Forsætisráðherra Bretlands, Rishi Sunak, boðaði nýverið til þingkosninga. Þar sem hann stóð við ræðupúlt fyrir utan Downingstræti 10 og ávarpaði þjóðina fór að hellirigna. Veðurguðirnir voru þó ekki einir um að vera ráðherranum til trafala. Óprúttinn mótmælandi hafði komið sér fyrir skammt frá aðsetri forsætisráðherra með hátalara. Undir ræðu Rishi glumdi kosningalag Verkamannaflokksins, „Things can only get better“ með hljómsveitinni D:Ream, sem hljómaði í vasadiskóum vinstri manna í kjölfar stórsigurs Tony Blair í þingkosningum árið 1997.
En þótt lagið hafi skotist upp breska vinsældarlista í kjölfar hrakfara Rishi Sunak komst það ekki á „playlista“ núverandi leiðtoga Verkamannaflokksins Keir Starmer. Sagan segir að Starmer, sem stundum er sakaður um að vera ódýr eftirlíking af Blair, vilji skapa sér sérstöðu með nýju einkennislagi.
Starmer leitar nú að rétta stefinu. Ófáir stungu hins vegar upp á því að Rishi Sunak gerði lagið „Why does it always rain on me“ með hljómsveitinni Travis að einkennislagi sínu í komandi kosningabaráttu.
En hvaða lög fanga hið pólitíska landslag á Íslandi í dag?
1) „The winner takes it all“ með Abba hlýtur að teljast söngur Höllu Tómasdóttur sem bar sigur úr býtum í forsetakosningunum um síðustu helgi. Lagið „triggerar“ vafalaust tapsára andstæðinga hennar sem telja það heiti á kúrs í MBA námi, háskólagráðu djöfulsins sem ekkert fær hamið nema doktorsritgerð í almennri bókmenntafræði um sundtækni Grettis Ásmundarsonar.
2) Þessir tapsáru unnendur sundtaka í fornbókmenntum, aðallega karlmenn kringum sextugt sem fárast yfir því á Facebook að verðandi forseti hafi í ræðu vitnað í ljóðskáld sem ekki var íslenskt, jarma nú Ísland farsælda frón í fimmundasöng á meðan þeir íhuga að beita sér fyrir því að forsetinn taki upp setuna – ekki klósettsetuna heldur bókstafinn. Og þó.
3) og 4) Þau sem ekki unnu búsetu á Bessastöðum í kosningunum syngja nú eins og Sólstrandagæjarnir „ég er rangur maður, á röngum tíma, í vitlausu húsi.“ En stuðningsmenn þeirra raula á móti „reyndu aftur“ eins og Mannakorn forðum, af mismikilli sannfæringu þó.
5) Þannig týnist tíminn er hins vegar viðkvæði flestra kjósenda þegar síminn þeirra tilkynnir þeim um aukinn skjátíma á meðan á kosningabaráttunni stóð á formi svo svimandi hárrar prósentuaukningar að ekki einu sinni Halla Tómasdóttir á ögurstundu gæti leikið hana eftir.
6) Önnur sjónarmið söng Edda Heiðrún Backman í kvikmyndinni Eins og skepnan deyr. Lagið raula nú þau sem fengu að finna fyrir því í aðdraganda forsetakosninganna að þótt Ísland eigi að heita frjálslynt lýðræðisríki voru önnur sjónarmið ekki sérlega vel liðin.
7) Kjósendur dönsuðu þó ekki eftir höfði þeirra sem töldu sig vita best. „Við eigum samleið“ sungu Sigga Beinteins og Grétar Örvarsson í Stjórninni. Það gerðu líka Katrín Jakobsdóttir og Bjarni Benediktsson í ríkisstjórninni.
8) Þeim Katrínu og Bjarna varð vel til vina. En þótt „Traustur vinur geti gert kraftaverk,“ samkvæmt hljómsveitinni Upplyftingu eru margir stjórnmálaspekingar þeirrar skoðunar að vinátta Katrínar og Bjarna hafi kostað Katrínu forsetastólinn.
9) Eru margir fyrrum stuðningsmenn Katrínar einmitt þeirrar skoðunar að hún hefði fyrir löngu átt að vera búin að syngja til Bjarna „vertu ekki að plata mig,“ eins og Sigga Beinteins gerði með HLH flokknum, „þú ert bara að nota mig.“
10) Þjóðin hefur eignast nýjan forseta. Ásökun liggur hins vegar í loftinu. Óprúttnir samfélagsþegnar eru sagðir hafa svikið eigið hjarta og kosið taktískt, rétt eins og að í lýðræðiskosningum kjósum við sálufélaga en tjáum ekki einfaldlega skoðun okkar á því fólki sem er í framboði. En þótt við vitum vel að hjartað er ekki líffæri sem á þátt í almennri ákvarðanatöku syngjum við eins og Shaggy, með skottið á milli lappanna: „It wasn’t me.“
Athugasemdir (4)