Fyrr í dag var greint frá því að frá og með föstudeginum verði kvöldfréttir Ríkisútvarpsins ekki klukkan 19 líkt og venja er, heldur klukkan 21. Seinni fréttatíminn, klukkan 22, verður jafnframt felldur niður.
Ástæðan fyrir breytingunum er sú að Evrópumeistaramót karla í fótbolta hefst á föstudagskvöldið, 14. júní, og stendur í mánuð. Ólympíuleikarnir hefjast síðan í París þann 26. júlí og standa til 11. ágúst.
Óhagræði fyrir fréttamenn
„Menn eru ekkert hoppandi glaðir með þetta, en það er ekkert verið að fara í einhverjar skærur út af þessu,“ segir Hallgrímur Indriðason fréttamaður og trúnaðarmaður fréttamanna RÚV. Hann segir breytinguna á fréttatímanum hafa þau áhrif að í mörgum tilvikum þurfi starfsmenn að mæta tveimur tímum síðar en þeir eru vanir og vera tveimur tímum lengur.
„Aðal óhagræðið er um helgar – föstudögum, laugardögum og sunnudögum – þegar það er ekki alla jafna kvöldvakt á þeim sem eru í innlendum og erlendum fréttum,“ segir Hallgrímur.
„Það er búið að vera samtal í gangi um þetta í svolítinn tíma,“ bætir hann við. „Ég held að almenna afstaðan sé sú að menn eru ekkert að setja sig eitthvað æsta upp á móti þessu en hins vegar er þetta auðvitað ákveðið óhagræði fyrir marga sem þurfa þá að vera lengur í kvöldin en þeir höfðu annars þurft.“
Spurður hvort hann viti til þess að kvöldfréttatíminn klukkan 19 hafi áður verið færður í jafn langan tíma svarar Hallgrímur því neitandi. „Ég er búinn að vera þarna í 18 ár og man ekki eftir að það hafi verið gert svona áður – ekki í svona langan tíma.“
Skiptar skoðanir hjá þjóðinni
Ef marka má samfélagsmiðilinn Facebook hefur ákvörðun RÚV hlotið gríðarlega misjafnar viðtökur hjá þjóðinni. Ýmsir lýsa yfir ánægju með ákvörðunina og segja hana hið besta mál. Nokkrir ganga jafnvel svo langt að leggja til að breytingin verði varanleg.
Þó virðist bera meira á óánægjuröddum í athugasemdum. Eru þar sumir svo ósáttir með tilhögunina að þeir ýja að því að hún hljóti að vera aprílgabb.
En hvað finnst lesendum þessarar fréttar?
Athugasemdir (2)