99,2 prósent íbúa Zürich í Sviss búa í innan við 15 mínútna göngu- eða hjólaleið frá helstu þjónustu sem þeir þurfa á að halda s.s. skólum, sjúkrahúsum, almenningsgörðum og verslunum. Mílanó, Kaupmannahöfn, Dublin og Tórínó eru þær einu borgir til viðbótar sem ná í 95 prósent tilfella sama þjónustustigi, samkvæmt nýrri rannsókn.
Fimmtán mínútna borgir eða hverfi er hugmyndafræði sem byggir á því að fólk geti nálgast sem mest af þeirri þjónustu sem það þarf á að halda í sínu daglega lífi í stuttri fjarlægð frá heimilum sínum. Slíkt er ekki aðeins talið vera gott fyrir umhverfið heldur einnig vellíðan borgarbúa. Hugmyndin hefur þróast samhliða auknum áhuga fólks á fjarvinnu, þ.e. að vinna vinnuna sína heima hjá sér.
París er dæmi um borg þar sem stjórnvöld hafa tekið upp hugmyndafræðina og í þeim tilgangi lagt mun meiri áherslu en áður á gerð hjóla- og göngustíga.
Hin nýja rannsókn var birt í tímaritinu Nature Cities og var unnin af Sony Computer Science Laboratories. Gögn frá 10 þúsund borgum víðs vegar um heiminn voru notuð til að vinna hina umfangsmiklu kortlagningu. Margar borgir í Bandaríkjunum eru sérstaklega langt frá markmiðum 15 mínútna hugmyndafræðinni.
Hugmyndafræðin er ekki alls ókunnug Reykvíkingum því samkvæmt græna planinu svokallaða er stefnt að því að gera hverfi borgarinnar gönguvænni og aðgengi að grænum svæðum, útivist og þjónustu verði tryggt í 15 mínútna göngu- eða hjólafæri. Samkvæmt rannsókninni er flest í að meðaltali 16 mínútna göngufjarlægð fyrir Reykvíkinga en niðurstaðan er hins vegar mjög misjöfn eftir hverfum.
Athugasemdir