Eignarhaldsfélags Kjartans Gunnarsson, fjárfestis og fyrrverandi framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins, seldi hlutabréf í breska veðlánafyrirtækinu Ortus Secured Finance til almenningshlutafélagsins Kviku banka árið 2022 og hagnaðist á því.
Í ársreikningi eignarhaldsfélags Kjartans, KGK einn ehf., sem átti hlutabréfin í Ortus kemur fram að þetta ár hafi félagið selt bréf fyrir 216 milljónir króna. Ekki er tekið fram í ársreikningnum hvort öll þessi hlutabréf hafi verið í Ortus en þetta félag átti og seldi hlutabréf í lánafyrirtækinu þetta ár.
Kvika er að stóru leyti í eigu íslenska lífeyrissjóða, og þar með sjóðsfélaga þeirra, og eru sjóðirnir samanlagt langstærstu hluthafar Kviku með nærri helming hlutafjárins. Eignir Kviku eru því að stóru leyti óbein eign íslenskra lífeyrissjóða og þar með sjóðsfélaga þeirra.
Keypti bréfin í Ortus á 25 milljónir króna
Félag Kjartans hagnaðist um tæplega 192 milljónir króna þetta ár, að mestu vegna sölu á hlutabréfum. Í ársreikningi þess einkahlutafélags fyrir árið 2018, eftir að það keypti í Ortus, kemur fram að félagið hafi borgað rúmlega 25 milljónir króna fyrir bréfin í Ortus og voru þau færð á nafnverði í ársreikningnum.
Miðað við þetta þá hefur félag Kjartans fjárfest í Ortus fyrir 25 milljónir króna en selt fyrir 216 milljónir þegar Kvika keypti bréfin af honum árið 2022. Kjartan hefur því tæplega nífaldað fjárfestingu sína í Ortus þegar Kvika keypti hlutabréfin af honum.
Þeir Kjartan og Ármann Þorvaldsson hafa verið meðfjárfestar í nokkrum fyrirtækjum í gegnum árin, meðal annars í Almenna bókafélaginu, Ortus, Marininvest, og einnig Auði Capital og Tryggingamiðstöðinni á sínum tíma.
Tengslin við Ármann
Heimildin hefur fjallað ítarlega um viðskipti Kviku banka með Ortus síðustu mánuðina. Ástæðan er meðal annars sú að Ármann Þorvaldsson, sem verið hefur forstjóri og eða aðstoðarforstjóri Kviku í mörg ár, stofnaði þetta breska fyrirtæki og var framkvæmdastjóri þess og stór hluthafi í því. Þá var stór hluti kaupverðsins sem Kvika greiddi eigendum Ortus, byggður á óefnislegum eignum breska veðlánafyrirtækisins eða svokallaðri viðskiptavild.
Blaðið hefur einnig greint frá því að Kvika hafi verið sektuð af fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands fyrir að hafa selt viðskiptavinum sínum skuldabréf sem voru gefin út af dótturfélagi Ortus. Ástæða sektarinnar voru hagsmunaárekstrar út af meðal annars Ármanni Þorvaldssyni sem Kvika greindi fjárfestum ekki nægilega vel frá að mati fjármálaeftirlitsins.
Ármann hefur sagt við Heimildina að hann hafi selt hlutabréfin sín í Ortus til Stoða árið 2018 þegar Kvika fjárfesti fyrst í því. Kvika endaði svo á því að kaupa hlutabréf Stoða í félaginu og fleiri fyrrverandi meðfjárfesta Ármanns í því, meðal annars Örvars Kjærnested og Kjartans Gunnarssonar, árið 2022 og viðkomandi fjárfestar högnuðust vel á því. Meðal annars félag Kjartans Gunnarssonar.
Athugasemdir