Stjórn Landsvirkjunar hefur ákveðið að hækka arðgreiðslu sína til ríkissjóðs vegna síðasta árs úr 20 í 30 milljarða króna. Í tilkynningu kemur fram að stjórnin hafi tekið þessa ákvörðun eftir umleitan Sigurðar Inga Jóhannssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, í „ljósi þess að árið 2023 var besta rekstrarár í tæplega 60 ára sögu Landsvirkjunar. Fjárhagsstaða fyrirtækisins er því góð, auk þess sem hækkunin rúmast innan arðgreiðslustefnu Landsvirkjunar.
Þar kemur einnig fram að breytingar hafi orðið á stjórn Landsvirkjunar, en Jónas Þór Guðmundsson, sem verið hefur stjórnarformaður fyrirtækisins í áratug, er nú farinn úr stjórn. Í hans stað kemur Jens Garðar Helgason, aðstoðarforstjóri Fiskeldis Austfjarða hf. og Laxa fiskeldis hf., og fyrrverandi formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, inn í stjórnina og Jón Björn Hákonarson, fyrrverandi varaformaður stjórnar, tekur við sem stjórnarformaður. Jón Björn var áður bæjarstjóri Fjarðarbyggðar en hann var oddviti Framsóknarflokksins í sveitarfélaginu.
Fráfarandi formaður, Jónas Þór, hefur verið náinn samstarfsmaður Bjarna Benediktssonar á meðan að hann sat í fjármála- og efnahagsráðuneytinu í áratug. Hann var einnig formaður Kjararáðs á sínum tíma og sat þar sem fulltrúi Sjálfstæðisflokks. Breytingin á stjórnarformennsku, þar sem fulltrúi Framsóknarflokks tekur við af fulltrúa Sjálfstæðisflokks, á sér stað í kjölfar þess að Sigurður Ingi, formaður Framsóknarflokksins, settist í fjármála- og efnahagsráðuneytið. Aðrir stjórnarmenn í Landsvirkjun eru Álfheiður Ingadóttir, Soffía Björk Guðmundsdóttir og Gunnar Tryggvason.
Hagnaðist um 52 milljarða í fyrra
Landsvirkjun hagnaðist um 52 milljarða króna í fyrra sem var aukning upp á 19 prósent frá fyrra ári. Eiginfjárhlutfall fyrirtækisins, sem er í eigu íslenska ríkisins, stóð í 65,4 prósent um síðustu áramót og vaxtaberandi skuldir að frádregnu handbæru fé lækkuðu um 21 milljarð króna á árinu 2023. Skuldsetning Landsvirkjunar er nú komin niður í 1,4 sinnum rekstrarhagnað fyrir afskriftir og hefur aldrei verið heilbrigðari. Í tilkynningu vegna ársuppgjörsins, sem birt var fyrr á árinu, sagði að Rekstrarárin 2022-23 hafi verið einstök í sögu fyrirtækisins, einkum vegna endursamninga síðustu ára, hagstæðra aðstæðna á mörkuðum „og raforkusamnings við stórnotanda sem tengdur var verðþróun á Nordpool og reyndist Landsvirkjun mjög hagstæður en er nú runninn út. Áfram eru horfur á góðri afkomu Landsvirkjunar á árinu 2024, en ekki eru líkur á því að afkoman verði jafn góð og þessi tvö ár fyrr en að endursamningum við Alcoa lýkur og nýjar aflstöðvar hefja rekstur.“
Í nýbirtri fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til næstu fimm ára kom fram að reiknað sé með arðgreiðslum upp á 22 til 26 milljarða króna á ári á þeim árum sem áætlunin nær til.
Athugasemdir (1)