Ídag greindi lögreglan á höfuðborgarsvæðinu frá því að 10 ára stúlka hefði fundist látin í hrauninu við Vatnskarðsnámu á Krýsuvíkursvæðinu í gærkvöldi. Faðir hennar, íslenskur karlmaður á fimmtugsaldri, hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til 24. september á meðan rannsókn stendur yfir. Hann er grunaður um að hafa banað dóttur sinni.
Samkvæmt tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu hringdi maðurinn sjálfur í Neyðarlínuna til að komast í samband við lögreglu. Þegar viðbragðsaðilar komu á staðinn var reynt að endurlífga stúlkuna. Tilraunir báru þó ekki árangur og stúlkan var úrskurðuð látin á vettvangi. Samkvæmt upplýsingum Heimildarinnar hefur maðurinn áður komist í kast við lögin.
Atburðurinn er sjötta morðmálið sem ratar inn á borð íslensku lögreglunnar á þessu ári. Fórnarlömbin eru nú orðin sjö talsins, þar af eru þrjú börn látin. Áður var hæsti fjöldi morða á einu ári fimm.
Árin 1999-2019 voru að meðaltali tæp 1,9 manndráp á ári. Fyrir árin 2020-2024 er það meðaltal hins vegar komið upp í 4,6 manndráp á ári. Flest morð hafa verið framin í ár, eða sjö. Næstflest, eða fimm, voru framin árin 2000, 2020 og 2023.
Grímur Grímsson, yfirmaður miðlægrar rannsóknardeildar lögreglunnar, sagði í samtali við Heimildina fyrr í mánuðinum að það væri afar sjaldgæft að börn væru myrt. Fjöldi fórnarlamba á barnsaldri er því óvenjulegur.
Sex atvik það sem af er ári
Fyrsta morðmálið sem kom á borð lögreglu árið 2024 var þann 31. janúar. Þá fannst sex ára drengur látinn að heimili sínu að Nýbýlavegi í Kópavogi. Fimmtug móðir hans var í kjölfarið ákærð fyrir manndráp. Hún hefur játað á sig verknaðinn.
Þá fannst þann 20. apríl litháískur maður á fertugsaldri látinn í sumarhúsi í Kiðjabergi, sem er í uppsveitum Árnessýslu. Annar Lithái er grunaður um að hafa orðið honum að bana.
Tveimur dögum síðar, þann 22. apríl, fannst fimmtug kona látin í íbúðarhúsi á Akureyri. Sambýlismaður hennar, sem er á sjötugsaldri, hefur verið ákærður fyrir manndráp.
Þann 22. ágúst fundust hjón á áttræðisaldri látin að heimili sínu í Neskaupsstað. Síðar þann dag var maður handtekinn á Snorrabraut í Reykjavík vegna málsins og farið var fram á gæsluvarðhald yfir honum.
Á menningarnótt, 24. ágúst, réðst 16 ára piltur á þrjú ungmenni með hnífi í miðbæ Reykjavíkur. Viku síðar lést hin 17 ára gamla Bryndís Klara Birgisdóttir af sárum sínum. Drengurinn sætir nú gæsluvarðhaldi í fangelsinu á Hólmsheiði.
Athugasemdir