Engin mótframboð bárust til formanns Blaðamannafélags Íslands (BÍ). Þetta staðfestir Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður félagsins, í samtali við Heimildina. Hún er því ein í framboði og mun sitja áfram næstu tvö árin.
Aðspurð segir Sigríður Dögg að tilkynnt verði um nýjan framkvæmdastjóra félagsins í vikunni. En hún hefur sinnt því starfi síðan Hjálmar Jónsson, sem hafði verið framkvæmdastjóri BÍ frá árinu 2003, var rekinn í janúar. Ástæðurnar sem gefnar voru fyrir uppsögninni voru trúnaðarbrestur á milli Hjálmars og stjórnar félagsins.
Trúnaðarbresturinn fólst, að sögn stjórnar BÍ, meðal annars í því að Hjálmar neitaði formanni félagsins, Sigríði Dögg, að fá skoðunaraðgang að reikningum félagsins þrátt fyrir samþykkt stjórnar þess efnis. En Hjálmar hefur ítrekað haldið því á lofti að Sigríður Dögg sé skattsvikari.
Endurskoðun á fjármálum og fjárveitingum
Stjórn BÍ hefur síðan látið óháðan bókara skoða tiltekin atriði í fjármálum félagsins síðasta áratuginn. Skýrsla endurskoðunarskrifstofunnar KPMG um niðurstöður bókarans mun verða kynnt á aðalfundi BÍ þann 16. apríl næstkomandi.
Í lok síðasta mánaðar tilkynnti stjórn BÍ að gagnger endurskoðun hefði nú farið fram á umgjörð og regluverki í kringum starfsemi félagsins. Þá hafi stjórnir sjóða félagsins endurskoðað reglugerðir og úthlutunarreglur til að auka skýrleika og gagnsæi í því hvernig fjármunum er úthlutað.
Breytingarnar voru gerðar í kjölfar þess að stjórn Styrktarráðs Blaðamannafélagsins vakti athygli á því að aðeins þeir sem hefðu greitt í sjóðinn að minnsta kosti síðastliðna 6 mánuði ættu rétt á greiðslu úr honum. Rétturinn fyrndist síðan 6 mánuðum eftir að greiðslum væri hætt.
Athugasemdir