Stórt bil á milli innfæddra barna sem eiga íslenska foreldra annars vegar og erlenda foreldra hins vegar þegar kemur að lesskilningi er áhyggjuefni, að mati Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD). Á þeim munar 52 stigum, sem jafngildir tæplega tveggja ára langri skólagöngu.
Þetta er á meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu OECD um stöðu innflytjenda á Íslandi.
Stofnunin bendir á að lesskilningur hér á landi sé fremur lélegur í samanburði við önnur aðildarríki stofnunarinnar, sem eru tæplega 40 talsins. Þannig má sjá að íslensk börn eru með þriðja versta lesskilninginn af þessum ríkjum, og eru börn sem búsett eru hér á landi en eiga erlenda foreldra eða hafa flutt hingað erlendis frá með enn verri lesskilning.
Á sama tíma og almennt er gert ráð fyrir því að innfædd börn sem eiga erlenda foreldra hafi aðlagast íslensku samfélagi betur en börn erlendra foreldra sem fædd eru erlendis og flytjast hingað, þá er munurinn á hópunum tveimur lítill hér á landi. Raunar er það svo að börn sem hafa flust hingað erlendis frá og eiga erlenda foreldra eru með betri lesskilning en börn sem fæðst hafa hér en eiga erlenda foreldra. OECD telur að veita þurfi þessu sérstaka athygli.
Athugasemdir