Ég man mína fyrstu ferð inn á Kjöl, hægfara á torleiði um auðnir á milli jökla. Þegar ég sá gróðurvinjar Norðurlands birtast og síðan votlendin – víðfeðm og full af lífi á milli ásanna. Ógleymanleg ferð. Las sögur um öræfabýli, hungur, vosbúð, svaðilfarir og harmsögur. Um hamingju, rómantík og listsköpun. Kvæði.
Ég minnist reglulegra ferða í beitartilraunina við Sandá undir Áfangafelli á hverju sumri. Við vorum iðulega fyrstu ferðalangarnir yfir Kjöl – enginn annar á ferð. Ungur að árum að mæla uppskeru og eltast við sauðfé innan tilraunagirðinga. Njóta dýrðlegra daga í misjöfnum veðrum. Öræfakyrrð og fuglalíf við tjaldskörina.
Fylgjast með gróðrinum strögla þegar saman fór ofbeit og ótíð hið kalda sumar 1979, heiðin varð ekki söm á eftir, víðibrúskarnir kvöddu í bili.
Við vorum á heiðunum árið 1983 og gengum skipulega um gjörvalla afréttina beggja vegna Blöndu til að meta ástand vistkerfa. Rýndum í landið og greindum plöntur innan óteljandi ramma. Á sumrinu sem aldrei kom. Minnist þess að vakna stundum í snæviþöktu tjaldi. Stígvélin blaut. Vosbúð.
Minnistæðir eru reiðtúrar með heimamönnum um torfærar flár til að ákvarða landamörk og girðingarstæði á vesturmörkum Auðkúluheiðar, því nú var von á lóni. Héraðshöfðingjar, sögur, söngur, snaps, ákvarðanir og sættir. Vinátta. Villur í þokunni þegar suður varð norður um stund. Kompás og kort.
Samvinna við að leggja út og greina víðfeðm svæði beggja vegna fljótsins sem nú skildi græða upp til að bæta fyrir tjónið af völdum virkjunar. Fjölmargar ferðir til að fylgjast með uppgræðslunum, skoða moldina. Vistheimt sem íslenskt hugtak varð til.
Svo lagðist lónið út yfir heiðarnar. Flóarnir mögnuðu fóru undir vatn. Álftir lögðu á flótta. Atvinna við virkjun kom og hún fór.
Nú eru rútur á Áfangafellinu og þúsund myndir eru teknar á stundarfresti. Útsýnið til jökla og Kerlingafjalla er enn stórkostlegt en lónið engist vatnslítið lengi sumars um landið fyrir neðan. Sandfok frá lónbökum fyllir vit og það berst undan þurrum sunnanvindum út yfir móana. Hraðbraut sker í sundur kyrrðina. Töfrarnir eru horfnir á vit stundarinnar – eilífðin horfin.
Þarna stendur til að reisa vindmyllur til að mata óseðjandi orkuhungur til að knýja upplýsingabrautirnar sem einhver þarfnast – stundum – kannski. Vindmyllurnar hafa hlutverkaskipti við Don Kíkóta og halda í stríð við mennskuna. Þær verða krossarnir á leiði heiðarinnar – „minningin lifir“ stendur á undirstöðunum ef grannt verður skoðað.
Fjármagnseigendur kaupa auðlindirnar til að auka á eigið ríkidæmi – óháð ríkisfangi. Nú er mögulegt að kaupa vindinn. Er virkilega þörf á að krossfesta fleiri heiðarlönd og náttúru á Íslandi? Og þá: fyrir hvern?
Athugasemdir (2)