Kostnaður vegna þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd jókst um rúm 50 prósent á fyrstu sex mánaðum þessa árs samanborið við sama tímabil í fyrra. Kostnaðurinn hækkaði þrátt fyrir að um 50 prósent færri hafi sótt um hæli hér á landi í ár en á sama tíma í fyrra.
Í svari félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins við fyrirspurn Heimildarinnar um málið kemur fram að fjöldi nýrra umsækjenda um alþjóðlega vernd segi ekki alla söguna um hugsanlega útgjaldaþróun vegna þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd.
„Vegna tafa í málsmeðferð hjá Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála ásamt uppsafnaðs fjölda umsókna sem bíða afgreiðslu hjá Útlendingastofnun hafa umsækjendur verið að ílengjast lengur í úrræðum Vinnumálastofnunar. Kostnaðurinn við að þjónusta umsækjendur um alþjóðlega vernd hefur þar af leiðandi aukist,“ segir í svari ráðuneytisins.
Kostnaður við þjónustuna var 1,4 milljarðar króna á fyrstu sex mánuðum ársins 2022, stökk svo í 3,7 milljarða króna fyrstu sex mánuði ársins 2023 og í tæpa 5,7 milljarða á fyrstu sex mánuðum þessa árs.
Samt sem áður hefur dregið verulega úr hælisumsóknum hérlendis á þessu ári. Þær voru 2.022 talsins á fyrstu sex mánuðum ársins árið 2022, 2.498 árið 2023 en einungis 1.128 í ár, sem má m.a. útskýra með því að verulega hefur dregið úr straumi hælisleitenda frá Úkraínu og Venesúela. Margir Venesúelabúar sem sóttu um hæli bíða þó enn afgreiðslu mála sinna, annað hvort hjá útlendingastofnun eða kærunefnd útlendingamála. Þeir voru um 1.200 talsins í byrjun ágúst.
Erlendir fái lægri bætur og innlendir með hærri tekjur
Fleiri fyrirspurnum um kostnað við útlendingamál var svarað í vikunni, m.a. þeirri frá Diljá Mist Einarsdóttur, þingmanns Sjálfstæðisflokksins til félags- og vinnumarkaðsráðherra. Þar var farið inn á tilfærslur ríkisins til fólks með erlent ríkisfang annars vegar og innlent hins vegar. Þar kom í ljós að tilfærslurnar voru að meðaltali lægri til fólks með erlent ríkisfang en innlent í fyrra.
Bæturnar sem teknar voru inn í þennan útreikning voru barnabætur, vaxtabætur, atvinnuleysisbætur, húsnæðisbætur og greiðslur frá Tryggingastofnun - t.d. ellilífeyrir og félagslegur stuðningur.
Í svari til Diljár kom jafnframt fram að ráðstöfunartekjur og eignir fólks með íslenskt ríkisfang séu umtalsvert hærri en hjá öðrum hópum.
Athugasemdir