Ég er mætt snemma til að vera viðstödd það þegar þingið er sett. Ég rata illa um þinghúsið og ég er aldrei alveg viss um það hvar ég megi standa. Hér gilda margar og strangar reglur og ég er meðvituð um þær fæstar. Golli, ljósmyndarinn okkar, bendir mér á að skilja yfirhöfnina mína eftir frammi. Mér líður eins og barni sem er hrætt um að verða skammað. Ég leyfi sjálfri mér samt að njóta vafans þegar ég geng um. Það myndi einhver stoppa mig af ef ég færi eitthvað sem ég mætti ekki. Hér úir og grúir af jakkafataklæddu starfsfólki þingsins.
Þingmenn og ráðherrar tínast flestir upp af neðri hæðinni, sem er tengd við bílastæðakjallarann. Fólk er prúðbúið, heilsar starfsfólki og hvert öðru. Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, er alvarleg í bragði. Það er Bjarni Benediktsson forsætisráðherra líka. Hann horfir varla upp úr símanum sínum þegar hann gengur upp stigann.
Svandís Svavarsdóttir innviðaráðherra virðist vera í banastuði og spjallar glaðlega við samstarfsfólk sitt. „Hvað segið þið. Eruð þið til í þetta?“ Hún steytir hnefann glaðlega þegar hún yfirgefur anddyrið.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, er klædd í himinbláan kjól. Hún grínast við ljósmyndara fréttamiðlanna að það þurfi að klæða sig í sumarið fyrst það láti ekki sjá sig að öðru leyti. Það er líka kalt úti – gluggaveður eins og það gerist best. Prúðbúið fólkið er ekki klætt til þess að líða vel utandyra.
Einn þingmaður Flokks fólksins stoppar í móttökunni til að spjalla. Formaðurinn, Inga Sæland, gengur fram hjá og tilkynnir að þau séu að verða sein. Þau eigi að vera mætt inn í anddyri Alþingishússins sjálfs. Þingmaðurinn heldur áfram að tala. Inga kallar nafn hans, komin dágóðan spöl á undan. Hann flýtir sér á eftir henni.
Ég geng á eftir þeim. Í fremsta hluta Alþingishússins, rétt innan við aðalinnganginn, standa tugir þingmanna og bíða eftir því að þeim sé smalað út í Dómkirkju þar sem guðsþjónusta mun fara fram. Þetta er nokkuð stór forsalur og það er hátt til lofts. Það hanga fjórar kristalsljósakrónur í loftinu og stór málverk prýða veggina. Þingmennirnir eru svo margir að sumir standa í stiganum sem leiðir upp í þingsalinn.
Fremst stendur fólkið sem má teljast virðingarverðast í þessari samkomu. Forseti Íslands, biskup Íslands, forseti Alþingis og ráðherrarnir. Ég stend úti í horni aftast og fylgist með því sem fram fer. Fólk gýtur til mín augunum og virðist vera lítillega skemmt yfir nærveru minni. Ég veit ekkert hvort ég megi vera hérna. Það hefur að minnsta kosti enginn sagt mér að hypja mig enn. Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar, víkur sér að mér. Hún hlær og segir að ég líti út eins og mannfræðingur með stílabókina mína.
Píratar, að einum undanskildum, fara ekki í messu
Samræðurnar í rýminu eru glaðlegar. Það kemur mér á óvart hvað það virðist vera samheldin stemning á jafn klofnum vinnustað og Alþingi hlýtur að vera. Ef ég loka augunum gæti ég talið mér trú um að ég stæði í ósköp venjulegu kokteilboði. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, tekur upp símann og smellir af mynd. Þó nokkrir taka sjálfur og myndir saman.
Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar, tekur mig tali. Ég spyr hann hvort hann haldi að fólk sé spennt að koma aftur til vinnu. Hann heldur það, sjálfum finnst honum sumarfrí þingsins heldur langt.
Jóhann kveðst ágætlega stemmdur fyrir því að fara í messu og finnst fínt að halda í hefðina. „Prinsippmál að mæta í messu.“ Hann grínast með að ella gæti siðrof tekið völdin, en viðurkennir að sjálfur sé hann ófermdur.
Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, þingmaður Pírata, gengur að okkur. Hún kallar það það tímaskekkju að setja þingið með guðsþjónustu. Píratar sniðganga guðsþjónustuna í Dómkirkjunni að einum undanskildum. Gísli Rafn Ólafsson ætlar einn að mæta.
Þingsetningar eru ekki ólíkar skólasetningum
Starfsmenn þingsins klappa og það fellur stutt þögn á hópinn. Dyrnar eru opnaðar og kirkjubjöllur í Dómkirkjunni heyrast fyrir utan. Mannskapurinn tínist út með nýkjörinn forseta og nýkjörinn biskup í broddi fylkingar.
Ég lauma mér út og og horfi á hersinguna ganga inn í kirkjuna. Ég fylgist með við hlið starfsbræðra minna á öðrum fjölmiðlum. Ég var ekki viss hvort við mættum fara inn í kirkjuna en Heimir Már Pétursson, fréttamaður Vísis og Stöðvar 2, gengur hnarreistur að inngangi hennar. Við hin fylgjum honum eftir. Komum okkur hljóðlega fyrir á kirkjupöllunum.
Á fremstu þremur kirkjubekkjunum sitja ráðherrarnir. Fyrir framan þá er Halla Tómasdóttir forseti. Hún situr prúð með eitthvað sem virðist vera annað hvort Biblía eða sálmabók í kjöltunni. Ég, líkt og Jóhann Páll, fermdist ekki og sé ekki muninn úr fjarlægð. Innar, nær altarinu, situr Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands. Elínborg Sturludóttir dómkirkjuprestur þjónar til altaris.
Eitthvað við þetta minnir mig dálítið á skólasetningarnar í Menntaskólanum í Reykjavík, þótt þar hafi sjálfur forsetinn ekki verið staddur. Þær fóru líka fram í Dómkirkjunni að hausti, enda hvergi nógu stór salur til að rúma nemendafjölda MR í húsakynnum hans. Á skólasetningum voru þó kristilegu undirtónarnir umtalsvert minni, þótt mig minni endilega að við höfum sungið eitthvað. Þar var rektor sem hélt ræðu um starfsmannaveltu, ekki biskup um samfélagslegt siðferði.
Þjónustan hefst á sálmi, það er Kammerkór Dómkirkjunnar sem syngur. Sumir þingmennirnir syngja með, ég sé Áslaugu Örnu hreyfa varirnar. Það gerir Svandís líka. Ég tek eftir því að hún syngur með öllum sálmunum í athöfninni.
Á fremsta bekk eru fjórir karlar. Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, ásamt formönnum ríkisstjórnarflokkanna. Bjarni Benediktsson og Sigurður Ingi Jóhannsson sitja sitt hvoru megin við súlu og halla sér báðir upp að henni. Forsætisráðherrann er alvörugefinn og rólegur, hann lygnir aftur augunum á meðan guðsþjónustunni stendur.
Aðrir ráðherrar skipa næstu tvo bekki fyrir aftan. Á þriðja bekknum sitja Áslaug Arna, Willum Þór Þórsson, Guðrún Hafsteinsdóttir og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir. Framsóknar- og Sjálfstæðisfólkið situr nokkuð þétt saman. Bjarkey situr pínulítið fjær.
Áslaug Arna, sem hefur mjög sterka nærveru á samfélagsmiðlum, tekur reglulega upp símann og laumast til að smella af athöfninni myndum.
Biskup fer með prédikun. Hún hefur mál sitt á því að segja að það sé ekki fyrir meðvirka manneskju að sitja á Alþingi. Þingmennirnir hlæja. Hún nefnir það sem ég hafði velt fyrir mér stuttu áður – hve vel fólki virðist koma saman þrátt fyrir að starfa við að gagnrýna hvort annað í ræðustól. „Mennskjan er svo miklu meira en skoðanir hennar,“ segir hún og talar fyrir því að ræða við fólk sem ekki sé sama sinnis og maður sjálfur, þótt auðveldara sé að umgangast þá sem séu manni sammála.
Guðrún prédikar um gullkálfinn í Biblíunni og talar gegn því að gera gull og peninga að guði sínum. „Peningar er góður þjónn, vondur húsbóndi og enn verri guð. Hver er gullkálfur dagsins í dag?“
Farið er með bæn. Flestir spenna greipar, en sumir ekki. Áslaug Arna smellir nokkrum myndum í viðbót.
Starfsmaður þingsins víkur sér að mér og bendir mér á að það væri best fyrir mig að koma mér út nokkrum mínútum áður en guðsþjónustunni lýkur. Ég hlýði og stuttu síðar kemur þingheimur út úr kirkjunni.
Á Austurvelli standa örfáir og mótmæla. Einn borði talar gegn vopnaburði ungmenna. Maður með skilti mótmælir kapítalísku einræði.
Skjaldarmerktir stólar ráðherranna
Fólk gengur yfir í þinghúsið og kemur sér fyrir í þingsal. Ég, sem fyrr segir, rata illa og elti nokkrar hræður upp á þingpalla. Þangað hefur starfsfólk þinghússins fjölmennt og fylgist með athöfninni neðra. Jakkafataklædd kona með talstöð stöðvar mig þegar ég geng inn. Ég er með skærgulan miða um hálsinn sem stendur á að ég sé fjölmiðlamaður. „Þú átt ekki að vera hér,“ tjáir hún mér.
Mér er fylgt á aðra palla sem snúa að ræðupúltinu. Hér eru bara fjögur sæti og ekkert plexígler til að varna manni frá falli niður. Ég er sýnilegri hér en ég hefði verið á hinum pöllunum. Ljósmyndarar dansa í kringum mig og smella af myndum.
Salurinn er miklu smærri en mig minnti að hann væri. Hann er breiður en stuttur. Í kringum stól forseta Alþingis sitja ráðherrarnir á móti hinum þingmönnunum eins og við háborð. Þrátt fyrir að þeir starfi í raun í umboði þingsins finnst mér eins og sætin beri það með sér að vera á hærri stalli en önnur.
Ráðherrarnir sitja meðal annars á stólum sem eru með ágreyptu skjaldarmerki Íslands. Stólar þingmannanna eru bara brúnir. Þetta sést greinilega vegna þess að einn ráðherrann, Ásmundur Einar Daðason, er fjarverandi. Skjaldarmerkið á stólnum hans blasir því við.
Allir standa upp og Halla Tómasdóttir gengur í þingsalinn. Hún flytur ávarp. Ég hafði fengið að sjá dagskrá þingsetningarathafnarinnar áður en hún hófst. Það kom mér á óvart hvað hún var gríðarlega nákvæm.
Kl. 14:11 Tónlist
Kl. 14:13 Forseti Íslands gengur til þingsalar, setur nýtt löggjafarþing, flytur ávarp og biður alþingismenn og ráðherra að minnast ættjarðarinnar.
En tónlistinni lýkur klukkan 14:08. Dagskráin er heilum fimm mínútum á undan áætlun.
Í ávarpi sínu minntist forsetinn meðal annars á hnífsstunguna sem átti sér stað á Menningarnótt og varð 17 ára stúlku að bana. Koma þurfi í veg fyrir að slíkt endurtæki sig. „Við þurfum að kafa dýpra, að uppsprettu þeirrar vanlíðunar sem brýst fram í ofbeldi. Enginn sem líður vel, hvort sem er fullorðinn eða barn, vopnast til að meiða aðra.“
Í dagskráinni stendur: Kl. 14:25 Að loknu ávarpi forseta Íslands (og húrrahrópum) tekur forsetinn sér sæti í þingsalnum.
Það er ómögulegt að verða ekki var við formlegheitin sem fylgja nærveru forsetans. Heilum þrisvar sinnum á meðan þingsetningunni í þingsal stendur er þingheimi og gestum gert að rísa úr sætum sínum. Allir gleymdu þó að það stæði í dagskránni að þeir ættu að setjast niður áður en ættjarðarljóðið Hver á sér fegra föðurland var sungið. Kannski ruglaðist fólk í ríminu því að tímastimplanirnar úr dagskránni stemmdu ekki.
Þegar Halla Tómasdóttir gekk út úr þingsalnum virtist hátíðleikinn víkja fyrir hversdegi þingsins. Nokkrir leyfðu sér að rabba saman í lágum hljóðum þegar forseti Alþingis tók til máls. Sumir litu á símann og margir virtust komnir með nóg af því að sitja kyrrir. Ef til vill var fólk orðið óþreyjufullt að koma sér að verki. Eða kannski var fólk farið að þreytast á þessum formlegheitum öllum.
Eftir lestur á greininni leiðir maður ósjálfrátt hugann að stöðu þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu.
Á það hefur verið bent að fólk fái það gjarnan á tilfinninguna að hér á landi ríki einhverskonar ráðherraræði frekar en þingræði.
Ýmislegt í þingsalnum ýtir undir þessa tilfinningu eins og t.d. þetta sem greinarhöfundur nefnir um stólana í þingsalnum, annars vegar ómerktir stólar þingmanna og hins vegar stólar ráðherranna með skjaldarmerki lýðveldisins á stólbakinu.
Og svo háborðin tvö í þingsalnum sem ráðherrarnir sitja við og horfa út yfir þingsalinn, á þingmennina sem þar sitja í þeirra umboði.
Einnig má nefna hvernig þingmenn og ráðherrar eru ávarpaðir í þingsal, ráðherrar eru hæstvirtir en þingmenn háttvirtir.
Í þingsalnum eru ráðherrar alls ekki yfir þingmenn settir, ættu a.m.k. ekki að vera það eðli málsins samkvæmt.
Þetta eru ekki stór mál en gefa þinginu þetta yfirbragð að það sitji í umboði ráðherra en ekki öfugt.