Ég er af kynslóð fólks sem fæddist undir lok 8. áratugarins og við upphaf þess 9. og fór í gegnum mótunarárin í of stórum flónel-skyrtum úr Vinnufatabúðinni með lyklakippu með mynd af Kurt Cobain í símalausum vasanum og vasadiskó í Jansport-bakpokanum sem hefði spilað lög um tilgangsleysi tilverunnar daginn út og inn ef batteríin hefðu ekki alltaf verið að klárast.
Það er aðeins nýlega sem þessari kynslóð var gefið nafn. Árið 2020 var orðinu „xennial“-kynslóðin bætt við ensku Oxford-orðabókina. Það helsta sem einkennir xennial-kynslóðina er það sem hún er ekki. Eins og nafnið gefur til kynna erum við ekki alveg „millennials“ af því að: a) Þótt við tökum af okkur sjálfur með avókadó-brauð og „búbblur“ í botnlausum bröns á veitingastöðum kysum við heldur að sitja heima með Sómasamloku og súperdós yfir línulegri dagskrá; og b) Þótt við viðrum ekki hverja einustu vanhugsuðu skoðun sem flýgur um hug okkar á Facebook teljum við engu að síður tjáningarfrelsið vera góða hugmynd. Við erum ekki heldur X-kynslóðin af því að: a) Það er okkur jafnhulin ráðgáta hvar við vorum stödd þegar Olof Palme var myrtur og „hver drap Lauru Palmer“; og b) Þótt „woke“-krossfarar á Twitter fari í taugarnar á okkur erum við ekki alltaf að væla yfir þeim eins og Brynjar Níelsson.
Fyrst og fremst erum við hins vegar kynslóðin sem er hvorki „analóg“ né „digital“.
Tene eða húsnæðislánið?
Í síðustu viku voru sagðar fréttir af ónafngreindum íslenskum hjónum á barmi skilnaðar. Var ástæða sambandserfiðleikanna sú að konan vildi fara í frí til Tenerife en maðurinn taldi þau ekki hafa efni á ferðinni og vildi heldur borga inn á húsnæðislánið. Úlfakreppan var til umfjöllunar á Smartlandi, þar sem Theodór Francis Birgisson, klínískur félagsráðgjafi, ræður lesendum heilt. Hvatti Theodór lesendur til að ferðast og leika sér, en aðeins ef þeir hefðu efni á því.
„Þótt „woke“-krossfarar á Twitter fari í taugarnar á okkur erum við ekki alltaf að væla yfir þeim eins og Brynjar Níelsson“
Á þeim árum sem ég klæddist flónel-skyrtum fékk fólk fréttir úr dagblöðum, útvarpi og sjónvarpi. Hefðbundnir fjölmiðlar ákváðu hvað taldist frétt; stríð, stýrivextir, stjórnmálafólk, konungsfólk og „hverjir voru hvar“.
Þeim fjölgar hins vegar hratt sem fylgjast með fréttum gegnum samfélagsmiðla.
Í fréttum er þetta helst: Stýrivextir hækka og Stína æskuvinkona var á kokteilbar í gær – (hvers vegna var mér ekki boðið?). Átök geisa á Gasa og Fía frænka hefur nýlokið við að gera upp þrjú hundruð fermetra einbýlishús og bakar nú sykurlaust bananabrauð í öðrum af tveimur bakaraofnum eldhússins – (mun ég einhvern tímann eignast eldhús með tveimur bakaraofnum?). Það er komin ný ríkisstjórn og Nanna nágrannakona er í New York að tala á ráðstefnu – (hvers vegna fæ ég aldrei að tala á ráðstefnum?).
Hamingjustundir annarra
Við xennial-fólk ólumst upp við stillimynd í Sjónvarpinu en komumst til manns með iPhone í vasanum. Við erum með nefið ofan í símunum eins og „millenial“-kynslóðin en finnum honum samhliða allt til foráttu eins og X-kynslóðin; við flettum Facebook uns okkur verkjar í þumalinn en veltum á sama tíma fyrir okkur hvernig lífi okkar væri háttað hefðu samfélagsmiðlar aldrei orðið til.
Værum við sáttari við hlutskipti okkar ef við værum ekki stöðugt með fyrir augunum skíðaferðir, fermingar og berar táslur á Tene? Værum við stoltari af eigin athöfnum ef afrek og hamingjustundir annarra væru ekki alltaf „í fréttum er þetta helst“?
Í athugasemdum við frétt um hjónin sem rifust um Tene og húsnæðislánið var hæðst að konunni og hún kölluð heimskingi.
Það er auðvelt að setja sig á háan hest og fordæma vonir annarra. En hversu margt gerum við sjálf í hálfgerðu hugsunarleysi bara af því að við sáum einhvern annan gera það á Facebook?
„Virkir í athugasemdum“ kunna að sverja af sér áhuga á að bera á sér tærnar á Tene. En séð frá einskismannslandi xennial-kynslóðarinnar blasir við tvískinnungur þeirra. Þótt við látumst frjáls undan oki tækninnar vitum við að við erum henni ofurseld.
Ertu viss um að draumar þínir séu ekki aðeins afsprengi tímans sem þú varðir í símanum?
Athugasemdir (1)