Talsverð umræða hefur að undanförnu farið fram um styttingu framhaldsskólans sem varð að veruleika á síðasta áratug – eftir áratugalanga umfjöllun. Umræðan hefur nú einkum snúist um undirbúning fyrir háskólanám. Í því sambandi viljum við minna á að undirbúningur fyrir nám í háskóla fer ekki aðeins fram í framhaldsskólum heldur á skólagöngunni allri, þ.e. á sér einnig stað í grunnskóla – og hefst í raun í leikskóla. Munum líka að ungmenni öðlast félagsþroska á öllum skólastigunum, þ.m.t. háskólastigi.
Okkur finnst að gleymst hafi í þessari umræðu að líta til þróunar grunnskólans á áratugnum á undan styttingunni – og einnig leikskólans.
Lenging skóladags og skólaárs grunnskóla
Í kjölfar áralangrar umræðu um stuttan og brotakenndan skóladag grunnskólabarna og styttra skólaár á Íslandi en í öðrum löndum var ákveðið að lengja skólaár og skóladag grunnskólabarna smám saman kringum aldamótin síðustu. Það var gert með lögum um grunnskóla frá 1995 (26. og 27. grein og bráðabirgðarákvæði um að lengingin kæmi til framkvæmda á fimm árum) og breytingu á lögunum ári síðar um að lenging skóladagsins gæti koma til framkvæmda á lengri tíma en upphaflega var áætlað. Þessar breytingar komu síðan til framkvæmda í skrefum um allt land á árunum í kringum aldamótin. Lengingin í heild samsvaraði heilum tveimur skólaárum ef talinn er fjöldi árlegra kennslustunda sem bættust við daglega og árlega skólagöngu. Það er talsverð lenging. Árlegum skóladögum var aftur fjölgað með kjarasamningum kennara og síðar grunnskólalögum frá 2008 (28. gr.).
Við það að meira rými skapaðist í grunnskólanum gerðist einkum tvennt. Í fyrsta lagi færðist upphaf kennslu í ákveðnum námsgreinum „neðar“, þ.e. í neðri bekki grunnskólans. Sem dæmi má nefna að farið var að kenna ensku og dönsku, greinar sem áður voru ekki kenndar fyrr en á unglingastigi, á neðri stigum grunnskólans. Í öðru lagi fluttist eða „rak“ framhaldsskólaefni „niður í" grunnskólann (kallast námsefnisrek), s.s. í íslenskri málfræði og bókmenntum, erlendum tungumálum og stærðfræði. Við þetta tvennt varð talsverð endurtekning á námsefni á skilum skólastiganna, þ.e. sambærilegt eða sama efni var til umfjöllunar í efstu bekkjum grunnskóla og í upphafi framhaldsskóla. Sýnt hefur verið fram á þessa endurtekningu með rannsóknum (sjá t.d. Skil skólastiga: frá leikskóla til grunnskóla og grunnskóla til framhaldsskóla eftir Gerði G. Óskarsdóttur frá 2012).
Til viðbótar má minna á að skólaskylda sex ára barna í grunnskóla hafði verið lögfest með grunnskólalögum frá 1991 (1. og 53. gr.), en svonefndir sex ára bekkir höfðu þá um allnokkurt skeið verið reknir við grunnskóla.
Viðbrögð bæði í grunnskólum og framhaldsskólum
Til að mæta ofangreindum breytingum var víða farið að bjóða upp á framhaldsskólaáfanga, þ.e. byrjunaráfanga, í ákveðnum greinum í 10. bekk grunnskóla. Sem dæmi má nefna að fjarnámið í Fjölbrautaskólanum við Ármúla átti samstarf við nokkra grunnskóla til að greiða fyrir þessum möguleika. Þetta dró skýrt fram að um var að ræða að miklum hluta sama efni og verið var að kenna í 10. bekk grunnskóla. Áfangakerfisskólar mátu almennt þessar framhaldsskólaeiningar sem grunnskólanemendur höfðu aflað sér, en bekkjarkerfisskólar gerðu það ekki.
Framhaldsskólar brugðust einnig við þessu „reki námsefnis“. Í örfá ár á þessum tíma buðu t.d. nokkrir framhaldsskólar nemendum að hefja framhaldsskólanám beint úr 9. bekk, svo sem MR og MA. Á sama tíma bauð t.d. MR upp á val um háskólaefni á 4. ári í hagfræði o.fl. Viðkomandi nemendur endurtóku svo saman efni að hluta til í háskóla.
Þessi þróun kom fram í því að þegar að styttingunni kom skáru áfangakerfisskólar gjarnan byrjunaráfangana af, sem voru með efni sem nú var búið að vinna með í grunnskólanum. Þá var ekki verið að „klára sama magn námsefnis á styttri tíma“. Þessi leið gekk verr í bekkjarkerfisskólunum.
Lenging leikskólans
Sambærileg þróun varð á svipuðum tíma, það er í kringum síðustu aldamót og á fyrstu árum 21. aldarinnar, á skilum leik- og grunnskóla. Leikskólinn „lengdist“ þegar nær öll börn fóru að sækja leikskóla daglangt í um fjögur ár. Þá varð sú þróun að uppeldisfræðilegt efni sem áður var hluti af upphafi grunnskóla er nú hluti af leikskóla. Við þetta skapaðist einnig rými í grunnskólanum fyrir nýtt efni þegar viðfangsefni hafði „rekið niður“ í leikskólann og nemendur komu þess vegna með betri undirstöðu í grunnskólann.
Þetta þýðir að efni sem tekið var fyrir, t.d. með sjö eða átta ára börnum áður fyrr, er nú tekið fyrir í leikskóla og efni sem við mörg fengumst við á sínum tíma í framhaldsskóla er nú til umfjöllunar á unglingastigi grunnskóla.
Styttingin eðlilegt framhald
Þannig er ekki óeðlilegt að líta á styttingu framhaldsskólans sem eðlilegt framhald af lengingu skóladagsins og skólaársins í grunnskólum og þróun leikskólans. Þess má reyndar geta að vel getur verið að þessi þróun hafi ekki verið dregin fram með skýrum hætti þegar styttingin tók að verða að veruleika í kjölfar aðalnámskrár framhaldsskóla frá 2011, og hnykkt var á árið 2014.
Í umræðu um styttinguna heyrist gjarnan að hún hafi valdið miklu álagi á nemendur á framhaldsskólaárunum. Horfum ekki fram hjá því að álag getur stafað að öðru en álagi og kröfum í námsefninu. Það er margt sem glepur ungmenni nú sem ekki var fyrri hendi hér áður, s.s. kröfur og álag samfélags og skilaboð samskiptamiðlanna, auk vinnu með námi sem aukist hefur á undanförnum árum. Þessi þróun hefur líka áhrif á nám nemenda í háskólum.
Á þessu máli eru því margar hliðar sem vert er að skoða í heild sinni.
Athugasemdir