Katrín Jakobsdóttir mun óska lausnar sem forsætisráðherra, segja af sér þingmennsku og hætta sem formaður Vinstri grænna, nú þegar hún hefur tilkynnt forsetaframboð.
Í samtali við Heimildina segir Katrín að hún hafi verið búin að ákveða í vetur að hætta í stjórnmálum eftir þetta kjörtímabil og vera ekki í framboði í næstu þingkosningum, sem fara að óbreyttu fram á næsta ári.
Fann að tíminn væri kominn
„Það er auðvitað þannig að ég hef helgað líf mitt stjórnmálum. Ég hef verið í þeim öll mín fullorðinsár. Og stundum finnur maður að tíminn er kominn. Það var þannig hjá mér. En ég sá ekki fyrir mér forsetaframboð fyrr en töluvert var liðið fram á þetta ár og fór í raun ekki að hugsa um það alvarlega fyrr en um páskana,“ segir Katrín.
Hún segir að um risastóra ákvörðun sé að ræða. „Þótt maður hafi ákveðið að gefa ekki kost á sér í þingkosningum eftir ár þá er allt annað að segja skilið við stjórnmálin með frekar skyndilegum hætti. Þetta er risastór ákvörðun að fara í forsetaframboð. Mér finnst þetta mjög mikilvægt embætti fyrir þjóðina og ég er spennt fyrir því að eiga samtal við þjóðina um bæði embættið og lýðveldið.“
Yppti öxlum þegar hún var spurð um það hvort stjórnin héldi án hennar
Katrín segir að hún hafi upplýst formenn hinna stjórnarflokkanna, Sigurð Inga Jóhannsson og Bjarna Benediktsson, um að hún hafi verið að hugsa mjög alvarlega um forsetaframboð og sömu sögu sé að segja um varaformann Vinstri grænna, Guðmund Inga Guðbrandsson. Hún segir það annarra að svara því hvað verði um ríkisstjórnina sem hún hefur leitt síðustu rúmu sex árin. Spurð hvort hún teldi að stjórnin héldi yppti Katrín einfaldlega öxlum og sagði ekkert.
Katrín vildi ekki tjá sig um það hver tæki við sem forsætisráðherra. „Nú er ég komin á annan stað og það er risastór ákvörðun að segja skilið við stjórnmálin. En það þýðir að ég hef sagt skilið við þau. Það er þriggja flokka meirihluti á þingi og stjórnarsáttmáli í gildi.“
„Ég held að hreyfingin lifi bara góðu lífi án mín“
Katrín sagðist ekkert geta sagt um það hvort hún telji að Vinstri græn geti áfram leitt stjórnarsamstarfið né hver muni taka við af henni sem formaður Vinstri grænna. „Guðmundur Ingi er auðvitað varaformaður en ég vænti þess að flokkurinn muni svo halda aukalandsfund til að kjósa nýjan formann. Ég veit satt best að segja ekki hvenær þau gera það en ég fer á stjórnarfund á eftir og þar verður farið yfir þetta.“
Hún sér brotthvarf sitt sem tækifæri fyrir Vinstri græn. „Það er þannig að enginn er ómissandi, hvorki í stjórnmálum né annars staðar. Ég hef verið formaður hreyfingarinnar síðan 2013, í ellefu ár, og þar áður varaformaður í tíu ár. Þannig að þetta er alllangur tími. Auðvitað munar um mann, ég segi það ekki, en ég held að hreyfingin lifi bara góðu lífi án mín.“
Eru rotturnar þá ekki fyrstar að forða sér?