„Það eina rétta er að kalla eftir opinberri rannsókn á þessum vinnubrögðum lögreglunnar,“ segir Hólmgeir Elías Flosason, lögmaður fyrrverandi eiginkonu Páls Steingrímssonar en hún var sakborningur í máli sem lögreglan á Norðurlandi eystra felldi niður í liðinni viku.
Þrjú og hálft ár eru síðan Páll tilkynnti meint brot til lögreglu, eða í maímánuði 2021. Auk konunnar höfðu sex blaðamenn réttarstöðu sakbornings í málinu. Lögreglan tilkynnti í Facebookfærslu að ákvörðun hefði verið tekin um að hætta rannsókninni. Þá hafði rannsóknin staðið yfir í þrjú og hálft ár.
Í þessum sama mánuði, maí 2021, birtu Kjarninn og Stundin, forverar Heimildarinnar, fjölda frétta og fréttaskýringa sem byggð voru á gögnum sem sýndu hvernig stjórnendur, starfsfólk og ráðgjafar Samherja höfðu lagt á ráðin um að ráðast gegn nafngreindum blaðamönnum, listamönnum, stjórnmálamönnum, félagasamtökum og ýmsum öðrum til að hafa af þeim æruna, trúverðugleikann eða lífsviðurværið. Gögnin áttu uppruna sinn í samskiptum hóps fólks sem kallaði sig „Skæruliðadeild Samherja“; Þorbjörn Þórðarson, Arna Bryndís Baldvins McClure og Páll Steingrímsson.
Lögreglurannsóknin sneri að meintri byrlun, afritun á upplýsingum af síma og dreifingu á kynferðislegu efni. Konan var til rannsókna vegna allra þessara þriggja þátta.
Yfirlýsing sem lögreglan á Norðurlandi eystra birti á Facebook var bæði löng og ítarleg, þar sem lögreglan sagðist meðal annars vera að birta niðurstöður rannsóknar sinnar.
Rangt á rangt ofan
Þar sagði meðal annars: „Framburður sakbornings sem afhenti fjölmiðlum símann hefur verið stöðugur allan tímann sem rannsóknin hefur staðið um að hann hafi afhent fjölmiðlum símann.“. Þetta segir Hólmgeir vera rangt.
„Ég hef upplýsingar undir höndum sem draga fram að það sem þau eru að segja er hreinlega ósatt“
„Sakborningurinn hefur einnig verið stöðugur í framburði um að hafa upplýst þá sem tóku við símanum hvernig síminn væri til kominn og hver ætti símann.“ Þetta segir Hólmgeir einnig vera rangfærslu hjá lögreglunni.
Í Facebookfærslunni segir lögreglan einnig að það liggi fyrir að einn sakborninga, umrædd kona, hafi játað að hafa sett lyf út í áfengi sem hún færði Páli og hann drakk. Þá er fullyrt að lögreglustjóraembættið á Norðurlandi eystra telji þessa háttsemi varða við hegningarlög. Síðan er settur við þetta sá fyrirvari að ekki hafi verið sönnuð „orsakatengsl á milli byrlunar og veikinda brotaþola“ en „ef“ hægt væri að sanna þau þá væri þó „ekki líklegt að ákæruvaldinu tækist að sanna ásetning sakbornings til að valda brotaþola þeim skaða sem hann varð fyrir. Þá er vísað til andlegs ástands sakbornings á verknaðarstundu og eftirfarandi veikindi hans. Af framangreindum ástæðum hefur verið ákveðið að hætta rannsókn á þessu sakarefni í málinu.“ Þrátt fyrir þetta staðhæfir lögreglan í sömu efnisgrein að hún telji konuna hafa gerst brotlega við landslög.
Gagnrýnir tvískinnung lögreglunnar
Þá fullyrðir lögreglan einnig í færslunni að hún telji sakarefni um að dreifa kynferðislegu myndefni af brotaþola „sé líklegt til sakfellis á hendur einum einstaklingi“. Þarna er átt við umrædda konu, enda segir í næstu setningu: „Brotið felst í því að sakborningur sendi sjálfum sér kynferðislegt myndefni af eiginmanni sínum úr síma hans.“ Því næst kemur hins vegar fram: „Vegna veikinda sakbornings leikur vafi á um hvort hann hafi verið sakhæfur á verknaðarstundu. Sakborningur hefur hafnað beiðni um að undirgangast sakhæfismat og því hefur verið ákveðið að hætta rannsókn á þessum þætti málsins.“.
Hólmgeir segir það tvískinnung að lögregla vísi á þennan hátt til veikinda konunnar „þegar á sama tíma fannst þeim algjörlega tilhlýðlegt að draga hana í tvígang fyrir dóm í aðalmeðferð. Þeir mátu það þannig að hún væri til þess bær að koma fyrir dóm. Þá var bæði hún og blaðamennirnir með réttarstöðu sakborninga misserum og árum saman án þess að lögreglan gerði handtak í rannsókninni,“ segir hann.
„Þetta eru eftiráskýringar. Lögreglan er þarna að breiða yfir eigin klúður, eigin mistök“
Þá segist Hólmgeir bæði hafa fengið gögn og upplýsingar sem dragi sannleiksgildi ýmissa atriða yfirlýsingu lögreglunnar í efa: „Þetta eru eftiráskýringar. Lögreglan er þarna að breiða yfir eigin klúður, eigin mistök,“ segir hann.
Lögreglan segir til að mynda í Facebookfærslunni að henni þyki miður hve langan tíma rannsóknin tók „ en gildar skýringar eru á því. Rannsóknin var engu að síður samfelld. Veikindi eins sakbornings höfðu mikil áhrif á gang rannsóknarinnar…“. Hólmgeir setur sömuleiðis spurningamerki við að lögreglan beri fyrir sig veikindi konunnar með þessum hætti. „Ég hef upplýsingar undir höndum sem draga fram að það sem þau eru að segja er hreinlega ósatt. Lögreglan er að reyna að fegra sinn hlut og reyna að skýra þennan drátt með vísan til hennar veikinda,“ segir hann.
„Lögreglan er að reyna að fegra sinn hlut og reyna að skýra þennan drátt með vísan til hennar veikinda“
Hólmgeir telur alvarlegt að lögregla gangi fram gegn borgurum með þeim hætti sem hún geri í yfirlýsingunni en hann kallar sömuleiðis eftir að opinber rannsókn fari fram á vinnubrögðum lögreglunnar í málinu öllu: „Það er ekki hægt að láta þetta bara kyrrt liggja. Ég get ekki séð að þessu máli sé lokið,“ segir hann.
Yfirlýsing lögreglu einsdæmi
Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður Blaðamannafélags Íslands, fagnaði á dögunum þeirri niðurstöðu lögreglunnar á Norðurlandi eystra að hætta rannsókninni, en sex blaðamenn höfðu þar réttarstöðu sakbornings. Hún gagnrýndi hins vegar yfirlýsinguna sem lögreglan birti á Facebook.
„Við erum búin að láta lögmann okkar skoða þetta og hann bara staðfestir það sem við álitum og teljum af okkar reynslu að þetta sé í rauninni bara einsdæmi. Að lögreglan með þessum hætti sé að lýsa afstöðu sinni í málinu. Þar segja þeir að sakborningar gætu hafa sýnt af sér atferli sem flokkast getur undir brot á framangreindum ákvæðum,“ sagði hún í samtali við Heimildina sama dag og yfirlýsingin var birt.
Þá velti Sigríður fyrir sér hvað lögreglu gangi til með að birtingunni og hún kannist ekki við að lögregla hafi tjáð sig með viðlíka hætti um afstöðu sína til fyrrverandi sakborninga eftir að málið hefur verið fellt niður.
„Það er bara stórfurðulegt að lögreglan fari fram með þessum hætti. En mér finnst þetta bara í takt við vinnubrögð lögreglu í þessu öllu og alls ekki til þess að auka traust almennings á lögreglu og rannsókn hennar á þessu máli,“ sagði hún.
https://www.mbl.is/frettir/innlent/2024/10/04/kallar_eftir_rannsokn_en_talar_ekki_i_umbodi_konunn/