Hátekjulistinn vekur jafnan athygli og ekki síst nú eftir ítarlega umfjöllun Heimildarinnar og eftirgrennslan eftir viðbrögðum viðmælenda. Eftirtektarverð eru til dæmis svör sjálfskipaðs talsmanns skattgreiðenda. Hann sagði birtinguna líkjast „ósmekklegum drullupolli“ og var mikið niðri fyrir. Ekki var ljóst hvort umhyggja hans galt þeim sem pollinn sjá eða þeim sem í honum voru.
Birting upplýsinga um skatta einstaklinga með einhverjum hætti tíðkast í mörgum löndum og er oft umdeild. Rök gegn birtingu eru flest byggð á því að um einkamál, öðrum óviðkomandi, sé að ræða. Aðrir telja að svo sé ekki, þetta varði aðra og samfélagið allt. Álagning skatta er félagsleg ákvörðun, byggð á lögum sem eiga að tryggja rétt allra. Liggi upplýsingar um framkvæmd laganna ekki fyrir er ekki hægt að sjá hvort þau þjóna tilgangi sínum og uppfylli þau markmið sem þeim voru sett. Þetta er mikilvægt hér á landi þar sem aðgengi að upplýsingum um virkni skattalaga er takmarkað sem og möguleikar fræðimanna til greiningar á áhrifum þeirra. Því verkefni er ekki heldur sinnt af stjórnvöldum og enginn fer með eftirlit með virkni skattalaga eða birtir upplýsingar um hana sem veita stjórnvöldum og löggjafarvaldi aðhald. Hefur reyndar fremur verið amast við birtingu slíkra upplýsinga.
Hátekjulistinn og raunverulegar tekjur
Mesta athygli vakti ofurtekjur efsta lags þessa eina hundraðshluta tekjuhæsta hópsins sem listinn náði til og augljós áhrif kvótakerfisins á tekjudreifingu í landinu. Á listanum komu einkum fram þau tilvik að tiltölulega smáar útgerðir í eigu einstaklinga höfðu verið seldar og þeir greitt 22 prósent tekjuskatt af söluhagnaðinum. Þótt þetta dugi til þess að tylla þeim á toppinn á hátekjulistanum það árið gefur það ranga mynd af tekjuáhrifum kvótakerfisins.
„Enginn fer með eftirlit með virkni skattalaga“
Sjávarútvegsfyrirtæki eru flest að formi til í eigu eignarhaldsfélaga en eru ekki skráð beint á raunverulega eigendur. Meginástæðan er skattalegt hagræði sem slíkum félögum er búið og hefur verið aukið á síðustu áratugum. Arður sem eignarhaldsfélag fær frá rekstrarfélagi er skattfrjáls. Sé hagnaðurinn ekki greiddur út sem arður safnast hann upp sem eigið fé hjá rekstrarfélaginu en verðmæti hlutarins hjá eignarhaldsfélaginu vex sem því nemur. Selji það hluta af eign sinni er söluhagnaðurinn einnig skattfrjáls. Í reynd verður eignarhaldsfélagið aldrei skattskylt af þessum tekjum og þær birtast ekki á skattframtölum raunverulegra eigenda útgerðanna og þær eru ekki á hátekjulistanum. Hann gefur því ranga mynd af raunverulegri tekjudreifingu einstaklinga sem er mun ójafnari en sú sem hann sýnir.
„Í reynd verður eignarhaldsfélagið aldrei skattskylt af þessum tekjum“
Þetta fyrirkomulag er ekki aðeins til þess fallið að koma tekjum raunverulegra eigenda undan skatti. Það auðveldar einnig skattasniðgöngu rekstrarfélagsins til dæmis með lánaviðskiptum þess við eignarhaldsfélagið eða tengda aðila. Það ásamt hagstæðum afskriftareglum og frádrætti á gengistapi, þrátt fyrir að nær allar tekjurnar séu í erlendri mynt, gerir það að verkum að raunverulegir tekjuskattar sjávarútvegsfyrirtækja eru langt undir 20 prósent skatthlutfalli tekjuskattslaganna. Tekið skal fram að framangreint á flest einnig við um aðrar atvinnugreinar.
Tekjur raunverulegra eigenda sjávarútvegsfyrirtækja
Þrátt fyrir skort á upplýsingum úr skattframtölum einstaklinga má auðveldlega áætla þær tekjur sem raunverulegir eigendur sjávarútvegsfyrirtækja hafa af nýtingu fiskveiðiauðlindarinnar. Í skýrslum Hagstofu Íslands um afkomu og rekstur sjávarútvegs má finna ítarlegar upplýsingar um þær. Í greinunum: Fiskveiðiauðlindin og þjóðin sem birtust á Kjarnanum í október og nóvember 2022 er greiningu á tölum Hagstofunnar um afkomu sjávarútvegfyrirtækja á árunum 2010 til 2020. Þar kom fram að árlegar tekjur þeirra voru að jafnaði um 47 milljarðar króna umfram rekstrarkostnað að meðtöldu eðlilegu endurgjaldi fyrir fjármagn í rekstrinum. Þessi umframhagnaður er vegna sérleyfis til að nýta fiskveiðiauðlind þjóðarinnar og er rentan af henni. Þessi fjárhæð, nærri 50 milljarðar króna á ári, er í fullu samræmi við ítarlegri rannsóknir fræðimanna við íslenska og erlenda háskóla sem einnig er vitnað til í greininni og hafa metið auðlindarentuna vera nálægt 20 prósent af söluverðmæti sjávarafurða sem er nálægt 250 milljarðar króna á ári.
„Tekjur raunverulegra eigenda sjávarútvegsfyrirtækja koma ekki fram í framtölum einstaklinga og setja ekki mark sitt á hátekjulistann“
Þessar tekjur raunverulegra eigenda sjávarútvegsfyrirtækja koma ekki fram í framtölum einstaklinga og setja ekki mark sitt á hátekjulistann. Þær eru faldar í bókhaldi eignarhaldsfélaga sem arður, eignaaukning hlutafjár og söluhagnaður og koma heldur ekki fram í skattstofni félaganna vegna skattfrelsis þeirra sem greint er frá hér að framan. En þær sjást í eignum eignarhaldsfélaganna og kaupum þeirra á hlutum í annarri atvinnustarfsemi, fjármálafélögum, tryggingarfélögum, fasteignafélögum og svo framvegis sem skila svo eignarhaldsfélaginu enn frekari skattfrjálsum tekjum.
Þessar tekjur eru ekki afrakstur af vinnu eða endurgjald fyrir bundið fé í rekstri. Þær eru ekki heldur guðsgjöf, þær eru gjöf þjóðarinnar. Tekjuverðmæti hvers hundraðshluta af kvótanum er nærri hálfur milljarður króna á ári, 2 prósent hans gefa um 1 milljarð króna og svo framvegis. Það er hlutskipti ráðherra sjávarútvegsmála að úthluta veiðiheimildum í byrjun hvers fiskveiðiárs. Þá afhendir hann fyrir hönd þjóðarinnar þessar gjafir í samræmi við kvótagildi hvers og eins. Þótt sagt hafi verið að sælla sé að gefa en þiggja, hljóta það að vera þung spor fyrir hvern þann sem vill gæta hagsmuna og réttinda almennings og telur að fiskveiðiauðlindin sé eign þjóðarinnar.
Höfundur er hagfræðingur og fyrrv. ríkisskattstjóri
Rithöfundar eru svo sannarlega í þessum hópi fólks. Þetta hefur viðgengist alveg frá inngöngu Íslands í EFTA en þróast mjög. Það varð mikill kippur í þessari þróun á tímum Davíðs Oddssonar með tilkomu 10% fjármagnstekjuskattsins. Nú hefur stór hluti þessara skattlausu aðila náð yfirhöndinni yfir samtökum eldri borgara.
,,Grái herinn"