Foreldrahús neyðist til þess að leggja niður starfsemi sína í lok sumars vegna fjárskorts. Í færslu sem félagið birti á dögunum á Facebook-síðu sinni er greint frá því að til standi að loka Foreldrahúsi sem „er eina úrræðið hér á landi sem grípur börn og ungmenni með fjölþættan vanda og styður fjölskyldur þeirra“.
Félagið hefur efnt til undirskriftasöfnunar þar sem skorað er á stjórnvöld að tryggja áframhaldandi fjármögnun félagsins.
Foreldrahús er úrræði sem rekið er af samtökunum Vímulaus æska – foreldrasamtök sem stofnuð voru árið 1986. Árið 1999 var komið á fót ráðgjafarmiðstöð sem hýsir starfsemi samtakanna og var nefnt Foreldrahús. Miðstöðin var fyrst til húsa að Vonarstræti en starfsemin flutti síðar í nýtt húsnæði í Borgartúni 6.
Í um 25 ár hafa foreldrar barna og ungmenna sem glíma við vímuefnavanda getað sótt sér meðferð, fræðslu og þjónustu í Foreldrahúsi.
Á vefsíðu félagsins kemur fram að Foreldrahús sinnir einnig „ráðgjöf vegna fjölbreyttari vanda bæði barna unglinga og fjölskyldunnar í heild sinni. Má þar nefna einelti, félagslega erfiðleika, vanlíðan, kvíða og hegðunarvanda og einnig uppeldisráðgjöf og námskeið fyrir foreldra, sem vilja styrkja sig í uppeldishlutverkinu“.
Þá geta unglingar í fikti, neyslu eða með vímuefnavanda sótt sér sértaka stuðningsmeðferð í Foreldrahúsi. Félagið hefur sömuleiðis staðið að fyrirlestrum víðs vegar um landið.
Í frétt sem birtist á RÚV síðastliðinn apríl var greint frá því að rekstrarstaða félagsins hafi á undanförnum árum versnað eftir að félagsmálaráðuneytið hætti styrkveitingum til félagsins.
Í fréttinni var haft eftir Berglindi Gunnarsdóttur Strandberg, framkvæmdastjóra Foreldrahúss, að hún sagðist ekki vita hvert foreldrar og börn sem hafa hingað til leitað til Foreldrahúss gætu farið annað ef miðstöðin yrði lögð niður.
Ráðgjafi hjá Foreldrahúsi horft upp á foreldra missa mörg börn
Í þjóðmálaþætti Heimildarinn, Pressu, í febrúar voru úrræði fyrir einstaklinga með fíknivanda og aðstandendur þeirra tekin til umræðu. Meðal viðmælendanna var Rúna Ágústsdóttir, ráðgjafi hjá Foreldrahúsi.
Í þættinum lýsti Rúna úrræðaleysinu sem blasir við ungmennum, undir 18 ára aldri, sem glíma við fíknivanda. Telur hún úrræðaleysið stafa af þekkingarleysi og fordómum gagnvart sjúkdómnum.
„Ég hef horft upp á og verið með foreldra í foreldrahópum sem hafa misst börnin sín. Fleiri en eitt, og fleiri en tvö og fleiri en þrjú. Það vantar þennan djúpa skilning á að það er enginn sem velur að fara þangað. Það er enginn sem velur að eiga börn sem eru veik af þessu.“
Athugasemdir (3)