„Í þessum tveimur verkefnum verða áhrifin samanlagt þau, til lengri tíma, að 284 hektarar af núverandi mólendi muni klæðast skógi og þar með muni um það bil 37 pör af heiðlóum missa varpkjörlendi (0,011% íslenska stofnsins) og eitthvað lægra hlutfall af spóastofninum,“ segir meðal annars í lögfræðiáliti sem Norðurþing aflaði vegna kæru samtakanna Náttúrugriða á útgáfu framkvæmdaleyfa sveitarfélagsins til umfangsmikillar skógræktar í landi Þverár og Saltvíkur.
Málið á uppruna sinn í mikilli gagnrýni sem spratt fram er áberandi rásir voru herfaðar í mólendi utan við Húsavík til að undirbúa kolefnisbindingarverkefni einkafyrirtækisins Yggdragsils Carbon. Fleiri slík eru á stefnuskránni í sveitarfélaginu.
Var meðal annars gagnrýnt að með svo miklum breytingum á landi myndi fuglalíf verða fyrir áhrifum. Lögfræðingur Norðurþings segir í greinargerð sinni að skógræktarverkefnin muni hafa óveruleg áhrif á heildarstofna þeirra algengu fuglategunda sem nýta svæðin í dag en að skógur skapi svo kjörlendi fyrir aðrar fuglategundir. Er niðurstaða álitsins sú að sveitarfélagið hafi á lögmætan og málefnalegan hátt lagt mat á áhrif framkvæmdanna á náttúru og dýralíf.
Athugasemdir (1)