Allt að 85 manns, þar af 60 konur og 25 karlar, voru á örorku- eða endurhæfingarlífeyri vegna langtímaáhrifa covid sýkingar í lok árs í fyrra.
Samkvæmt upplýsingum frá Tryggingastofnun voru 85 einstaklingar skráðir með lífeyri vegna sjúkdómsgreininganna „þreytuheilkenni eftir veirusýkingu og eftirstöðvar covid“ sem fyrstu sjúkdómsgreiningu 1. desember í fyrra. Miðað er við að fyrsta greining í læknisvottorði sé vegna þeirra veikinda sem vega þyngst.
Til samanburðar voru 8 manns, 3 karlar og 5 konur, með þessa greiningu sem fyrstu skráningu þann 1. desember árið 2019. Þá hafði covid faraldurinn ekki blossað upp á Íslandi og því líklega helst um að ræða fólk sem þiggur lífeyri vegna ME/CFS greiningar, það er ME (myalgic encephalomyelitis), þreytuheilkennis eftir veirusýkingu, og CFS (chronic fatigue syndrome), síþreytu.
Einkenni margra þeirra sem þjást af svokölluðu „long covid“ passa við einkenni ME og CFS. Á meðal „long covid“ einkenna eru síþreyta, öndunarerfiðleikar, minnistap, svefnvandamál, hósti, beinverkir, þunglyndi, kvíði og tap á bragð- og lyktarskyni. Ekki er vel þekkt hvað getur valdið þessum langtímaáhrifum eftir covid sýkingar.
Þá sömdu Sjúkratryggingar Íslands við Reykjalund og Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands um þjónustu við fólk sem glímir við afleiðingar covid og hafa hundruð manns fengið endurhæfingu.
Verðugt rannsóknarefni
Heimildin óskaði eftir upplýsingum frá Tryggingastofnun um fjölda þeirra sem þiggja örorku- eða endurhæfingarlífeyri vegna „long covid“ einkenna. Samkvæmt stofnuninni eru flestir lífeyrisþegar með samsettan vanda og því margar sjúkdómsgreiningar að baki örorkumats.
Erfitt er að segja út frá gögnum Tryggingastofnunar hvert framlag hverrar sjúkdómsgreiningar er til skertrar starfsgetu en miðað er við að sú fyrsta vegi þyngst. Því getur verið að fleiri sem þiggja lífeyri glími við „long covid“ þó það séu ekki þau veikindi sem vega þyngst í óvinnufærni þeirra.
„Það væri verðugt rannsóknarefni að varpa skýrara ljósi á afleiðingar faraldursins á starfsgetu“
„Það væri verðugt rannsóknarefni að varpa skýrara ljósi á afleiðingar faraldursins á starfsgetu og þróun hjá endurhæfingar- og örorkulífeyrisþegum sérstaklega, en slík rannsókn liggur ekki fyrir,“ segir í svari Tryggingastofnunar.
Samkvæmt alþjóðlegum rannsóknum hafa um 400 milljónir manns á heimsvísu upplifað „long covid“. Talið er að 10 prósent þeirra sem smitast af covid glími við eftirköst. Fyrir utan áhrif á heilsu og líðan fólks er talið að efnahagslegt tap vegna þessa geti numið allt að 1 prósent af landsframleiðslu heimsbyggðarinnar.
Bólusetningar dragi úr líkum á „long covid“
Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni (WHO) draga bólusetningar gegn covid úr líkum þess að „long covid“ einkenni komi fram. Rúmt ár er liðið frá því að stofnunin aflýsti neyðarástandi á heimsvísu vegna faraldurins. Sumarbylgja covid hefur þó riðið yfir bæði hérlendis og víða erlendis og mælir stofnunin enn með bólusetningum fyrir fólk í áhættuhópum.
Embætti landlæknis greindi frá því á dögunum að bóluefni hefðu komið í veg fyrir 542 dauðsföll á Íslandi. Komu þau í veg fyrir 70 prósent þeirra dauðsfalla sem annars hefðu orðið, mestmegnis hjá fólki eldra en 60 ára. Rannsókn WHO þess efnis var birt í tímaritinu The Lance Respiratory Medicine á dögunum og lagði sóttvarnarlæknir íslensk gögn til rannsóknarinnar og er meðhöfundur greinarinnar.
„Flest mannslífanna sem var bjargað voru meðal 60 ára eða eldri“
Telur WHO að dauðsföllum vegna heimsfaraldurs covid hafi fækkað um 59 prósent frá desember 2020 til mars 2023 vegna notkunar bóluefna við covid. Bóluefnin hafi þannig bjargað 1,6 milljónum mannslífa á Evrópusvæði stofnunarinnar.
„Flest mannslífanna sem var bjargað voru meðal 60 ára eða eldri en það er sá hópur sem er í mestri hættu á alvarlegum veikindum og dauða af völdum SARS-CoV-2 veirunnar, sem veldur COVID-19,“ segir í tilkynningu embættis landlæknis um greinina.
Athugasemdir