Við Íslendingar eignuðumst nýverið nýjan forsætisráðherra. Þakklæti virðist þjóðinni þó ekki ofarlega í huga. Könnun sýnir að 73 prósent landsmanna vantreysta Bjarna Benediktssyni sem forsætisráðherra. Sjö af hverjum tíu eru neikvæð gagnvart nýrri ríkisstjórn.
Vafningsmálið, Borgunarmálið, Panamaskjölin, uppreist æra barnaníðings, Sjóður 9 og Íslandsbankamálið. Af þeim hneykslismálum að dæma, sem Bjarni hefur flækst í, mætti draga þá ályktun að þau sem helst hafi notið góðs af stjórnmálaþátttöku hans séu venslafólk hans, velunnarar, hann sjálfur – og ég.
Gæfa kvótahafa
Fjöldi rannsókna hefur sýnt fram á gagnsemi þakklætis. Í einni slíkri rannsókn var hópi fólks sagt að skrifa reglulega niður það sem þau voru þakklát fyrir í vikunni en öðrum hópi sagt að skrifa niður það sem þeim gramdist. Tíu vikum síðar var fyrri hópurinn orðinn langtum jákvæðari, hamingjusamari og heilsuhraustari en sá seinni.
Bjarni Benediktsson varð formaður Sjálfstæðisflokksins árið 2009. Um svipað leyti var ég ráðin til að skrifa pistla um pólitík fyrir Fréttablaðið. Síðan eru liðnir 578 pistlar.
Í fimmtán ár hef ég lifað við vikulegan ótta: „Hvað ef ég fæ enga pistlahugmynd?“ Breytir þar engu þótt síðustu 578 skipti hafi óttinn verið óþarfur, ég er jafnsannfærð um að þegar kemur að pistli 579 verði kvótinn minn uppurinn. Því hversu margar skoðanir getur ein kona haft – eða gert sér upp?
En það eru ekki aðeins handhafar sjávarútvegskvóta sem eiga gæfu sína að þakka formanni Sjálfstæðisflokksins. Ég hef ekki tölu yfir öll þau skipti sem ég sat síðustu fimmtán ár og starði stjörf á autt Word-skjal á tölvuskjá þegar Bjarni kom svífandi á öldum ljósvakans eins og samruni Súpermanns, Klaufabárðanna og Svarthöfða, færandi hendi. Ef Bjarni var ekki að leysa ættingja sína úr snöru var hann að selja þeim banka.
Eini fastinn í fallvöltum heimi
„Almennt séð má alltaf finna eitthvað til að vera þakklátur fyrir, svo lengi sem maður leitar nógu lengi,“ segir í bókinni Pollýanna, sem fjallar um munaðarlausa stúlku sem kemur auga á hið jákvæða í öllum aðstæðum. Vísindin boða að slíkt sé okkur hollt. Laurie Santos, prófessor í sálfræði við Yale-háskóla, segir þakklæti verma fyrsta sætið yfir þær breytur sem auka á hamingju okkar. Hún ræður fólki að gera það að vana sínum að skrifa daglega niður fimm atriði sem það er þakklátt fyrir.
Tæplega 42 þúsund manns hafa skrifað nafn sitt við undirskriftalista þar sem stöðuhækkun Bjarna er mótmælt. En þótt samfélagsþegninn í mér taki undir gremju þeirra hyggst pistlahöfundurinn í mér fara að ráðum vísindanna og vera þakklátur.
Ég veit ekki hvað ég hef farið í gegnum margar teflon-pönnur í stjórnmálatíð Bjarna. En ávallt er Bjarni á sínum stað, eini fastinn í fallvöltum heimi, á vaktinni þegar Engeyjarættin og hugmyndalausir pistlahöfundar þurfa á hjálp að halda. Bjarni er eins og kvikmyndaflokkur sem stöðugt er endurnýjaður sama hvað áhorfið minnkar. Velkomin aftur á „Night of the living dead“ – ekkert fær honum grandað og hann snýr alltaf aftur.
Þegar munaðarleysinginn Pollýanna óskaði sér dúkku í jólagjöf frá góðgerðasamtökum fyrir fátæka varð henni ekki að ósk sinni. Í staðinn fékk hún hækjur. Í fyrstu varð Pollýanna vonsvikin. Hún var þó ekki lengi að taka gleði sína þegar hún kom auga á ástæðu til að vera þakklát. Hún gat glaðst yfir þeirri staðreynd að hún hafði engin not fyrir hækjurnar. Síðar lamaðist Pollýanna á fótum. Á ný fann hún ástæðu til þakklætis. Hún hafði að minnsta kosti ekki misst útlimina.
Þakklæti dagsins: Hvað væri pistlahöfundur í fullkomnum heimi? Atvinnulaus.
Í næstu viku mun ég fjalla um ástæður þess að ég er þakklát fyrir hamfarahlýnun, skipulagða glæpastarfsemi og hungursneyð.
Raunveruleikinn er súrrealískri en fólk heldur.