Lögregla telur sig hafa nokkuð skýra mynd af atburðarrásinni á menningarnótt þegar sextán ára piltur var handtekinn í tengslum við hnífaárás. Unglingsstúlka lést af sárum sínum. Tvö ungmenni til viðbótar voru færð á spítala með áverka.
Alls hafa þrír réttarstöðu grunaðs í tengslum við málið, þótt aðeins einn sé grunaður um að hafa valdið öðrum skaða. Sá er sextán ára drengur sem situr í fangelsinu á Hólmsheiði. Hinir tveir sem eru með réttarstöðu grunaðra eru ekki talin hafa tengst árásinni með beinum hætti. Grímur Grímsson staðfesti þetta í samtali við Heimildina.
„Í svona málum eru á rannsóknarstigi oft fleiri en einn með réttarstöðu grunaðs í málinu, þótt það sé ekki talið tengjast beint atburðinum sem er til rannsóknar,“ segir Grímur.
Rannsókn lögreglu miðar vel áfram en Grímur segir að lögreglan gefi sér alls tíu vikur, eða nokkrar vikur til viðbótar, til að ljúka málinu.
Athugasemdir