„Hefði ég ekki verið búin að njóta þeirra forréttinda að lesa stefnuræðu forsætisráðherra áður en hann flutti hana hér áðan þá stæði ég ekki hér – ég lægi sennilega í yfirliði í sætinu mínu. Því þvílíkt froðuflóð sem flæðir út um allar koppagrundir.“
Þetta hafði Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, að segja um nýflutta stefnuræðu Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra í þingsal í kvöld.
Inga sagði það með hreinum ólíkindum að Bjarni hefði talað um að á Íslandi væri kaupmáttur hvað mestur, jafnvel meiri en í löndum sem Ísland bæri sig saman við.
„Hverjum dettur í hug að trúa þessu bulli? Er eitthvað sambærilegt að miða hér við okurvexti og þann hrylling sem samfélagið okkar er að ganga í gegnum við verðbólgu sem engin bönd hafa náðst utan um – að bera það saman við önnur lönd sem hafa farsællega kveðið verðbólgudrauginn í kútinn á ótrúlega skömmum tíma?“
Inga sagði það litla huggun fyrir heimilin þótt húsnæði hækkaði í verði. „Við erum ekki að fara að selja ofan af okkur þakið nema nauðsyn krefur til að innleysa þennan uppsafnaða hagnað, er það? Við étum ekki steinsteypuna, er það?“
Kristrún kallaði ríkisstjórnina kærulausa
Inga var ekki sú eina sem gagnrýndi hagstjórn ríkisstjórnarinnar í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra. Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, sagði ríkisstjórnina hafa gerst seka um óafsakanlegt kæruleysi. Hún forðaðist að taka ábyrgð á efnahagsástandinu og benti á Seðlabankann, verkalýðshreyfinguna og erfðamengi Íslendinga.
Vísaði hún þar til nýlegra ummæla Sigurðar Inga Jóhannssonar um að það væri í DNA Íslendinga að sætta sig við háa verðbólgu.
„Kæruleysið, aðgerðaleysið og ábyrgðarleysið er óafsakanlegt. En nú koma þessir sömu stjórnmálamenn og segja: Þetta er allt að koma. Eftir öll þessi ár. Og hæstvirtur forsætisráðherra segir að ríkisstjórnin hafi, með leyfi forseta, stutt ötullega við hjöðnun verðbólgunnar,“ segir Kristrún.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, sagði í sinni ræðu að stjórnin léti sem ekkert væri þrátt fyrir að fólk berðist við dýra matarkörfu og há húsnæðisgjöld.
„Jarðtengingin er raunar svo brengluð að í vor sagði hæstvirtur forsætisráðherra, í þessari pontu, að Ísland væri í bestu efnahagslegu stöðu í lýðveldissögunni. Ekki veit ég við hvaða fólk eða fyrirtæki ráðherrarnir í þessari ríkisstjórn eru að tala. En þetta er ekki sú staða sem blasir við venjulegu fólki þegar það opnar heimabanka sinn.“
Sagði Þorgerður Katrín að staðreyndin væri sú að ríkisstjórnin færi óvarlega í peningamálum og heimilin borguðu brúsann í formi ofurvaxta og verðbólgu. „Þetta þarf ekki að vera svona,“ sagði hún.
Athugasemdir (2)