Sú tíð virðist löngu liðin þegar hægt var að reka sómasamlegt heimili fyrir stök mánaðarleg lág- eða meðallaun. Í núverandi umhverfi virðist sá tíma vera órafjarri og sögur af einstaklingum á lágum launum, með lítið bakland, að festa kaup á íbúð heyrast sjaldan.
Auður Alfa Ólafsdóttir, forstöðumaður Verðlagseftirlits ASÍ, segir í samtali við Heimildina að einstæðir foreldrar hafi lengi glímt við fjárhagslega erfiðleika. Það séu samt ekki nema 15 til 20 ár síðan fólk með frekar lágar tekjur gat keypt sér húsnæði. „Við erum ekki að sjá þetta í dag, eða miklu síður,“ segir Auður og bætir við: „Ég held það sé algjörlega borin von. Jafnvel þótt einstætt foreldri sé með háar tekjur er það bara ekki séns. Nema fólk fái aðstoð frá foreldrum. Það eykur ójöfnuð, við verðum alltaf háðari því að eiga eitthvert bakland sem hefur fjármagn.“
Athugasemdir