Í febrúar árið 1985 mátti lesa í sunnudagspistli í Þjóðviljanum varnaðarorð gegn nýrri uppfinningu, myndbandstækinu. „Alkóhólistar ku vera því erfiðari sem þeir byrja fyrr að drekka. Og við vitum fátt um það fólk sem nú er að verða til – það fólk sem fékk myndband í stað fósturs heima og að heiman og kom timbrað í barnaskólann úr vídeóveislu kvöldsins áður. Ólíklegt til dæmis að þetta fólk muni nokkru sinni eignast þá lágmarkseinbeitni sem bók heimtar.“
Myndbandstækið er ekki eina dægradvölin sem líkt hefur verið við vímugjafa.
Í árdaga skáldsögunnar höfðu margir áhyggjur af „lestrarfíkn“ og siðspillandi eiginleikum bóka. „Skáldsagnalestur er háskalegasti siður sem ungar stúlkur geta tekið upp,“ ritaði dr. John Harvey Kellogg, skapari morgunkornsins vinsæla, árið 1882. „Hann er jafnávanabindandi og áfengi og ópíum.“
Við höfum enn áhyggjur af skaðsemi skjátíma. Viðhorf til lestrar hefur þó snarbreyst og þykir nú fátt meira göfgandi en að taka sér bók í hönd.
Dagblaðið The New York Times birti nýverið lista yfir 100 bestu bækur 21. aldarinnar. Vakti listinn heit viðbrögð en þúsundir lesenda tjáðu sig um bókavalið, tilgreindu bækur sem þeim fannst ekki verðskulda sæti á listanum og tíunduðu þær sem þótti vanta. Brá blaðið á það ráð að leyfa lesendum að kjósa um sinn eigin lista. Endurspeglaði niðurstaðan hversu huglægur mælikvarði á bækur er. Á lista lesenda voru 39 bækur sem einnig mátti finna á lista dagblaðsins en 61 bók sem ekki hafði vakið eftirtekt menningardeildarinnar.
En hvernig liti sambærilegur íslenskur listi út?
Innsýn í sögu og sál þjóðar
Bækur eru dægrastytting. Þær eru stundarflótti undan raunveruleikanum. Þær eru spegill á samtímann og sjálfið. Þær eru æfing í samkennd. Þær eru neysluvarningur, gjafavara og jólagjöfin í ár.
Í Heimildinni í dag er að finna lista yfir 100 bestu íslensku bækur það sem af er öldinni. Ægir þar saman skáldskap, ljóðabókum og fræðiritum. En þótt á listanum kenni ýmissa grasa eiga bækurnar flestar sameiginlegt að veita innsýn í sögu og sál þjóðar sem búið hefur öldum saman einangruð við nyrstu voga.
Margar fjalla þær um harðræði fortíðar, fátækt og eymd en jafnframt staðfestu landans frammi fyrir kaldranalegum örlögum.
Árekstur þess gamla og nýja er mörgum höfundum hugleikinn. Bókin sem er í 1. sæti listans, Sextíu kíló af sólskini eftir Hallgrím Helgason, lýsir því þegar síldin og nútíminn hefja innreið sína í íslenskt sjávarþorp.
Áhrifum mannkynssögunnar á okkar afskekktu eyju bregður víða fyrir. „Skotgrafirnar eru upp fyrir hné í for og vatni, hvergi staður til að setjast eða leggjast,“ skrifaði ungur Íslendingur sem barðist í heimsstyrjöldinni fyrri í bréfi til fjölskyldu sinnar. „Forin er um allt, hvergi gras, allt landið tætt af sprengikúlum, stráð dauðra manna búkum.“ Nærri 400 hermenn fæddir á Íslandi börðust í skotgröfum stríðsins mikla en um örlög þeirra má lesa í samnefndu sagnfræðiriti Gunnars Þórs Bjarnasonar sem situr í 29. sæti.
Flutningurinn úr sveit í borg er algengt minni. Skáldsaga Auðar Övu Ólafsdóttur, Ungfrú Ísland, sem situr í 46. sæti, segir frá ungri skáldkonu utan af landi sem flyst til Reykjavíkur árið 1963. Í höfuðborginni er konunni og hæfileikum hennar hins vegar tekið fálega. „Karlmenn fæðast skáld,“ segir í bókinni. „Þeir eru um fermingu þegar þeir gangast við því óumflýjanlega hlutskipti sínu að vera snillingar. Það skiptir engu hvort þeir skrifa bækur eða ekki.“
Horfinn heimur ... og þó
Dagblaðið The New York Times tók bókalista sinn saman í tilefni þess að senn er aldarfjórðungur liðinn frá upphafi 21. aldar. Sé litið á íslenska listann blasa við þær gífurlegu breytingar sem átt hafa sér stað síðustu öldina.
Bókin sem er í 1. sæti íslenska listans fjallar um horfinn heim. Og þó. Daginn eftir að Hallgrímur Helgason hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin 2018 fyrir Sextíu kíló af sólskini sagði hann í viðtali við Ríkisútvarpið aldrei neitt breytast á Íslandi. „Það eru einhverjir klausturbræður sem ráða öllu og komast alltaf upp með hvað sem er, og það er alltaf einhver Bjarni Ben við völd, og svo fara Vinstri grænir með honum og maður missir trúna á allt vinstrið, þannig að ég er ekkert voðalega bjartsýnn.“
Kannski að fyrsti fjórðungur 21. aldar sé ekki jafnólíkur fyrsta fjórðungi þeirrar síðustu og virðist í fyrstu.
Hverjar eru uppáhaldsbækurnar þínar?
Sláturhús 5, Kurt Vonnegut
Reyfari, Charles Bukowski
Sultur, Knut Hamsun
Bókin um veginn, Lao Tse
Hafið, hafið, Iris Murdoch
Fávitinn, Fjodor Dostojevskíj
Þórbergur
Laxness
Jane Eyre, Charlotte Brontë
Hundrað ára einsemd, G.Garcia Marques
Dýrabær og 1984, George Orwell
Góði dátinn Svejk, Jaroslav Hašek
Stieg Larsson bækurnar
Skuggi vindsins, C. Ruiz Zafón
Hús andanna og Eva Luna, I. Allende
Hugleikur Dagsson, myndasögur
Dagur Sigurðarson ljóð
Sigurður Pálsson ljóð
Veröld Soffíu, Jostein Gaarder
Ein er sú bók sem ég sakna hvað mest af listanum og ber í því samhengi einmitt táknrænt nafn: Missir e. Guðberg Bergsson sem kom út árið 2010. Missir fjallar um síðustu skrefin í lífsgöngu manns. Hin óhjákvæmilegu skref til endalokanna.
Valin besta bók ársins 2010 af gagnrýnendum Morgunblaðsins, Kolbrúnu Bergþórsdóttur og Árna Matthíassyni: „Guðbergur hefur hér meistaraleg tök á efninu og frásögninni allri. Missir er tvímælalaust eitt af hans áhrifameiri verkum, knappt og meitlað og vekur lesendann til umhugsunar.“