Það fer ekki framhjá neinum sem hefur áhuga á íslensku máli sú umræða sem á sér stað um kynjun og meinta karllægni í tungumálinu. Þannig má stundum sjá átakalínuna liggja í gegnum fréttir RÚV þar sem þulurinn les ýmist „sum“ eða „sumir“, „mörg“ eða „margir“, eftir því hver skrifaði fréttina. Íhaldssama deildin gerir lítið úr tengingu málfræðilegs kyns og eiginlegs kyns, sem býður upp á áhugaverðar pælingar um kynvitund andspænis líkamlegu kyni, aðra átakalínu sem ég ætla ekki að fara frekar út í hér.
Boðberar byltingarinnar finna hins vegar fnyk af feðraveldinu í karllægninni og vilja hafa kynhlutlausa nálgun a.m.k. valkvæða. Almennt séð lít ég svo á að hæfileg íhaldssemi sé holl og góð hvað varðar íslenskuna og að það sé þess virði að berjast fyrir að hún varðveitist og haldi helstu sérkennum sínum. Hins vegar held ég að kröftunum sé betur varið í eitthvað annað en að berjast gegn þessari þróun, sem sístækkandi hópur málnotenda tekur þátt í. Þessi hópur er nefnilega almennt mjög meðvitaður um tungumálið og hvernig því er beitt, annars væri hann ekki að standa í þessu. Og þegar upp er staðið, verður það einhvers konar lýðræðisleg ákvörðun sem ræður að lokum; það málsnið sem flest okkar munu velja að nota í framtíðinni.
Það er líka fordæmi úr íslenskri málsögu um breytingar sem færa má rök fyrir að hafi verið í nafni einhvers konar pólitískrar réttlætishugsunar. Þérun er nánast horfin úr málinu, en prestar, kennarar og embættismenn voru gjarnan þéraðir fram eftir síðustu öld og fól í sér einhvers konar lagskiptingu samfélagsins: „Sælir verið þér séra minn...“ eins og segir í gömlum húsgangi. Það eina sem eftir stendur af þérun í dag er kannski „afsakið“, þar sem við notum fleirtölumynd þótt við séum að tala við eina manneskju. Og svo þérar fólk sjálft sig í Faðirvorinu, með „Gef oss í dag...“, en Guð er kominn á sama plan og við mannfólkið með „Þú sem ert á himni...“, í stað „Þér sem eruð á himni“.
„Þegar upp er staðið, verður það einhvers konar lýðræðisleg ákvörðun sem ræður að lokum; það málsnið sem flest okkar munu velja að nota í framtíðinni.“
Við viljum þrátt fyrir allt telja okkur jöfn, hér á Íslandi. Finnum fyrir stolti þegar útlendingar tala um hve skrítið það sé að hitta forsetann á förnum vegi, forsætisráðherrann á rölti í vinnuna eða Björk á labbi í miðbænum. Það er kannski smæðin sem hefur leitt af sér ákveðna jafnaðarmennsku sem er samþætt íslenskri þjóðarsál og hjálpaði til við að útrýma þérun.
Undanfarin 14 ár hef ég rekið tungumálaskóla, þar sem íslenskukennsla er lang fyrirferðarmest. Með sístækkandi nemendahóp frá ári til árs finnum við fyrir þeirri ábyrgð sem felst í því að opna dyrnar að íslenskunni fyrir nýjum íbúum þessa lands. En við erum ekki aðeins að kenna tungumál, við erum líka að miðla menningu, að miðla gildum. Og gildin birtast líka í tungumálinu. Fyrir nokkrum árum settum við upp hin feminísku gleraugu og ákváðum að uppfæra kennsluefnið okkar (sem við framleiðum sjálf) í þeim anda jafnræðis og jafnréttis sem okkur finnst skipta meira máli en hefðin. Við kennslu notum við þá gjarnan tækifærið til að útskýra fyrir nemendum þá breytingu sem er að eiga sér stað og um að þeir eigi val um að segja „allir“ eða „öll“, „sumir“ eða „sum“, o.s.frv.
Halla Tómasdóttir, nýkjörinn forseti, talaði mikið um þörfina á að skilgreina gildi okkar Íslendinga. Að því gefnu að við dettum ekki inn í einhvern þjóðernisfasisma, er það vissulega áhugavert. Ég hef kynnst nemendum sem fluttu til Íslands með fjölskyldur sínar vegna þess að þeim líkaði íslensk gildi og vildu ala börn sín upp í þeim. Tungumálið er ekki til í tómarúmi, heldur í ákveðnu samhengi innan samfélags sem er í stöðugri þróun. Og það verður að bjóða upp á andrými fyrir nýjar kynslóðir og gefa þeim frelsi til að skilgreina hlutina á sinn hátt – á íslensku.
Höfundur er framkvæmdastjóri og kennari hjá Múltikúlti íslensku.
Athugasemdir