Sameinaða útgáfufélagið ehf., sem gefur út Heimildina og Vísbendingu, skilaði jákvæðri afkomu á síðasta ári, á fyrsta rekstrarári útgáfunnar eftir að fjölmiðlarnir Stundin og Kjarninn sameinuðust í ársbyrjun 2023.
Í skýrslu stjórnar sem fylgir ársreikningi útgáfufélagsins kemur fram að viðsnúningur hafi orðið í rekstri félagsins. Rekstrarhagnaður var 17,7 milljónir króna fyrir fjármagnsliði, en endanleg afkoma eftir fjármagnsliði og skatta var 11 milljóna króna hagnaður.
Afkoman er í samræmi við yfirlýsingar aðstandenda félagsins fyrir samruna í árslok 2022, þar sem fram kom að markmiðið væri sjálfbær rekstur og þar af leiðandi sjálfstæð blaðamennska, eins og sagði í yfirlýsingu við sameininguna í desember það ár: „Eitt af grunnmarkmiðum nýs fjölmiðils er sjálfbær rekstur til lengri tíma sem stendur undir sjálfstæði ritstjórnar. Reksturinn á þó í samkeppni við stærri fjölmiðla sem hafa fengið viðvarandi taprekstur niðurgreiddan af fjársterkum aðilum, meðal annars eigendum útgerða og kvóta.“
Tekjuvöxtur félagsins milli ára var 38% samanborið við samanlagðan rekstur Kjarnans miðla ehf. og Útgáfufélags Stundarinnar ehf. Alls námu tekjur sameinaðs félags rúmum hálfum milljarði króna á árinu 2023. Meðalfjöldi starfsmanna var 25.
Árið 2022 höfðu bæði samrunafélögin verið rekin með tapi. Forveri Sameinaða útgáfufélagsins, Útgáfufélagið Stundin ehf., tapaði 39,8 milljónum króna á árinu 2022, að meðtöldu breyttu uppgjöri orlofsskuldbindinga og áhrifum tekjuskattsinneignar, eftir ýmist lítið tap eða hagnað árin áður. Kjarninn miðlar, hitt samrunafélagið, hafði tapað 11,2 milljónum króna árið 2022.
Á aðalfundi útgáfunnar á miðvikudag voru endurkjörin í stjórn félagsins Elín Ragnarsdóttir, formaður, Heiða B. Heiðarsdóttir, Hjálmar Gíslason og Vilhjálmur Þorsteinsson. Ritstjóri Heimildarinnar er Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir og ritstjóri Vísbendingar Ásgeir Brynjar Torfason. Framkvæmdastjóri útgáfufélagsins er Jón Trausti Reynisson.
Sameinaða útgáfufélagið er í dreifðu eignarhaldi og fer enginn eigandi með meira en 7,6% hlut.
Í skýrslu stjórnar félagsins kemur einnig fram að félagið starfi meðal annars á dagblaðamarkaði, þar sem „helsti keppinautur félagsins er nú í einokunarstöðu á sviði prentunar og dreifingar dagblaða“.
Þá kemur fram að blaðamenn útgáfunnar hafi þurft að sæta langvarandi lögreglurannsókn eftir umfjöllun um starfsemi útgerðarfélagsins Samherja.
„Lögreglan á Norðurlandi eystra hóf í febrúar 2022 rannsókn á blaðamönnum, þar á meðal fjórum blaðamönnum Heimildarinnar, í tengslum við umfjöllun og gögn er varða almannatengslaherferð útgerðarfélagsins Samherja gegn blaðamönnum sem fjölluðu um mútumál útgerðarinnar. Við útgáfu ársreiknings þessa, tveimur og hálfu ári síðar, var rannsókninni á blaðamönnunum enn við haldið án niðurstöðu.“
Fyrirvari um hagsmuni: Fréttin fjallar beint um Sameinaða útgáfufélagið sem gefur út Heimildina.
Athugasemdir (5)