Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, segist í skriflegu svari til Heimildarinnar vilja koma þeim skilaboðum á framfæri að ákall um málmleitartæki og sýnilega vopnaða löggæslu séu „viðbrögð við birtingarmynd dýpri vanda“.
„Forseti telur brýnt að ráðist verði að rótum vandans og talar fyrir þjóðarátaki þar sem við svörum ákalli föður Bryndísar Klöru og sameinumst öll um að gera kærleikann að eina vopninu í okkar samfélagi,“ segir í svarinu.
Una Sighvatsdóttir, sérfræðingur hjá embætti forseta Íslands, segir að andleg líðan ungs fólks sé nýjum forseta afar hugleikin. Hún hafi enda lagt mikla áherslu á það í kosningabaráttunni og muni gera áfram í embætti forseta.
Halla segist hrygg
Sunnudaginn 1. september síðastliðinn flutti Halla Tómasdóttir ávarp á opnunarviðburði átaksins Gulur september, en það er samvinnuverkefni stofnana og félagasamtaka sem vinna saman að geðrækt og sjálfsvígsforvörnum.
Í ávarpinu sagði Halla meðal annars:
„Ég stend hér með ykkur í dag og ég finn til; ég er hrygg í hjarta vegna þeirra atburða sem hafa orðið í okkar samfélagi síðustu daga og vikur. Hjarta mitt er hjá öllum þeim sem nú eiga um sárt að binda – fjölskyldum, vinum og samfélögum sem eru harmi slegin og buguð af sorg. Það er viðtekin venja að lesa lífsgæði úr hagtölum. Þær eru sannarlega mikilvægar, en aðeins brot af miklu stærri mynd. Ef vanlíðan, tilgangsleysi, einmanaleiki, fíkn og ofbeldi fara vaxandi er við stóran vanda að etja. Þessi mál eru raunar að mínu mati okkar brýnustu verkefni – sem við verðum að leysa saman.“
Athugasemdir