Maður þroskast ekki með aldrinum, hugsaði ég á miðjum aldri. Maður „froskast“ frekar, hugsaði ég og átti við tilfinningalífið. Lífið er ferð í landslagi, hið meðvitaða líf aðgerðanna. Tilfinningalífið aftur á móti fíflaskipið með hafnir ýmsar og hafnanir. Okkur er í sjálfsvald sett hvernig við förum með lífheiminn, einstaklingar lýðveldanna. En hver hefur þroska til þess?
Náttúran biður um miskunn sem aldrei fyrr. Yfirkona veðranna á plánetu vorri lýsti nýlega yfir rauðri viðvörun. Það hlýnar æ meir og löndin sem eru saklaus af því að hafa innleitt iðnbyltingu verða einna verst úti.
Mikið var gott þegar slakað var á tölustöfum varðandi óveðrin og við fengum litakassann. Gult er slæmt, pössum okkur, appelsínugult alls ekki gott og rautt er hættuástand. Lognið grænt og blátt eða eitthvað og blíðan. Við vissum þetta öll fyrir löngu, að mengunin hefði raskað jafnvægi jarðar. Tegundir jurta og dýra deyja daglega. Golfstraumur hefur hægt á sér um 4 prósent við Flórídaskaga og það hefur þegar haft áhrif um veröld víða, því úthöfin stóru dansa hringdans hafstraumanna. Svona lítið þurfti til að raska gullnu jafnvægi, skitin 4 prósent. Fyrir suðvestan Ísland er kuldapollur herma fréttir, jú, skrítnun jarðar gerir kalt sums staðar. Grænlandsjökull og Norðurpóll bráðna og það kælir, það segir sig sjálft þegar á móti kemur að Golfstraumur er orðinn slappari.
Rauð viðvörun. Hún var líka rauð fyrsta mjólkurhyrnan úr pappa, lítill píramídi með þrjár hliðar, sem tók einn lítra af mjólk. Fyrst fór ég með brúsa í mjólkurbúðina, milli fiskbúðar og nýlenduvörubúðar neðst í Blönduhlíð. Svo tóku mjólkurflöskur við, níðþungar á barnshandleggnum og að lokum komu rauðu píramídarnir. Þá sagði mamma, „nú er það búið, nú verður varla aftur snúið“. Skynsamt fólk sá að umbúðasamfélag var í uppsiglingu, hver fjölskylda skyldi nú skilja eftir fjall af mjólkurhyrnum árlega.
„Rauðu ljósin blikkuðu æ meir eftir því sem áratugirnir liðu nær núinu“
Mamma kveikti á umhverfissinnanum í mér, sem sagt. Hef mína kattartíð keypt notuð föt, að miklu leyti. Rauðu ljósin blikkuðu æ meir eftir því sem áratugirnir liðu nær núinu. Hvaða fórnir kostar það ef átta milljarðar manna eignast heimilistæki og bíla? spurði ég mig og lagði bílnum þótt ökufær væri. Ég þarf ekki bíl búandi við miðbæinn, fæ allt úti á Granda eða uppi á Laugavegi og á hjólatösku til innkaupa. Maður verður ríkur af því að eiga ekki bíl svo vel má hoppa í leigubíl, eða strætó hafi maður tíma. Þá dó ryksugan og ég keypti ekki nýja. Sá fyrir mér gjörvalla mannkind með ryksugu og skaða náttúrunnar. Vel má moppa gólf eins og maður sé að raka heyi og nota sóp og skúffu. Næst dó örbylgjuofninn og ég fór að hita í ofni og potti. Hálfdrepst að sama skapi af flugsekt þegar ég „þarf að ferðast“, en nú lofar yfirkona Evrópu að árið 2030 muni flugvélar okkar álfu nota hreint eldsneyti. Vonin býr við sjóndeildarhring.
Fyrir löngu lærði ég að Grikkir hættu að stríða innbyrðis þegar þeir eignuðust ytri óvin, Tyrki. Nú stendur jörðin á skeiðskiptum vegna skrítnunar jarðar, mannkyn hefur eignast ytri óvin og ætti því að geta sameinast. Hve lengi horfum við á veður herðast, flóð og skógarelda, hungur og uppskerubresti, áður en alþjóðir sameinast? Náttúruöflin hafa alltaf tuskað lífið til, næstum gjöreytt því á vissum tímum jarðsögunnar, en áfram snérist hún og fann nýtt jafnvægi. Það sem er svo hræðilegt er að nú erum VIÐ að gera þetta.
„Allt sem lifir kvelst og deyr, en þegar lífstréð laskast er skaðinn óafturkræfur.“
Nýlega sá ég sannfærandi þátt á Túbunni, sem skýrði hrun menningarheims bronsaldar um 1200 fyrir Krist, já haldið ykkur fast, með skelfilegu Heklugosi. Trylltur íslenskur jarðeldur spúði og spúði skít í himna upp, svo að dimmt var á jörðinni í áratug með uppskerubresti og tilheyrandi hungri. Fólkið sem lifði gekk af yfirvaldi dauðu og stjórnlausar aldir tóku við. Látum vera þegar öfl sjálfrar tilverunnar valda slíkum usla, en plís, nú verðum við öll að fara í björgunarsveitina. Lífsmöttullinn er orðin rysjóttur. Allt sem lifir kvelst og deyr, en þegar lífstréð laskast er skaðinn óafturkræfur.
Lífið kenndi okkur öllum held ég að gera okkar skásta, þá rekur maður sig síður á veggi. Auðvitað vill þessi tegund sem við erum ekki meiða né eyðileggja, en æði margir vita að þeir gætu gert betur í umhverfismálum. Þegar við erum þreytt læðist sársaukinn að, samviskan lasin og trámað galopið. Best er að láta sitt litla ljós skína, þvo og flokka rusl og þykjast góður. Íslendingar hafa furðu hratt eignast rafmagnsbíla, þeir sem efni hafa, sem er vel meint auðvitað. Við viljum vel. Leiðbeiningar stjórnvalda allra landa hljóta brátt að verða skýrari.
Það er ferlegt þegar við lendum í togstreitu. Ég get ekki horft á myndir af ljómandi fögrum sólsetrum, því ég veit að þetta eru mengunarlitir, himinninn var ekki svona á litinn í gamla daga. Þetta skapar togstreitu tilfinninganna, víst er það fagurt en boðar illt. Það er rafmagn í matnum eins og í tilraun sem ég heyrði um fyrir löngu og jú, auðvitað notuð dýr. Hversu svangur máttu vera til að borða ef þú færð rafmagnsstuð um leið?
„Þetta skapar togstreitu tilfinninganna, víst er það fagurt en boðar illt.“
Sá sem étur kjúkling úr verksmiðjubúi og er dýravinur fær tilfinningastuð með matnum. Sama með svínakjötið af veslingum því svipað dýraníð er stundað í stórbúum þeim. Upp vellur reiðin yfir því að löggjafinn verndi ekki þessa veslinga. Já, hvar eigum við að byrja? Hvers virði er frelsið þegar það er svona dýrt? Spyrji hver sig. Skrítnun jarðar stillir okkur æ meir upp við vegg ... þegar skelfingin vex getur mannkynið brugðist við af öllu afli. Við hljótum að gera það.
Birtum strax tölur yfir það hve ríkasta fólkið gefur stóran hluta af eigum sínum til að bjarga lífheimi. Það væri ágætis fyrsta skref. Gagnsæi af því tagi myndi vekja til góðra verka, því enginn vill vera vondur.
Dropinn holar steininn.