Sjúkratryggingar Íslands segja að átak vegna aðgerða gegn legslímuflakki sem ráðist var í með aðkomu einkaaðila eins og Klíníkurinnar hafi skilað árangri fyrir þær konur sem glíma við þennan kvalafulla sjúkdóm. Þess vegna hafi verið ákveðið að ráðast í frekari útvistun á slíkum aðgerðum. Heimildin hefur fjallað um þessa fyrirhuguðu útvistun á aðgerðunum og hafa Sjúkratryggingar Íslands nú sent blaðinu svör við spurningum um þær.
Læknar á Landspítalanum eru sumir hverjir hugsi yfir þessari útvistun þar sem ekki séu biðlistar eftir legslímuflakksaðgerðum nú um stundir. Þar af leiðandi spyrja þeir sig að því af hverju þurfi að útvista aðgerðunum til einkaaðila eins og Klíníkurinnar. Í svörum Sjúkratrygginga Íslands kemur fram að vegna þessarar gagnrýni frá Landspítalanum ætli stofnunin að kanna hana sérstaklega áður en gengið verður til samninga við einkaðila um frekari aðgerðir.
Svör Sjúkratrygginga við spurningum Heimildarinnar eru birt í heild sinni hér fyrir neðan.
„Mat heilbrigðisráðuneytisins bendir enn til þess að talsverð þörf sé fyrir framkvæmd aðgerðanna utan heilbrigðisstofnana ríkisins.“
Enn þörf fyrir aðgerðum einkaaðila
Í svörum Sjúkratrygginga Íslands við spurningum um útvistunina kemur fram að það sé mat heilbrigðisyfirvalda að ennþá sé þörf fyrir því að einkaaðilar geri aðgerðir gegn legslímuflakki.
Stofnunin segir:
„Tilurð þess að framkvæmdar séu kviðsjáraðgerðir vegna legslímuflakks utan heilbrigðisstofnana ríkisins með greiðsluþátttöku var ríkt ákall um að aðgengi að slíkum aðgerðum yrði aukið. Í október 2022 fól heilbrigðisráðuneytið Sjúkratryggingum að semja um kviðsjáraðgerðir til greiningar eða meðferðar við sjúkdómum sem heyra undir sérsvið kvensjúkdómalækna, þar á meðal aðgerðir vegna endómetríósu. Samið var um að þau sem hefðu brýnustu þörf fyrir slíkar aðgerðir hefðu forgang og var samið um takmarkað aðgerðarmagn við Klíníkina Ármúla á grundvelli fjárveitingar. Þó að ekki hafi verið til staðar miðlægur biðlisti á þeim tíma var engu að síður talsverður skortur á aðgengi að þjónustu og gat biðtími verið langur. Þá höfðu einhver þegar leitað til Sjúkratrygginga og fengið synjun um greiðsluþátttöku.
Að mati Sjúkratrygginga hefur átakið skilað árangri í því að auka aðgengi að nauðsynlegri þjónustu en ljóst er að enn kann að vera einhver þörf fyrir slíkar aðgerðir. Mat heilbrigðisráðuneytisins bendir enn til þess að talsverð þörf sé fyrir framkvæmd aðgerðanna utan heilbrigðisstofnana ríkisins. Hins vegar gefa athugasemdir yfirlækna heilbrigðisstofnana ástæðu til þess að greina biðtíma eftir slíkum aðgerðum nánar og að kanna ástæður þess að lítil bið sé eftir slíkum aðgerðum á Landspítalanum. Verður það gert í aðdraganda samningsgerðar.
Árétta verður einnig að þó að ekki sé til staðar miðlægur biðlisti þá miðar texti auglýsingarinnar að öllum lýðheilsutengdum aðgerðum, óháð því hvort að miðlægur biðlisti sé til staðar. Fyrirsögn auglýsingarinnar er ekki síst hugsuð með það að sjónarmiði að ná til sem flestra veitenda heilbrigðisþjónustu til að fá sem besta mynd af framboði í þeim aðgerðarflokkum sem stefnt er að því að gera samninga um.
Það liggur fyrir þegar samið verður til lengri tíma að nauðsynlegt er að eiga samtal um þverfaglega veitingu slíkrar heilbrigðisþjónustu. Hafa Sjúkratryggingar þegar fundað með starfsfólki Landspítala um biðlistamál og hefur stofnunin eins mótttekið erindi frá yfirlæknum heilbrigðisstofnana með sjónarmiðum um veitingu þjónustunnar. Sjúkratryggingar munu meta þau sjónarmið og verður tekið tillit til þeirra við samningsgerðina.
Fjárveiting til þessara aðgerða var tryggð í fjárlögum ársins 2023 og í fjárlögum ársins 2024 var gert ráð fyrir að samtals 1 ma.kr. yrði varið til að stytta biðlista eftir tilteknum skurðaðgerðum, þar sem endómetríósuaðgerðir voru sérstaklega tilgreindar. Þá liggja fyrir fyrirmæli heilbrigðisráðuneytisins um aðgerðarflokka sem auglýsa á sem lýðheilsutengdar aðgerðir á grundvelli þeirrar fjárveitingar.“
Athugasemdir