Heimildin stendur fyrir kappræðum milli þeirra forsetaframbjóðenda sem mælast með yfir tveggja prósenta fylgi samkvæmt kosningaspá miðilsins í Tjarnarbíói næstkomandi þriðjudag. Viðburðinum verður streymt á miðlum Heimildarinnar, selt verður inn á hann á hóflegu verði á meðan að húsrúm leyfir en áskrifendum miðilsins er boðið gjaldfrjálst að vera gestir í sal.
Miðað við stöðu mála nú munu þar etja kappi þau Arnar Þór Jónsson, Baldur Þórhallsson, Halla Hrund Logadóttir, Halla Tómasdóttir, Jón Gnarr og Katrín Jakobsdóttir. Samkvæmt nýjustu kosningaspá mælist fylgi þeirra á bilinu 5,7 til 24,2 prósent en aðrir frambjóðendur mælast samanlagt með um fjögurra prósent fylgi.
Kappræðunum verður stýrt af Helga Seljan, Margréti Marteinsdóttur og Aðalsteini Kjartanssyni. Húsið verður opnað klukkan 18 og skömmu síðar hefjast lifandi umræður á sviði með sérfræðingum þar sem fjallað verður um ýmsa anga forsetakosninganna.
Kappræðurnar sjálfar hefjast svo klukkan 20. Gert er ráð fyrir að þær standi til 21.30.
Athugasemdir (2)