Styrktarsjóður félagsins hefur verið rekinn með halla „nær sleitulaust frá árinu 2014“. Þetta kemur fram ífréttatilkynningu sem Blaðamannafélag Íslands sendi frá sér á mánudag.
Til þess að rétta úr kútnum hefur félagið ákveðið að hverfa frá fyrra fyrirkomulagi sem miðaði við að tryggja samanlagðan rétt félagsmanna til launa í 12 mánuði. Þess í stað kveða nýjar reglur á um að blaðamönnum sé tryggður réttur til launa úr styrktarsjóði í þrjá mánuði sem bætist við kjarasamningsbundin réttindi.
„Þessi breyting felur í sér að blaðamenn með yfir 10 ára starfsreynslu eiga eftir sem áður rétt á launum í veikindum í 12 mánuði en fyrir félagsfólk með skemmri starfsreynslu verður réttur til launa í veikindum 7,5 til 9 mánuðir, sem er sambærilegt við önnur stéttarfélög sem BÍ hefur borið kjör sín saman við,“ segir í tilkynningunni.
Óviðunandi starfsaðstæður og mikið álag
Í tilkynningu félagsins er tekið fram að Blaðamannafélag Íslands hafi samið um rýmri veikindaréttindi fyrir sitt félagsfólks en almennt gengur og gerist á vinnumarkaði. Atvinnurekendur greiða til að mynda full laun blaðamanna í veikindaleyfi í lengri tíma en þekkist hjá mörgum öðrum stéttum.
Þá er einnig tekið fram að önnur stéttarfélög séu að ganga í gegnum sambærilega þróun, þar sem úthlutunarreglum styrktar- og sjúkrasjóðum hefur verið breytt til þess að bregðast við fjölgun umsókna um sjúkradagpeninga.
Þrátt fyrir það lýsir Blaðamannafélagið áhyggjum yfir auknum langtímaveikindum innan stéttarinnar sem bendir til alvarlegs vanda innan greinarinnar sem fari versnandi. Félagið leggur áherslu á að bregðast þurfi við með aðgerðum til að snúa við þeirri ískyggilegu þróun sem hefur átt sér stað.
„Engu að síður er það áhyggjuefni hvað langtímaveikindi innan blaðamannastéttarinnar hafa aukist mikið.Það er löngu vitað að starfsaðstæður blaðamanna eru óviðunandi, álag er of mikið, tæplega helmingi blaðamanna á Íslandi hefur verið ógnað eða hótað og laun eru ekki í samræmi við menntun og ábyrgð.“
Aðgerðirnar sem Blaðamannafélagið hyggst grípa til eru, meðal annars, að hrinda af stað sérstakri fræðslu- og forvarnaráætlun sem félagsfólk sem glímir við langtímaveikindi getur leitað í.
Þar að auki segist félagið muni leita leiða til að bæta starfsaðstæður og líðan blaðamanna á vinnustaðnum í samstarfi við atvinnurekendur. Þá mun félagið einnig leggja áherslu á skerpa fræðslu um réttindi félagsfólks.
Loks er tekið fram að BÍ muni eftir fremsta megni reyna að færa réttindi félagsfólks í betra horf þegar Styrktarsjóður félagsins stendur betur fjárhagslega.
T.d. þegar þú smellir á hlekk frá facebook ertu ekki innskráð því þá ertu að skoða ,,gegnum Facebook".
Vonandi hjálpar þetta.