Yngsta barnið mitt hefur lengi verið ósátt við sína stöðu. Hún telur óviðunandi misrétti fólgið í því að fæðast síðust. Eitt er að hafa ekki fengið að kynnast móðurafa sínum neitt. En að móðuramma hennar hafi verið hrifsuð burt þegar hún var bara sex og hálfs – það er ófyrirgefanlegt. Misréttið felst í því að eldri systkini og frændsystkini fengu miklu meiri tíma með henni. Þær voru mjög nánar og hringdust reglulega á og skipulögðu gistingar og alls kyns brall án þess að ræða það neitt sérstaklega við foreldrana. Það var sem sagt verulegt áfall þegar þessi mikilvægi klettur í lífinu hvarf allt í einu.
Nú er ég sjálf yngst af fimm systkinum og get alveg tengt við þessa tilfinningu. Hún gerði til dæmis iðulega vart við sig þegar var verið að tala um alls kyns hluti sem gerðust í hinum ýmsu löndum sem fjölskyldan bjó í – áður en ég fæddist. Og ég fékk sannarlega styttri tíma með foreldrum mínum og öfum og ömmum en eldri bræður mínir fjórir.
Á þessu eru þó fleiri hliðar, ég átta mig á því. Elsti bróðir minn hafði búið á tólf stöðum í þremur löndum þegar fjölskyldan flutti inn á æskuheimili mitt í Kópavogi. Þar sem ég bjó frá fæðingu þar til ég flutti tvítug í sollinn í miðborginni. Hann öfundaði mig af þessu viðburðaleysi og öryggi og fannst hann frekar hafa dregið stutta stráið, því hann er ekki einn af þeim sem fannst gaman að vera nýi strákurinn í bekknum. Hvað þá aftur og aftur og aftur og að auki stundum á ensku eða frönsku.
Rétt eins og yngsta dóttir mín hefur farið margoft til útlanda en sumarfríin með elstu systur hennar þrjár (13, 14 og 15 árum eldri) voru aldrei meira en tjaldútilegur með smurt nesti og vatn úr næsta læk. Kannski gist í flatsæng hjá skyldfólki fyrir norðan. Við vorum svo blönk að utanlandsferðir með alla fjölskylduna voru útilokaðar. Yngsta dýrinu finnst þetta reyndar líka ósanngjarnt, því hana langar í útilegur. Gallinn er bara að árlegar útilegur stórfjölskyldunnar í föðurætt hafa verið lagðar af, því allir eru orðnir svo gamlir. Nema hún. Átjánda og yngsta barnabarnið þeim megin. Þetta er augljóslega svindl.
Sjálf segist hún ætla að eignast börn snemma, að sögn svo við verðum ekki hundgömul afi og amma sem geta ekki einu sinni passað og deyjum svo bara þegar þau eru lítil. Jahá, sagði ég. Allt í lagi. Meðtekið.
Hver er þá lærdómurinn af þessu ranti yngstu barna? Þetta kemur kannski eins og skrattinn úr sauðarleggnum – en hann er sá að við eigum að halda dagbók. Faðir minn sem lést fyrir rúmum áratug hélt dagbók lengi vel og áður en hann dó sagði hann skýrt og skilmerkilega að ég ætti að eiga kistuna sem þær voru geymdar í. Fyrir vikið hef ég fengið að kynnast honum upp á nýtt. Ég er búin að upplifa með honum eftirvæntinguna og vonina um að komast til Sovétríkjanna á námsstyrk á 6. áratug síðustu aldar en sé svo þegar þangað er komið hvernig það rennur upp fyrir hugsjónamanninum hvað þetta stjórnarfar er skelfilegt. Ég er búin að hanga með honum á stúdentavistinni í Moskvu og drekka vodka og dansa (það var alltaf dansað!), ferðast um Sovétríkin og Pólland og reiðast yfir mörgu. Hann var mjög reiður, ungur maður. Það skal tekið fram að ég sá hann aldrei dansa í lifanda lífi.
Ég vildi óska að mamma hefði haldið svona dagbók svo ég hefði getað farið í ferðalag af þessu tagi með henni. Við erum öll afsprengi fólksins okkar og að fá að kynnast þeim á þennan hátt setur svo margt í eigin fari og skapgerð í samhengi.
„Tilfinningar dofna og samskipti, líðan og hugsanir hverfa í óminnisdjúpin“
Þótt við skrásetjum líf okkar af miklum móð núna á samfélagsmiðlum og með þúsundum mynda sem er hlaðið upp í skýið – þá segja þær ekkert um hvernig okkur leið og hvað gekk á í kollinum. Við þurfum heldur ekki sagnfræðinga til að útskýra að það er ekki það sama að rifja upp atburði síðar meir og að skrásetja þá jafn óðum. Tilfinningar dofna og samskipti, líðan og hugsanir hverfa í óminnisdjúpin. Samtímaheimildir eru dýrmætastar. Frænka mín sem missti móður sína ung sagði frá því um daginn að eitt það dýrmætasta sem hún ætti væri safn handskrifaðra miða og korta frá móður til dóttur. Tilefni skrifanna oft bara löngun til að tjá kærleika og ást til hennar. Það er ómetanlegt að eiga þess háttar staðfestingu á því að hafa verið elskuð svona heitt. Við erum mikið til hætt að skrifa bréf og tölvupósturinn er orðinn að skrímsli sem nærist á tíma og athygli okkar allra. Hann telst eiginlega ekki með.
Þessari dagbókarhvatningu er sérstaklega beint til kvenna. Ástæða þess að mannkyns- og Íslandssagan er karlasaga er einmitt sú að heimildirnar eru rýrari. Ég ætla að leyfa mér að fullyrða að íslenskar konur hafi almennt unnið svo mikið í gegnum tíðina – bæði heima og úti – að þeim hefur fæstum dottið í hug að setjast niður í rólegheitum í lok dags og setja hugsanir sínar á blað. Allir stjórnmálamennirnir sem komu heim og skrifuðu „nótur“ um það sem hæst bar þann daginn á meðan eiginkonurnar undirbjuggu kvöldmat og sinntu börnunum – þeir geta skilað þeim á Þjóðskjalasafn og gefið út ævisögur á meðan þær konur sem hafa stigið inn á þann vettvang síðustu ár og áratugi hafa fæstar notið slíkrar umönnunar og stuðnings heldur bíður önnur og þriðja vaktin eftir þeim þegar heim er komið.
Lærdómurinn er því þessi, gott fólk, konur, karlar og kvár: skruna minna, skrifa meira. Annars vegar gerir það okkur gott að skrásetja tilfinningar og atburði, stóra og smáa og hins vegar munu yngstu börn þakka ykkur fyrir það eftir ykkar dag.
Athugasemdir (2)