Marín Þórsdóttir, verkefnisstjóra hjá heimferða- og fylgdadeild Ríkislögreglustjóra, segir að dómsmálaráðherra hafi haft samband við embættið í morgun og farið fram á að Yazan Tamimi yrði ekki vísað úr landi. „Það var hætt við fylgd að ósk dómsmálaráðherra,“ segir Marín.
„Farið af stað í brottvísun“ þegar öll gögn hafi legið fyrir
Lögregla sótti, Yazan Tamimi, ellefu ára palestínskan strák sem þjáist af hrörnunarsjúkdómi í Rjóðrið, hjúkrunar- og endurhæfingardeild Landspítala í nótt. Var hann fluttur á Keflavíkurflugvöll þaðan sem átti að fljúga með hann til Spánar á áttunda tímanum í morgun.
Brottvísuninni var mótmælt harðlega á samfélagsmiðlum og hópur fólks kom saman á Keflavíkurflugvelli og mótmælti. Skömmu eftir að drengurinn var kominn þangað barst ríkislögreglustjóra beiðni frá dómsmálaráðherra um að hætt yrði við brottför.
Spurð hvers vegna lögregla fór í þessa aðgerð í nótt segir Marín að hún hafi verið að framfylgja úrskurði Útlendingastofnunar. „Það kom beiðni til okkar fyrir nokkrum mánuðum og þegar öll gögn eru komin og leyfi hefur fengist er farið af stað í brottvísun.“
Spurð hvort þessi dagsetning hafi legið lengi fyrir segir Marín að beiðnin hafi „ekki verið tímasett,“ en að þegar öll gögn hafi verið komin og ýmis leyfi hafi verið fengin hafi verið ákveðið að fylgja drengnum úr landi. „Þessi ákvörðun hefur legið fyrir í þónokkurn tíma,“ segir hún.
„Hugað að hagsmunum barnsins“
Spurð hvers vegna sé farið í skjóli nætur á spítalann að sækja drenginn til að fara með hann úr landi segir Marín; „Það er flug snemma að morgni. Í öllu ferlinu er hugað að hagsmunum barnsins. Það er leiðarljósið.“
Óstaðfestar fregnir herma að Yazan hafi verið fluttur frá Keflavíkurflugvelli á Landspítalann á tíunda tímanum í morgun. Það kom sem fyrr segir eftir að dómsmálaráðherra fór fram á að hætt yrði við fylgd. Vísir greindi fyrst frá þessari ákvörðun ráðherra.
Þá hefur RÚV heimildir fyrir því að innan ríkisstjórnarinnar hafi komið sú krafa að samtal ætti sér stað um mál Yazans áður en hann yrði fluttur úr landi. Dómsmálaráðherra hafi ákveðið að verða við þeirri beiðni og því hafi verið hætt við brottflutninginn.
Ekki náðist í Guðrúnu Hafsteinsdóttur, dómsmálaráðherra við vinnslu fréttarinnar.
Athugasemdir