Ífyrstu stefnuræðu sinni sem forsætisráðherra lagði Bjarni Benediktsson mikla áherslu á efnahagsmál. Hann sagði ástæðu til að koma bjartsýn inn í þingveturinn, enda væri verðbólga að minnka.
„Útgjöld ríkissjóðs vaxa hægar en almennt í samfélaginu og afkoman er að batna hröðum skrefum,“ segir Bjarni. „Með styrkri efnahagsstjórn er raunhæft að afgangur verði á ríkissjóði strax á næsta ári, þótt opinberar áætlanir geri ráð fyrir halla.“
Í gær kynnti Sigurður Ingi Jóhannsson fjármála- og efnahagsráðherra fjárlagafrumvarp ársins 2025. Þar er gert ráð fyrir því að ríkissjóður muni verða rekinn með 41 milljarða halla. Áætlaður halli á ríkisrekstrinum í ár eru 57 milljarðar króna.
Bjarni segir að niðurstaða ríkisreiknings hafi ítrekað verið langt umfram opinberar áætlanir, afkoman hafi verið 100 milljörðum krónum betri þrjú ár í röð.
Húsnæðisliðurinn á stóran hlut í verðbólgunni sem nú er, hún væri 3,6 prósent án hans. Bjarni minntist á stuðning ríkisins við uppbyggingu íbúða. „Ríkisstjórnin hefur stutt ötullega við hjöðnun verðbólgu þar sem húsnæðisliðurinn hefur verið vandamál. Aldrei hefur verið meira byggt en síðustu ár.“
Þá nefndi Bjarni það að ráðast í breytingar á stjórnarskrá á komandi þingvetri. „Í vetur er tækifæri til að sammælast um skynsamlegar breytingar á stjórnarskránni. Horfa þarf til kafla um forseta Íslands, Alþingi og dómstóla,“ segir hann.
Bjarni segir að einnig mætti skoða ákvæði um kjördæmaskipan og jöfnun atkvæða. Enn fremur væri tímabært að „endurskoða ákvæði um Landsdóm og gera breytingar á meðferð ákæruvalds vegna ráðherraábyrgðar. “
Athugasemdir