„Við verðum að kveikja ljósin og lofta út úr því reykfyllta bakherbergi sem málið hefur fengið að þróast í,“ sagði Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, á alþingi í morgun og fór fram á að þingið rannsakaði framgöngu tveggja ráðherra, í tengslum við samkomulag Haraldar Johannessen, þáverandi ríkislögreglustjóra, við níu undirmenn sína. Þeir fólu í sér stórbætt lífeyrisréttindi.
„Í ljósi niðurstöðu hæstaréttar frá í mars síðastliðnum þar sem samkomulag þáverandi ríkislögreglustjóra var sagt ólögmætur gjafagjörningur, hlýtur þingið að þurfa að bregðast við.“
Að lágmarki 500 milljón króna kostnaður mun falla á ríkissjóð vegna þess, jafnvel þó Hæstiréttur hafi talið gjörning Haraldar ólögmætan örlætisgjörnings sem gerður hafi verið við útvalda undirmenn ríkislögreglustjórans.
„Í ljósi niðurstöðu hæstaréttar frá í mars síðastliðnum þar sem samkomulag þáverandi ríkislögreglustjóra var sagt ólögmætur gjafagjörningur, hlýtur þingið að þurfa að bregðast við,“ sagði Björn Leví.
Hann vísaði í ræðu sinni sérstaklega til þess hvernig Hæstiréttur tiltekur hlut tveggja ráðherra, sem ástæðu þess að samningar ríkislögreglustjóra skyldu standa, þrátt fyrir að þá hefði Haraldur Johannessen gert í heimildarleysi án samráðs.
„Í niðurstöðu dómsins kemur skýrt fram að afstaða ráðherra, sem var þvert á mat ráðuneytisins, til heimildar þáverandi ríkislögreglustjóra, hafi verið til styrkja trú þeirra sem nutu ólögmæta gjafagjörningsins,“ sagði Björn og vitnaði orðrétt í dóm Hæstaréttar um yfirlýsingar ráðherrana sem hafi orðið til að „skuldbinda“ ríkið til að standa við samkomulagið.
Í nýjasta tölublaði Heimildarinnar kemur fram að ráðherrunum var ítrekað bent á að samningarnir væru óeðlilegir, myndu hafa í för með sér gríðarlegan aukin kostnað fyrir ríkissjóð og væru ekki í samræmi við heimildir ríkislögreglustjóra. Yfirlýsingar fjármálaráðherrans þáverandi í umræðum um málið á Alþingi, þar sem hann sagði ráðuneyti hans hafa metið samningagerð Haraldar, innan heimilda.
Fjármálaráðherra fullyrti í ræðu sinni 24. febrúar 2020 að niðurstaða ráðuneytisins væri Haraldi Johannessen hafi verið heimilt að gera samning eins og þann sem hann gerði við níu undirmenn sína. Þremur vikum fyrr hafði þó embættismaður í ráðuneytinu komist að þveröfugri niðurstöðu og beint því til dómsmálaráðuneytis að skoða hvort afturkalla ætti samkomulagið.
Ekkert í þeim gögnum sem Heimildin fékk afhent úr fjármálaráðuneytinu, bendir til þess að ráðuneytið hafi gefið grænt ljós á heimildir Haraldar.
„En ég ætla að gefa mér að stjórnarmeirihlutinn hafi engan áhuga á því og gerist því samsekur í verkleysi sínu gagnvart því verkefni sínu að rannsaka þetta mál á heiðarlegan hátt.“
Hæstiréttur gerði athugasemdir við seinagang, ónákvæmar og ótímabærar yfirlýsingar Bjarna Benediktssonar, þáverandi fjármálaráðherra, og Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, þáverandi dómsmálaráðherra, um réttmæti samninganna, sem gerðir voru haustið 2019.
Björn Leví sagði að þetta mætti auðveldlega túlka þannig að ráðherrarnir hafi í raun tekið til sín ábyrgðina með því að leggja blessun sína yfir samkomulagið, sem embættismenn beggja ráðuneytanna komust að niðurstöðu um að væri þvert á móti, gert í heimildarleysi.
„Það tók ráðuneytið hálft ár að ríkislögreglustjóra var ekki heimilt að taka þessa ákvörðun, sem var svo gert að engu tæpum mánuði síðar af ráðherra sem blessaði þennan gjörning í ræðustól þingsins,“ sagði Björn Leví sem ræddi einnig þátt þáverandi dómsmálaráðherra í málinu, sem þrátt fyrir ábendingar og varnaðarorð um lögmæti samkomulagsins, fullyrt að Haraldur hefði verið með allt á þurru í málinu.
Í samtali við Heimildina hefur ráðherrann viðurkennt að það hafi ekki verið heppilegt að hún færi fram með slíka fullyrðingu, hafandi einungis orð Haraldar sjálfs fyrir henni. Hæstiréttur gagnrýnir það atriði og segir Áslaugu hafa verið í lófa lagið að leita annað eftir áliti, enda hafi hún haft til þess hátt í mánuð.
„Já ég hefði átt að gera það. Það er niðurstaða Hæstaréttar,“ sagði Áslaug í nýjasta tölublaði Heimildarinnar.
Björn Leví sagði framgöngu ráðherrana beggja annað af tvennu; dómgreindarskort eða spillingu.
„Og sá sem sér það ekki þarf að kynna sér hugtakið spilling betur, því að rökin fyrir því ættu að vera augljós öllum sem skoða málið," sagði Björn Leví og endurtók kröfu sína um að þingið tæki málið til rannsóknar; það væri þingsins að hafa eftirlit með framkvæmdavaldinu. Það væri beinlínis skylda þingsins.
„En ég ætla að gefa mér að stjórnarmeirihlutinn hafi engan áhuga á því og gerist því samsekur í verkleysi sínu gagnvart því verkefni sínu að rannsaka þetta mál á heiðarlegan hátt,“ sagði þingmaðurinn sem taldi ráðherrana hafa haft mörg ár til að sinna sínum skyldum en „klúðrað því ærlega."
Þetta er í annað sinn sem Píratar taka málið upp á Alþingi en fyrir tveimur vikum ræddi Þórhildur Sunna Ævarsdóttir málið við núverandi dómsmálaráðherra, og spurði hana hvort ekki væri ástæða til þess að rannsókn fari fram á embættisfærslum Haraldar, með tilliti til ákvæða laga um réttindi og skyldur embættismanna og ákvæða laga um brot í opinberu starfi.
Ráðherra sagði það ekki sitt að gera það og vísaði málinu á Héraðssaksóknara. Það hafa fleiri embætti og stofnanir raunar gert í samtali við Heimildina. Síðast þegar fréttist hafði þó Héraðssaksóknari málið ekki á sínu borði og á honum var að skilja að það yrði ekki rannsakað nema að fram kæmi beiðni eða kæra í málinu.
Athugasemdir (1)