Látrabjarg gæti orðið einn vinsælasti áfangastaður landsins þann 12. ágúst árið 2026 er almyrkvi á sólu, sá fyrsti sem sést hér á landi frá árinu 1954, mun eiga sér stað. Ástæðan fyrir mögulegum vinsældum Látrabjargs á þessum degi er sú að lengd myrkvans verður þar mest á landinu. Nánar tiltekið mun almyrkvi standa í tvær mínútur og 18 sekúndur rétt vestan við Látrabjarg. Til samanburðar mun hann aðeins standa í 58 sekúndur í Reykjavík.
Alskugginn nemur fyrst land við Straumsnesvita á Hornströndum kl. 17:32:33 þennan dag. Þar mun myrkvinn standa í 1 mínútu og 57 sekúndur, segir í samantekt Sævars Helga Bragasonar, „Stjörnu-Sævars“, um atburðinn. Alskugginn yfirgefur svo Ísland við Reykjanesvita kl. 17:51:14. Í heild verður alskugginn yfir Íslandi í tæpar 19 mínútur.
Samantekt Sævars hefur verið kynnt sveitarstjórnarmönnum fyrir vestan enda er í henni bent á atriði sem þarf að huga að fyrir fram, svo sem aðgengi ferðafólks að Látrabjargi sem er varasamur staður með sínum snarbröttu klettum. Einnig þurfi að huga að viðkvæmri náttúru. „Ef viðrar vel á Vestfjörðum en illa sunnantil má búast við mikilli umferð vestur,“ bendir Sævar meðal annars á.
Bæjarráð Vesturbyggðar hefur skipað starfshóp vegna undirbúnings fyrir sólmyrkvann.
Athugasemdir