svo latt við uppvaskið að það drakk vökva beint úr einnota ílátum. Sá þriðji segir fundinn staðfesta að árið 2024 hafi fólk innbyrt allt of mikinn sykur, sá fjórði að matvælaframleiðendur hafi látið sig umhverfið litlu varða og farið ósparlega með pakkningar.
Í síðustu viku kom upp á yfirborðið heimild sem sögð er sýna fram á að Davíð Oddsson, fyrrverandi forsætisráðherra, hafi í valdatíð sinni hugsað og hegðað sér „eins og fasisti“. Er fullyrðingin ein af mörgum áfellisdómum yfir samtíðarmönnum í dagbókarbrotum Ólafs Ragnars Grímssonar, fyrrverandi forseta, sem komin eru út á prenti. Bók Ólafs Ragnars er sannarlega safarík lesning.
En er hún meira en það?
Hið allra helgasta
Við upphaf aldarinnar skrifaði ég lokaritgerð í sagnfræði um tónskáldið Jón Leifs. Hvorki persónan Jón Leifs né tónlist hans nutu sérstakrar hylli meðal samtíðarmanna hans. Sú staðreynd varð þó aldrei til að draga úr þeirri trú hans að hann ætti heima á spjöldum sögunnar. Vini sínum skrifaði Jón árið 1930: „Ég er ekki í neinum vafa um að verk mín muni öðlast sitt varanlega gildi, þó að ekki verði það fyrr en eftir minn dag.“
Ekki er laust við að sá grunur læðist að þeim sem rannsakar sögu Jóns Leifs að hann sé peð í tafli Jóns. Ósjaldan er sem Jón leggi heimildir fyrir sagnfræðinginn eins og veiðimaður snöru fyrir bráð.
Í formála dagbókar sem Jón hóf að halda á sextánda aldursári ritaði hann: „Þetta, sem eg hér mun skrifa, ætlast eg ekki til að nokkur maður sjái. … Það sem hér er ritað er frá mér og til mín … En þegar dagar mínir eru liðnir, kunna, ef til vill, einhverjir að „gægjast inn í hið allra helgasta“.“
Jón Leifs og Ólafur Ragnar Grímsson eiga það sameiginlegt að leyfa okkur að „gægjast inn í hið allra helgasta“ sem þó er skrifað fyrir opnum tjöldum. Það er hins vegar ekki það eina sem þeir eiga sammerkt.
Jón Leifs gætti þess vel að varðveita gögn um sjálfan sig. Hann geymdi bréf sem honum bárust, tók afrit af bréfum til varðveislu sem hann sjálfur skrifaði öðrum og lagði mikið á sig til að endurheimta kistil sem innihélt heimildir um líf hans eftir að hann yfirgaf Þýskaland í síðari heimsstyrjöld. Í skjölum Jóns má lesa um hversu ómenntaðir, „lítt kunnandi“ og metnaðarlitlir samferðarmenn Jóns voru þegar kom að því að reisa íslenskt tónlistarlíf úr öskustónni samanborið við Jón sjálfan sem var hámenntaður stórhugi sem virðist einn láta sig varða „heiður landsins út á við“.
„Sagan mun fara um mig mjúkum höndum því ég hyggst skrifa hana sjálfur,“ er gjarnan haft eftir Winston Churchill.
Bókin er liður í ímyndarsköpun og fer á spjöld sögunnar sem upphafin Instagram-færsla
Í dagblaðadálkinum „Orðið á götunni“ á DV.is er því haldið fram að með útgáfu dagbókar sinnar reyni Ólafur Ragnar Grímsson að tryggja að sagan verði skrifuð honum í hag. „Tilgangur Ólafs Ragnars með því að birta í bók valda kafla úr hugleiðingum sínum er greinilega að upphefja sjálfan sig á kostnað margra helstu stjórnmálamanna síðari ára hér á landi“ – en þeir eru kallaðir „aumingjar“ og athafnir þeirra „mistök“. Sagnfræðingurinn Sigurður Gylfi Magnússon gagnrýnir dagbókina í umræðu á Facebook og segir skrifin „eingöngu sett fram til að villa um fyrir „söguskoðun“ framtíðarinnar“.
Heimild um hvað?
Árið er 2918. Krambúlerað eintak af dagbók Ólafs Ragnars Grímssonar finnst við fornleifauppgröft. Á bókarkápu er henni lýst sem „einstæðri heimild“. En heimild um hvað?
Ekkert skal ályktað hér um hvort Davíð Oddsson hafi hugsað og hegðað sér eins og fasisti. Eitt er þó ljóst. Dagbók Ólafs Ragnars Grímssonar er ekki að neinu leyti heimild um fasískar tilhneigingar fyrrverandi forsætisráðherra.
Ef dagbók Ólafs Ragnars Grímssonar er heimild um eitthvað er hún heimild um þær aðferðir sem menn nota til að stýra eigin sagnaritun. Bókin er liður í ímyndarsköpun og fer á spjöld sögunnar sem upphafin Instagram-færsla, jafnmarktæk heimild um fortíðina og fótósjoppað bros undir myllumerkinu #lifa-og-njóta er um hamingjuna.
Ég mun þurfa að lifa við það sem eftir er að hafa kosið hann bæði til Alþingis og forsetaembættisins. 😪😪😪
En, ég ber enga ábyrgð á kjöri Davíðs Oddssonar, hvorki í eitt né neitt.🤢
Síðasti dómsmálaráðherra - og kannski sá núverandi líka? - bara tók sínar ákvarðanir án þess að spyja hvorki þing né þjóð.