Vinir vegfarandans, félag fólks um greiðfærar og öruggar samgöngur í Mýrdal, hafa sent umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis áskorun um að gerð verði jarðgöng í gegnum Reynisfjall og vegur lagður með ströndinni líkt og aðalskipulag sveitarfélagsins gerir ráð fyrir. Það er hins vegar ekki sá kostur sem Vegagerðin vill fara við endurbætur á hringveginum um Mýrdal heldur að núverandi vegur verði bættur. Undir það hefur Skipulagsstofnun tekið. Félagið segir kostnaðaráætlun varðandi jarðgangaleið grunsamlega háa og segir umhverfissjónarmið hafa verið höfð í hávegum á kostnað annarra.
Sveitarstjórn Mýrdalshrepps tekur heilshugar undir áskorun félagsins og leggur til að skoðað verði hvort ríkið eða aðrir hagsmunaaðilar séu reiðubúnir að stofna hlutafélag til að vinna að framkvæmdinni, með hliðsjón af reynslunni frá Hvalfjarðargöngum. Hefur sveitarstjóra verið falið að fylgja því máli eftir.
Athugasemdir (1)